Spil

Birt þann 3. desember, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

Spilarýni: Aflakló

Spilarýni: Aflakló Nörd Norðursins

Samantekt: Léttvægilegt spil sem bæði krakkar og fullorðnir geta spilað saman. Spilið krefst ekki mikillar hugsunar, er ekki djúpt og frekar handahófskennt.

3


Einkunn lesenda: 2.7 (1 atkvæði)

Daníel Páll Jóhannsson skrifar:

Aflakló er nýtt íslenskt spil þar sem leikmenn sigla í kringum Ísland, sækja fiskimiðin og selja aflann. Leikmenn reyna því að lenda á höfnum landsins, fjárfesta í fiskvinnslu og halda út á miðin til veiða.

Þema spilsins er sú að hver leikmaður er að byggja upp sitt útgerðarveldi um land allt og sá sigrar sem hefur feitasta bankareikninginn í lokin, en spilið tekur um 60-90 mínútur. Í byrjun spils velja leikmenn sér skip, fá 200 milljónir frá bankanum, tvö útspil og 12 hús sem tákna fiskvinnslur. Til að ferðast um spilaborðið er notaður teningur og ferðast skip leikmanns jafn marga reiti og teningur segir til um.

Reitirnir á spilaborðinu eru margir mismunandi, og ekki eru allir góðir. Hægt er að lenda á bæjarfélögum og þá getur leikmaður keypt sér fiskvinnslu. Þegar leikmaður kaupir sér fiskvinnslu, eða lendir á reit sem er með eigin fiskvinnslu nú þegar á, fær hann að fara á fiskimið, t.d. fiskvinnsla á Höfn leyfir leikmanni að fara á humarveiðar. Þegar leikmaður fer á fiskimið fer hann í veiðihring þar sem teningi er kastað sem ákvarðar hversu vel veiðist og fær leikmaður eitt spil fyrir hvert tonn af afla (síld, makríll, þorskur eða humar).

Hægt er að lenda á reitum sem gerir leikmanni kleift að selja fiskiaflann sinn og ákvarðast verðið samkvæmt markaðsspjaldi sem er í miðju spilaborði. Það kemur nýtt markaðsspjald þegar hver leikmaður fer aftur yfir byrjunarreitinn, því þarf að vera fljótur að selja þegar verðið er hátt, eða bíða eftir nýju spjaldi þegar verðið er lágt.

Aflaklo_01

Líka er hægt að lenda á reit sem er einfaldlega merktur með ?, og þá er dregið Atvikaspil og það lesið upphátt. Þessi Atvikaspil geta haft lítil eða stór áhrif á leikinn og eru þetta oft spil sem vísa í hluti sem eru mörgum minnistæðir úr nýlegum fréttum, t.d. Leiðréttinguna.

Hver leikmaður hefur líka Útspil á hendi og heldur þeim leyndum, og þau hafa mismunandi eiginleika og geta annaðhvort haft áhrif á andstæðinga eða leikmanninn sjálfan. Sum leyfa leikmanni að leigja fiskvinnslur af öðrum (og borga ekkert fyrir) meðan sum spil neyða andstæðinga til að selja fiskiaflann sinn á hálfvirði. Síðan eru líka Útspil sem taka fram að brestur var í veiði og allur afli af ákveðinni tegund eyðileggst (ég missti 15 tonn af síld útaf svona spili!), þannig að þarna sést að ekki er gott að halda í aflann of lengi.

Spilið lýkur þegar markaðsspjöldin eru búin og eru þá fiskvinnslur og peningar taldir, lagt saman og sá sem er með hæstu töluna vinnur.

 

Gagnrýni

Aflakló er ágætt spil í anda Hættuspilsins og Verðbréfaspilsins. Það er fljótlegt að læra reglurnar og auðvelt að kenna þær. Þema spilsins skilar sér ágætlega og þá má sérstaklega tala um Hvalveiði-reitinn sem leikmaður getur lent á, en þá fer hann á hvalveiðar og getur tapað Útspilum og/eða peningum. Í Út- og Atviksspilunum er nokkuð um skemmtileg skot á umdeild mál sem hafa verið í fréttum síðustu árin.

Aflaklo_3b

Mér fannst þetta ekki djúpt spil og það er frekar handahófskennt. Það er ekki mikið um valmöguleika frá sjónarhorni leikmannsins, heldur er teningi kastað, skip leikmanns fært og það sem er á reitnum er framkvæmt. Það er mjög lítið af ákvörðunum sem leikmaður þarf að taka og er besta leiðin oftast augljós. Útspilin geta haft áhrif á leikinn ef þau eru spiluð rétt, en annars eru þau oft bara eins og pot í rifbeinin á andstæðingnum, smá pínlegt en það varir ekki lengi.

Þetta er léttvægilegt spil sem bæði krakkar og fullorðnir geta spilað saman, en ég mun því miður ekki fjárfesta í þessu þar sem ég er ekki hrifinn af þema spilsins og finnst það ekki krefjast mikillar hugsunar.

Myndir: Aflakló á Facebook

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑