Birt þann 17. febrúar, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Leikjarýni: Outlast
Í fyrra heyrði ég mjög góða hluti um hryllingsleikinn Outlast. Hann var þá einungis á PC og þó ég sé aðallega PC spilari þá náði ég ekki að spila hann. Hinsvegar núna snemma í febrúar keypti ég mér PS4 og fékk aðgang að PS+. Fyrir þá sem ekki vita svipar PS+ til Xbox Live í þeim skilningi að það þarf aðgang að þessari þjónustu til að spila á netinu. Ásamt því að spila á netinu fær maður a.m.k einn fríann leik á mánuði og í febrúar var það Outlast.
Ég er mjög mikið fyrir hrylling, er algjör kjúklingur en samt sem áður elska ég hrylling. Hvort sem það er í bókum, myndum eða tölvuleikjum. Sorglegt er hinsvegar að oft er hryllingur gerður illa og ódýr í tölvuleikjum og nútíma myndum. Oftast er hent inn mikið af bregðu atriðum en lítið er um spennu og alvöru hrylling. Outlast er með bæði en það skemmtilega er að bregðu atriðin eru nokkuð góð.
Sögu yfirlit
Leikurinn gerist í Mount Massive Asylum í Bandaríkjunum og maður leikur Miles Upshur, rannsóknarblaðamann sem ætlar að komast að leyndarmálum geðveikrahælisins. Það er eitthvað skrítið að gerast þar og Miles fer til að rannsaka. Strax og hann kemst inn sér hann að ekki er allt með feldu. Allt er í rústi og blóð er út um allt. Í byrjun leiksins er Miles rotaður og kemst að því að það er engin útkomuleið. Nú þarf hann að kljást við ótal marga geðsjúklinga og það sem hann heldur að séu skrímsli meðan hann reynir að komast út.
Spilun
Outlast minnir mikið á Amnesia leikina að því leyti að ekki er hægt að berjast við óvini og eina leiðin til að kljást við þá er að hlaupa í burt eða fela sig. Eina „vörnin“ sem maður hefur er upptökuvél með nætursjón. Það að sjá í myrkri er auðvitað plús þar sem ekki væri hægt að vinna leikinn án þess, en það gerir leikinn svo mikið hræðilegri. Græni filterinn er það sem gerir geðsjúklingana sem ráfa um geðveikrahælið skrítna og ógnvekjandi, jafnvel þó maður viti að þeir geri manni ekkert.
Fyrir þá sem elska að safna hlutum í leikjum, það er því miður ekki mikið fyrir ykkur í Outlast. Það eina sem hægt er að finna á víð og dreif um hælið eru skjöl sem útskýra söguna betur. Einnig eru batterí á víð og dreif en þau eru nauðsynileg fyrir myndavélina sem virkar ekki án þeirra. Þannig að það er mjög gáfulegt að leitast eftir þeim á meðan leiknum stendur.
Óvinirnir eru fáránlega ógnvekjandi! Eins og minnst var á verður allt hræðilegra í myrkrinu og það á svo sannarlega við um þá sem eru að reyna að drepa þig. Ég ætla ekki að segja of mikið frá óvinunum, það myndi eyðileggja hryllinginn, því það er mikið skemmtilegra að sjá þá í fyrsta sinn.
Gæði
Outlast lýtur fáránlega vel út á PS4. Gæðin á bæði hljóði og mynd eru framúrskarandi fyrir fyrirtæki á stærð við Red Barrels, þá sem bæði framleiddu og gáfu út leikinn.
Tónlistin ýtir undir spennuna í leiknum, þar sem hún er drungaleg og ógnvekjandi en er samt aldrei „in your face“ og þ.a.l. pirrandi. Mikil vinna hefur verið sett í „auka hljóðin“ eins og t.d. vælið í sjúklingunum og þrumurnar sem hljóða af og til. Talsetning leiksins er mjög flott og klárt að mikil vinna var einnig lögð í hana.
Outlast lítur mjög vel út. Kannski ekki jafn vel út og Killzone en hann þarf þess heldur ekkert. Upplausin er fín og ég held að ég hefði ekki orðið neitt hræddari þótt að leikurinn væri í Crysis 3 gæðum. Ekki fundust neinir tæknilegir kvillar í leiknum, hvorki hökt (frame drop) né hægan hlöðunartíma umhverfis (texture pop-in).
Kvillar
Það eina sem fór í taugarnar á mér við Outlast var að stundum, kannski tvisvar eða þrisvar, vissi ég ekkert hvert ég átti að fara. Þetta gerðist þegar ég var á stóru svæði, eins og í garðinum fyrir utan hælið og allt var dimmt. Mér finnst að framleiðendurnir hefðu mátt sleppa þessum köflum leiksins því þetta var það eina sem pirraði mig.
Samantekt
Ég skemmti mér konunglega við að spila Outlast sem er klárlega einn mest ógnvekjandi leikur sem ég hef spilað. Ég mæli eindregið með honum fyrir þá sem hafa ekki enn spilað hann á PC að ná í hann á PS store, frítt núna í febrúar ef maður er með PS+ aðgang.
Höfundur er Skúli Þór Árnason,
fastur penni á Nörd Norðursins.