Íslenskt

Birt þann 6. maí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Tölvuorðasafn í rafrænni útgáfu

Tölvuorðasafn orðanefndar Skýrslutæknifélags Íslands kemur nú út í fimmta sinn. Að þessu sinni er orðasafnið eingöngu gefið út á veraldarvefnum á vefsetrinu http://tos.sky.is.

Í fimmtu útgáfunni sem hér birtist hefur hugtökum fjölgað um 3,8% frá fjórðu útgáfu sem var gefin út sem prentuð bók árið 2005 og gerð leitarbær á sama vefsetri árið 2006. Fyrsta útgáfa Tölvuorðasafns kom út árið 1983 og hafði þá að geyma íslensk og ensk heiti á rösklega 700 hugtökum um tölvu- og upplýsingatækni. Frá og með annarri útgáfu frá 1986 hafa skilgreiningar og skýringar fylgt hugtökum í bókinni og í 5. útgáfu eru íslensk og ensk heiti ásamt skilgreiningum og öðru skýringarefni á rösklega 6800 hugtökum.

Frá árinu 1978 hafa eftirtalin átt sæti í orðanefndinni: Baldur Jónsson (d. 2009), Sigrún Helgadóttir (formaður), Þorsteinn Sæmundsson og Örn Kaldalóns. Stefán Briem hefur starfað mikið með nefndinni, var ritstjóri 3. og 4. útgáfu og ritsins Íslensk táknaheiti.

Viðar Másson, starfsmaður fyrirtækisins Datamarket ehf., hefur komið efni 5. útgáfu þannig fyrir á vefsetrinu að það er leitarbært. Fimmta útgáfan verður ekki gefin út sem prentuð bók. Prenthæft skjal með útliti fyrri útgáfu er þó aðgengilegt á vefsetrinu. Þar eru einnig upplýsingar um allar útgáfur Tölvuorðasafnsins og prenthæft skjal ritsins Íslensk táknaheiti. Einnig er veittur aðgangur að efni Tölvuorðasafnsins í sérstöku sniði (TBX) sem hentar fyrir þýðingaminni. Stefán Briem sá um alla tölvuvinnslu í sambandi við útgáfuna, þar með talið umbrot á prenthæfu skjali. Já ehf. hýsir vef Tölvuorðasafnsins en aðgangur að safninu er um vef Skýrslutæknifélags Íslands, www.sky.is.

Með þessari útgáfu lýkur þessi orðanefnd störfum. Nefndin hefur fært Skýrslutæknifélaginu vefsetrið til varðveislu. Það er von nefndarinnar að það efni sem þar er varðveitt verði tölvunotendum að gagni.

Í tilefni útgáfunnar stendur Skýrslutæknifélag Íslands fyrir hádegisverðarfundi miðvikudaginn 8. maí kl. 12-14 sem ber yfirskriftina Á íslenska sér framtíð í tölvuheiminum?

Í tilefni útgáfunnar stendur Skýrslutæknifélag Íslands fyrir hádegisverðarfundi miðvikudaginn 8. maí kl. 12-14 sem ber yfirskriftina Á íslenska sér framtíð í tölvuheiminum? Á fundinum mun Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, opna 5. útgáfu Tölvuorðasafnsins formlega og í framhaldi verða fluttir nokkrir fyrirlestrar um málrækt og máltækni. Rætt verður um mikilvægi þess að Íslendingar eigi kost á að hafa samskipti við tölvur og önnur tölvustýrð tæki á íslensku. Gefið verður yfirlit yfir búnað sem þegar er til sem auðveldar samskipti milli manns og tölvu á íslensku. Einnig verður sagt frá gögnum sem nýtast við gerð máltæknilausna fyrir íslensku.

Upplýsingar um dagskrá fundarins, verð og skráningu er að finna á www.sky.is.
Fundurinn er fyrir alla sem hafa áhuga á varðveislu íslenskrar tungu og samskiptum manns og tölvu.

– Fréttatilkynning, Skýrslutæknifélag Íslands

Mynd: Wikimedia Commons (fartölva og fáni).

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑