Bíó og TV

Birt þann 22. september, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Riddick

Riddick er þriðja myndin sem fjallar um stríðsmanninn og andhetjuna Riddick frá plánetunni Furya og er leikinn af Vin Diesel (sem allir nördar elska því hann elskar D&D). Riddick serían á sér athyglisverða sögu sem hófst með myndinni Pitch Black frá árinu 2000 en hún sló í gegn þrátt fyrir að vera frekar ódýr mynd sem var ekki mikið markaðsett. Aðdáendur vildu fá meira af Riddick og því kom The Chronicles of Riddick út árið 2004 og á sama ári tölvuleikurinn Escape from Butcher Bay sem þykir einn besti leikur byggður á kvikmyndahetju sem gerður hefur verið. Það skemmtilega við þennan leik og Assault on Dark Athena sem kom út árið 2009 er að þeir fylla í eyðurnar þ.e.a.s. eru ekki byggðir á myndunum.

The Chronicles of Riddick varð ekki sú metsölumynd sem vonast var til og núna 9 árum seinna gera Vin Diesel (sem fjármagnaði myndina að miklu leyti sjálfur) og leikstjórinn / handritshöfundurinn David Twohy aðra tilraun, væntanlega í ljósi þess að sá fyrrnefndi er orðinn stórstjarna eftir gott gengi í The Fast and the Furious myndunum. Miðað við sölutölur í Bandaríkjunum og þá staðreynd að myndin var ekki dýr í framleiðslu, þá gekk þetta upp hjá þeim.

Riddick er algert afturhvarf til fyrstu myndarinnar sem var mjög einföld í sniðum og gerðist á einum stað. Vanalega sjáum við Riddick sem veiðimanninn eða rándýrið sem getur séð í myrkri og drepur óvini sína einn af einum. Það er til staðar hér eins og er lögð áhersla á í stiklunum, en við sjáum hann einnig sem sérfræðing í því að lifa af sama hversu slæmar aðstæðurnar eru. Þetta er gert mjög vel í fyrsta hluta myndarinnar en hann hafði verið svikinn af undirmönnum sínum frá fyrri myndinni og skilinn eftir á þessari plánetu nær dauða en lífi. Þetta er uppáhaldshlutinn minn. Eftir að hann kemst á lappir fá hausaveiðarar þær upplýsingar að hann er ekki allur og þar sem verðlaunaféið er hátt þá streyma þeir til plánetunnar. Fljótlega kemur samt í ljós að þeir eru ekki mesta hættan (dun-dun-dun!).

Riddick

Stærsta nafnið í leikarahópnum fyrir utan Vin Diesel er líklega Aimee Sackhoff (Starbuck úr Battlestar Galactica þáttunum). Hún kemst ágætlega frá hlutverkinu sem leyniskytta og harðhaus (óþörf skilgreining því að allir eru harðhausar í þessari mynd nema einn strangtrúaður stráklingur sem af einhverjum óútskýrðum ástæðum er hluti af málaliðagenginu) en því miður þá brást handritið henni í lok myndarinnar og hún skiptir algerlega um persónuleika. Vin Diesel sjálfur er stórgóður sem Riddick og þrátt fyrir að fá ekki alltaf góðar línur þá er hann bara svo mikill töffari með sína miklu bassarödd að maður kaupir allt sem hann er að selja. Aðrir standa sig þokkalega, sérstaklega Jordi Molla sem nýtur þess að leika vonda kallinn.

Riddick

Það að undirritaður gagnrýni Riddick er nokkurn veginn eins og að Ronald McDonald gagnrýni hamborgarana sína. En myndin er ekki gallalaus og það er aðallega handritið sem svíkur, það er veikasti hluti myndarinnar. Þetta er alger B mynd, kannski B+, og það sést vel að hún er ekki framleidd fyrir mikla peninga miðað við aðrar spennumyndir samtímans. Umhverfi plánetunnar virðist vera gert með einhverjum ljósmyndafilter til að ná samsetningunni réttri en það virkar…nærri því. Skepnurnar voru bara nokkuð sannfærandi en það hjálpar kannski að ein af tveimur aðaldýrategundum þarna er nánast eins og hundur.

Undirritaður er bara nokkuð ánægður með myndina. Stiklan selur hana algerlega, ef þú horfir á hana þá veistu nákvæmlega hvað þú ert að fá. Gallinn er að hún gefur upp aðeins of mikið. Annað viðmið er að ef ykkur fannst gaman af Pitch Black þá mun þessi ekki svíkja. Þetta er fínasta spennumynd með hryllingsívafi og ef þú hefur gaman af Vin Diesel þá er hún möst. Fyrir aðra þá get ég ekki lofað góðri skemmtun enda höfðar Riddick ekki til allra.

 

Höfundur er Steinar Logi Sigurðsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑