Leikjarýni

Birt þann 11. desember, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Ratchet & Clank: Into the Nexus

Þetta haust er búið að vera mjög spennandi fyrir tölvuleikja nörda því bæði Microsoft og Sony hafa gefið út nýjar leikjatölvur, Xbox One og PS4. Einnig hafa komið út leikir á borð við Assassins Creed Black Flag og CoD Ghosts eins og á hverju ári. Margir eru mjög spenntir fyrir þessum leikjum en útaf þeim hafa nokkrir „minni“ leikir ekki fengið jafn mikla athygli. Einn af þeim er nýjasti leikurinn í Ratchet & Clank seríunni.

Ég var persónulega mjög spenntur fyrir þessum leik þar sem Insomniac ákváðu að nýtast við gömlu R&C formúluna. Leikirnir tveir sem komu á undan All 4 One og Qforce voru báðir ágætir en þeir voru ekki þessi klassíska gerð af þrauta hopp-og-skopp leik (puzzle-platformer). Hins vegar er þessi leikur mjög svipaður gömlu R&C leikjunum. Góð saga, góð útfærsla, skotbardagarnir eru brjálaðir og vopnin eru ótrúlega skemmtileg að vana.

Nú eins og oft áður ná félagarnir Ratchet og Clank að koma sér í vandræði. Í þetta sinn eru þeir að fylgja glæpamanninum Vendra Prog í fangelsi þar sem hún á að dúsa ævilangt. Að vana hefur Ratchet ekkert á sér þegar til átaka kemur og þá þarf maður að safna öllum vopnum og græjum upp á nýtt. Að sjálfsögðu er ekkert að því en þegar á leikinn líður er maður kominn með heljarinnar fjölda vopna, bæði ný og gömul. Nýju vopnin eru t.d Winterizer sem breytir öllum óvinum í snjókalla og Nightmare Box sem hræðir alla óvini. Gömul og góðkunn vopn á borð við Ryno og Mr. Zurkon.

Ratchet and Clank - Nexus

Margt úr gömlu leikjunum lætur sjá sig í Nexus t.d er hægt að safna gullboltum og reynslustigum (skill points). Góðkunnir karakterar láta sjá sig, Captain Qwark, pípulagningamaðurinn The Plumber og einnig kjána vélmennin Cronk og Zephyr.

Ég skemmti mér konunglega við spilun leiksins en þegar það kom að þrautaköflunum gat hann verið dálítið pirrandi. Aðal þrautahluti leiksins gengur út á það að nýta sér The Netherverse til þess að stýra Clank að skrímsli sem maður leiðir aftur alla leið í gegnum þrautabrautina. Ber að minnast á það að þetta er ekki venjuleg þrautabraut þar sem maður hoppar og skoppar eins og Mario heldur þarf maður að stjórna þyngdaraflinu. Þessi hluti minnir mig aðeins á Ratchet & Clank A Crack in Time því ég hef sjaldan orðið jafn pirraður og þegar ég þarf að gera Clank þrautir.

Þrátt fyrir þetta er leikurinn mjög heillandi og er skyldukaup fyrir Ratchet & Clank aðdáendur þó það sé bara fyrir nostalgíuna. Fyrir aðra hinsvegar gæti leikurinn verið svolítið barnalegur en ég fór einmitt að taka eftir því sjálfur. Þetta er semsagt leikur sem litli bróðir eða systir ætti endilega að fá í jólapakkann. Leikurinn er aðeins styttri en fyrri R&C leikir þannig að hann ætti að vera aðeins ódýrari.

Þegar allt kemur til alls er Ratchet & Clank Nexus mjög heillandi og glaðlegur leikur sem hentar mjög fyrir börn og ungt fólk en kannski ekki fyrir eldri aldurshópa. Mikill fjöldi vopna og græja og góður söguþráður halda manni við skjáinn allan tímann.

 

Höfundur er Skúli Þór Árnason,
menntaskólanemi.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑