Bíó og TV

Birt þann 15. október, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Málmhaus

Sögur utan af landi hafa verið áberandi í íslenskum kvikmyndum á þessu ári. Hross í oss hverfist um hross og sveitalífið, heimildarmyndin Aska, sem vann aðalverðlaunin á Skjaldborgarhátíðinni, fjallar um afleiðingar elhræringanna í Eyjafjallajökli og í Grímsvötnum á búskap þriggja bænda og svo er það síðasta útspilið sem er Málmhaus í leikstjórn Ragnars Bragasonar.

Ragnar er eflaust þekktastur fyrir Næturvaktina og fleiri þáttaraðir og kvikmynd sem fylgdi svo í kjölfar vakta þáttaraðanna. Kvikmyndir hans hafa yfirleitt fjallað um sálarkreppur í lífi fólks og hvernig það tekst að takast á við sína innri djöfla. Kvikmyndirnar Börn og Foreldrar eru gott dæmi. Þar er raunsæið allsráðandi og í þeim birtist íslenskur veruleiki sem margir geta samsamað sig með. Málmhaus lendir einhversstaðar mitt á milli óraunsæis vakta þáttanna og raunsæis Barna og Foreldra.

Málmhaus segir frá Heru sem verður vitni að dauða bróður síns, Baldurs, þegar hún er tólf ára gömul. Sviplegt fráfall bróður hennar hefur mikil áhrif á hana og fjölskylduna. Hera leitar í áhugamál bróður síns, þungarokkið, til þess að skapa einhversskonar hliðarsjálf eða skel til þess að takast á við sorgina. Þannig nær hún að bæla niður tilfinningar sínar og þungarokkið verður hennar sáluhjálp. Inn í söguna blandast svo ólíkar persónur, sem dæmi ungur prestur, gamall æskuvinur og norskir strákar. Í stuttu máli er megin viðfangsefni myndarinnar sorgarferli og hvernig Hera og fjölskylda hennar ná að vinna úr sorginni.

Bróðir Heru deyr á mjög vofveiglegan hátt í myndinni. Það atriði er mjög áhrifamikið og tæknilega vel gert. Gallinn er bara sá að bróðir hennar Heru er í raun ekki kynntur til sögunnar. Það eina sem áhorfendur fá að vita um hann er að hann var mikið fyrir þungarokk. Til þess að skilja betur þau áhrif sem dauði hans hefur á fjölskylduna, sem nota bene myndin fjallar um, þá er lágmark að áhorfendur fái að vita aðeins meira um þá persónu. Fyrstu tuttugu mínútur myndarinnar hefði mátt nýta til þess að kynna Baldur betur til sögunnar og hans samband við Heru. Hver var Baldur? Var hann líka utangarðsmaður líkt og Hera? Hvernig á ég sem áhorfandi að skilja Heru ef ég veit ekki einu sinni hver bróðir hennar var? Mér hefði fundist mikilvægt að þessum spurningum væri svarað sérstaklega í ljósi þess að Hera umbreytist á vissan hátt í bróður sinn og nærvera hans er stór hluti myndarinnar.

Málmhaus

Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir sem leikur Heru er falið það vandasama hlutverk að halda uppi heilli kvikmynd. Það gerir hún mjög vel. Þó fannst mér eins og áhorfandinn kæmist aldrei nálægt því að skilja hennar raunverulegu tilfinningar sem liggja undir yfirborðinu. Kannski var það meðvituð ákvörðun leikstjórans, ég veit það ekki. Ingvar E. Sigurðsson og Halldóra Geirharðsdóttir túlka sitt hlutverk prýðilega. Það er þó sama sagan hér. Þeirra tilfinningar fá aldrei nógu mikið rými í myndinni og náði ég því ekki að tengjast þeirra persónum almennilega.

Fyrri hluti myndarinnar hefði mátt vera rólegri. Full hratt er klippt á milli atriða og mikið um að vera í fyrri hlutanum sem bætir litlu við söguna. Það hefði mátt lengja nokkur atriði til þess að undirstrika enn frekar tómleikann og sorgina sem umkringir fjölskylduna. Þó er reynt að undirstrika tómleikann og tilfinningalega einangrun fjölskyldunnar með öðrum hætti til dæmis með því að láta stóran hluta myndarinnar gerast að vetri til einnig er notkun nærmynda mikil sem ýtir undir einangrun persónanna. Ég verð þó að segja að ég saknaði fleirri víðmynda, þó svo að ákveðið þyrluskot í myndinni sé mjög vel gert og táknrænt. Ég vona að áhrif sjónvarpsþátta (þar sem meira er um nærmyndir) séu ekki að smitast yfir í kvikmyndir Ragnars.

Málmhaus

Þegar ég talaði um að myndin væri bæði óraunsæ og raunsæ þá var það ekki á jákvæðum nótum. Það eru nokkur atriði í myndinni sem eru út úr kú og draga úr raunsæi myndarinnar að mínu mati. Án þess að skemma fyrir þá nefni ég bara stikkorð sem fólk getur svo tengt við eftir að það er búið að sjá myndina: norsku strákarnir, bygging kirkju og heimsókn til Heru upp á fjalli. Hefði raunsæið fengið meira rými og hefði samúð með persónum myndarinnar verið undirstrikað betur í myndinni þá hefði margt getað batnað að mínu mati. Til þess að bæta við þetta þá er lágmark að áhorfendur taki ekki eftir því þegar ákveðin atriði eru tekin inni í stúdíói en ekki á raunverulegum tökustað. En af hverju er raunsæi svona mikilvægt fyrir þessa kvikmynd? Jú vegna þess að myndin fjallar um viðfangsefni sem svo margir í okkar samfélagi þekkja og því hefði mér fundist mikilvægt að Ragnar leitaði í formgerð fyrri mynda sinna til að skapa svipaða stemningu eins og finnst í Börn og Foreldrar. Því að vissu leyti er myndin of björt miðað við veruleika myndarinnar og það tilfinningalega rót sem býr í hjörtum aðalpersónanna.

Ég vil þó ekki enda þessa umfjöllun á neikvæðum nótum því myndin er alls ekki slæm. Hér er á ferðinni mjög góð kvikmynd og þó svo að einhverjir hnökrar séu í handritinu þá er hugmyndin mjög góð og frumleg. Auk þess er því miður sjaldgæft að aðalhlutverk sé í höndum konu og því ber að fagna því að sjá kvenpersónu sem er laus við allar klisjur sem oft fylgja þeim hlutverkum. Stærsta stjarna myndarinnar er því Þorbjörg Helga og hennar túlkun á Heru.

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑