Birt þann 4. júní, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Topp 10 uppáhalds YouTube rásirnar
Nú þegar sumarið er handan við hornið er upplagt að finna fleiri ástæður til að halda sig inni og horfa á YouTube. Hér eru því topp tíu uppáhalds rásirnar, eins og staðan er í dag, til að skapa örlitla afþreyingu yfir sumartímann.
10. #ZeroPunctuation
Ertu komin/nn með leið á að allir rýnendur segi það sama um alla leiki? Viltu heyra sannleikann hreint út hversu lélegir allir helstu leikir samtímans eru? Ef svo er þá er þetta rásin fyrir þig. Tölvuleikjablaðamaðurinn, já þessi titill er til, Ben „Yahtzee“ Croshaw byrjaði með þessa seríu 2007 og hefur gert yfir 300 þætti þar sem hann hakkar tölvuleiki í sig. Virkilega fyndinn og kann svo sannarlega að orða sannleikann með frumlegum samlíkingum.
> www.youtube.com/channel/UCxl1UvTjyaUGjSUXvftgVCQ
9. Corridor Digital/Node
Það eiginlega verður að setja þessar tvær rásir saman þar sem þetta eru meira og minna sömu gaurarnir, þó er mikill munur á rásunum. Corridor Digital gefur út flott og vönduð myndbönd sem oft hafa einhverja tengingu við nörda menningu. Node er meira leikjarás, þar má finna myndbönd af þeim spila tölvuleiki og gera ýmislegt annað sem er bæði nördalegt og skemmtilegt.
> www.youtube.com/user/CorridorDigital og www.youtube.com/user/Node
8. FunHaus/The Know
Hér er á ferðinni rás sem er partur af RoosterTeeth fjölskyldunni góðu. Upphaflega voru þessir snillingar með rás sem hét Inside Gaming og var í eigu Machinima. En þeir ákváðu að slíta sig frá því fyrirtæki og byrja með sýna eigin rás. Efnið frá þeim er mjög fyndið og myndvinnslan er virkilega skemmtilega unnin. Þeir eru með frekar ruglað skopskyn og eru ekkert hræddir að tjá sýnar skoðanir, sem er oft furðulega mikið til í. Einnig gefa þeir út fréttaefni saman með rásinni The Know, en sú hún er rekin af RoosterTeeth. The Know býr til fréttatengt efni um tölvuleiki og nörda menningu og gefur út nokkur myndbönd yfir daginn. Báðar þessar rásir eru líka með stórgóð hlaðvörp sem fjalla um tölvuleiki og málefni sem tengjast mismikið við leikjaspilun.
> www.youtube.com/channel/UCboMX_UNgaPBsUOIgasn3-Q og www.youtube.com/user/know
7. Good Mythical Morning
Daglegur morgunþáttur þar sem félagarnir Rhett og Link stjórna af stakri snilld. Það er alveg ótrúlegt hvað þeim dettur í hug og eru oftast óhræddir að prufa ýmislegt sem margir myndu ekki bjóða sér. Búa reglulega til leiki fyrir hvort annan og keppast þá um furðuleg verðlaun sem varla er þess virði að keppa um. Klárlega hressustu gaurarnir sem hægt er að finna snemma á morgnanna.
> www.youtube.com/user/rhettandlink2
6. LetsPlay
YouTube er yfirfullt af rásum þar sem fólk spilar tölvuleiki og þá sérstaklega Minecraft eða GTA V, það verður þó að viðurkennast að þessi rás kann að vera sú skemmtilegasta af þeim öllum. En hún samanstendur af snillingunum í Achievement Hunter, sem eru einnig partur af RoosterTeeth fjölskyldunni. Helsti styrkleiki þeirra felst í þeim samskiptum sem eiga sér stað á meðan spilun stendur yfir en sum samtölin sem eiga sér stað er hreint gull. Klárlega rás sem vel er hægt að mæla með.
> www.youtube.com/user/LetsPlay
5. Lindsey Stirling
Ef þú hefur aldrei heyrt um þessa tónlistarkonu þá er um að gera að smella á slóðina og kynna sér hana. Alveg ótrúlega hæfileikarík, heillandi og er klárlega einn besti dansandi fiðluleikari í dag. Svo skemmir ekki að hún er einnig mikið nörd og hefur búið til tónlistarmyndbönd upp úr tónlist sem margir nördar ættur að kannast við.
> www.youtube.com/user/lindseystomp
4. miracleofsound
Gavin Dunne er tónlistarmaður sem sækir innblástur sinn í lífið, tölvuleiki, kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Nánast allt sem hann gefur út er fullkomið og greinilega mikill metnaður er lagður í tónlistina og myndböndin. Ef þig vantar tónlist til að hlusta á á meðan þú spilar þinn uppáhalds tölvuleik, þá er mjög líklegt að þú finnir lag við þitt hæfi.
> https://www.youtube.com/user/miracleofsound
3. Nerdist
Líklegast er þetta besta rásin sem greinir frá fréttum sem tengjast nörda menningu, en hún er með þétta dagskrá yfir vikuna sem er fjölbreytt, fræðandi og skemmtileg. Ekki verra að fólkið sem er fyrir framan myndavélin er virkilega skemmtilegt og heillandi persónuleikar. Upprunalega byrjaði þetta sem hlaðvarp en hefur stækkað gífurlega síðan þá og er núna partur af kvikmyndafyrirtækinu Legendery Pictures, en það var ofurnördið Chris Hardwick sem byrjaði með það hlaðvarp. Eins og Nerdist orðar þetta, þú ert það sem þú horfir á!
> www.youtube.com/user/Nerdist
2. Physics Girl
Ef þú hefur áhuga á eðlisfræði og langar að læra meira eða horfa á skemmtileg myndbönd sem tengjast þessari fræði, þá er þetta rétta rásin fyrir þig. Dianna Cowern útskýrir eðlisfræði á mjög einfaldan máta og sýnir alltaf með tilraunum hvernig hlutirnir virka og af hverju.
> www.youtube.com/user/physicswoman
1. Rosanna Pansino
Nörda matreiðslu rás af bestu gerð! Það er alveg ótrúlega gaman að fylgjast með hvað Rosanna er sniðug og hvað henni dettur í hug að búa til. Svo verður bara að viðurkennast að þetta kann að vera ein viðkunnanlegasta persóna á YouTube þessa dagana. Það er frekar erfitt að brosa ekki þegar horft er á myndböndin hennar, hún er einfaldlega algjört æði. Auk þess er hægt að finna annað efni á rásinni, eins og áskoranir sem hún tekst á við með systur sinni og myndbands dagbækur. Velkomin í nörda nammið!
> www.youtube.com/user/RosannaPansino
En hverjar eru þínar uppáhalds rásir á YouTube?
Endilega deildu því með okkur í kommentkerfinu hér fyrir neðan!
Tengt efni: 10 uppáhalds nörda YouTube rásirnar
Höfundur er
Helgi Freyr Hafþórsson