Bækur og blöð

Birt þann 6. febrúar, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

Myndasögurýni: Transmetropolitan

Myndasögurýni: Transmetropolitan Nörd Norðursins

Samantekt: Fyrir aðdáendur góðrar myndlistar eða sci fi nörda, Transmetropolitan hefur þetta allt.

5

Frábær!


Einkunn lesenda: 5 (1 atkvæði)

Kristján Már Gunnarsson skrifar:

Sumar myndasögur fá lesandann til að spyrja spurninga. Hversu langt eiga ofurhetjur að ganga til að bjarga samfélagi sínu? Hvers vegna myndi nokkur maður klæða sig upp sem leðurblaka og berjast gegn glæpum? Hvernig fæst maður við missi undir hræðilegum kringumstæðum? En sumar myndasögur vekja með manni spurningar um geðheilsu höfundar. Lesandinn spyr sig: Hvernig getur maðurinn flúið frá geðlæknum og skrifað handrit á sama tíma? Transmetropolitan er þannig myndasaga.

Transmetropolitan er runnin undan rifjum Warren Ellis og teiknað af Darick Robertson og kom út á bilinu 1997 til 2002. Warren Ellis skrifaði líka The Authority á svipuðum tíma svo tímabilið var augljóslega mjög frjótt fyrir hann. Enda er Transmetropolitan ekki bara klassísk myndasaga heldur líka vísindaskáldssaga sem er vert að taka eftir og lesa.

Transmetropolitan kynnir til sögunnar andhetjuna Spider Jerusalem. Karakterinn er byggður á Hunter S. Thompson, frægasta Gonzo blaðamanni allra tíma. Spider líkist Hunter, hann reykir, drekkur og notar eiturlyf á ótæpilegan máta og krefst þess að kreista sannleikann úr þeim sem hann ræðir við. Hann er sífellt reiður, ofbeldisfullur og munnsöfnuðurinn á rætur sínar að rekja til öskuhauganna. Hann gengur um vopnaður kolólöglegri byssu sem losar um hægðir, hlerar fólk og skrifar greinar á eins mörgum lyfjum og mögulegt er. Fyrsta aðstoðarkonan hans flýr frá honum og gerist nunna, seinni aðstoðarkonan hatar hann út af lífinu og reynir ítrekað að limlesta hann á einn eða annan hátt. En Spider Jerusalem er heiðarlegasti og tryggasti maður sem þú kynnist. Hann er rannsóknarblaðamaður sem skrifar greinar fyrir blað um pólitík fyrir áhugalausan almenning. En hann grefur upp skuggamyndir samfélagsins og neyðir lesendur til að horfast í augu við það sem er að gerast. Hann á sér marga dygga lesendur og stuðningsmenn  sem bíða átekta eftir greinum hans. Hann sannar að lokum hið fornkveðna að penninn sé máttugri en sverðið, sérstaklega þegar penninn getur skrifað jafn mörg blótsyrði og penninn hans Spider.

Transmopolitan

Hann er ekki hetjan sem við eigum skilið, en honum er alveg sama.

Transmetrolitan á sér stað í framtíðinni. Þetta er framtíð þar sem mannkyninu hefur ekki ennþá tekist að sprengja sig í loft, þar sem róbótarnir tóku ekki yfir og geimverurnar gerðu ekki innrás. Í framtíðinni er loftið óhreint, fréttirnar tilgangslaust mal um frægt fólk og heimsvæðingin hefur breytt öllum skúmaskotum og menningarheimum í „bisness.“ Það hefur lítið breyst. Framtíðin sem við sjáum hér er brengluð mynd af nútímanum með geimverum, sæborgum og nýjum eiturlyfjum. Framtíðin er flókin, samhengislaus mynd af undarlegum heimi þar sem ekkert er hreint, ekkert er ósnert og allt hefur verið endurunnið. Allar tónlistarstefnur eru með fimm mismunandi undirtitla, fólk skiptir um kyn og jafnvel um tegundir á eftirmiðdegi, og allir allstaðar eru að berjast við að komast í gegnum daginn í borg þar sem öllum, allstaðar, er sama. Nema Spider Jerusalem.

Transmetropolitan er einföld saga um pólitík, sannleikann og geimverukynlíf. Ef Transmetropolitan væri venjuleg vísindaskáldssaga, væri hún lítið annað. En þökk sé myndasögunni verður hún lifandi og nákvæm hryllingsmynd af samfélagi þar sem allir virðast bíða eftir næsta stórslysi og er sama hvort aðrir hafi það af. Darick Robertson teiknar nefnilega Transmetropolitan eins og Spider skrifar; algerlega miskunnarlaust og af stórkostlegri nákvæmni. Hver rammi er glæsilega óhreinn, stútfullur af tengingum við þessa brjáluðu framtíð. Þetta eru bækur þar sem það er hreinlega nauðsynlegt að horfa á öll smáatriðin sem er að finna í hverjum ramma. Gangstéttirnar eru útataðar í kroti, sprautunálum, sígarettustubbum og óhreinindum. Veggirnir auglýsa ferðir út í geiminn ásamt nýjustu kynfærauppfærslunni, Kóladrykk með ebóla vírusnum ásamt klónuðu mannakjöti. Um þessar götur gengur fólk sem hefur breytt sér í úlfa, geimverur eða nanóský. Mannkynið er orðið að súpu véla, tegundaflakks og málmbúta sem ganga um göturnar eins og ekkert sé sjálfsagðara. Framtíðin er yndislega brjáluð útkoma þess samfélags sem við viljum búa til í dag.

transmopolitan

Bestu vopn  blaðamanns framtíðarinnar er geipilegt ofbeldi og geðveiki í stíl.

En samt, þrátt fyrir brjálæðislegu tæknina, tegundaflakkið og orðbragðið glittir alltaf í manneskjurnar á bakvið grímurnar sem samfélagið neyðir fólk til að setja upp. Fólkið í Transmetropolitan er kannski að hálfu geimverur eða úr skýi af litlum fljúgandi vélum en er eftir allt saman fólk. Fólk sem hræðist auðveldlega, fólk sem veit ekki hvað það á að gera við líf sitt, fólk sem er tilbúið að slást fyrir tilverurétti sínum og vill aðeins fá að vera í friði. Og Spider Jerusalem sýnir þessu fólki á hverju tilvera þeirra er byggð, á rotnum undirstöðum heimsins í von um að það taki til hendinni og breyti hlutum. Og þetta gerir hann á nærbuxunum, fullur, með tvíhöfða kött sér við hægri hönd, með þrívíddarsólgleraugu og bölvar öllum heiminum. Hann er ekki hetjan sem nokkur á skilið og alls ekki hetjan sem nokkur þarf en fjandinn hafi það, hann mun vera hetjan sem þú elskar.

Transmetropolitan er ekki fyrir alla. Sagan er öfgafull, blóðug og full af sora. En ólíkt því sem gengur og gerist er það ekki tilgangur sögunnar heldur sýna öfgarnar okkur hversu langt mannkynið hefur „fallið“ eða breyst. Það eru engar augljósar reglur lengur. Ekkert sem gerir hlutina einfalda eða skynsamlega, því lengra sem við förum frá því að vera manneskjur því meira reiðum við okkur á að viðhalda vitund okkar sem manneskju. Transmetropolitan er saga sem fær þig annaðhvort til að óttast framtíðina eða bíða eftir henni með ofvæni. Hvort sem er, vona ég að Spider Jerusalem verði nálægt til að segja sannleikann og henda handsprengjum í áttina að okkur á sama tíma.

Ég get heilshugar mælt með Transmetropolitan seríunni.  Það eru tíu  bækur sem segja sögu Spider frá byrjun til enda. Fyrir aðdáendur góðrar myndlistar eða sci fi nörda, Transmetropolitan hefur þetta allt.

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑