Birt þann 29. apríl, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0EVE Fanfest 2013: Framtíðarstefna EVE og DUST 514
Á CCP Presents, seinasta fyrirlestri EVE Fanfest hátíðarinnar, kynnti CCP framtíðarstefnu fyrirtækisins og við hverju megi búast á komandi árum.
Nú þegar hefur Nörd Norðursins fjallað um nýjustu uppfærslur EVE Online og DUST 514, sem munu bera nöfnin Odyssey og Uprising. Á CCP Presents var litið lengra fram í tímann, og áhorfendum gefinn smá forsmekkur á þeirri framtíðarsýn sem CCP hefur fyrir EVE Online, DUST 514 og þær frekari tengingar sem munu verða á milli leikjanna tveggja.
EVE heimurinn stækkar
Nú þegar er EVE heimurinn einn sá stærsti sem fyrirfinnst í tölvuleik. New Eden telur þegar um 7000 sólkerfi, sem hvert og eitt býr yfir fjölda plánetna, tunglna og lofsteinabeltna. Þrátt fyrir þessa gífurlegu stærð stefnir CCP á að stækka heiminn til muna með því að leyfa spilurum að byggja sín eigin stökkhlið til fjarlægra sólkerfa. Þessi sólkerfi verða algerlega ósnert og gefa þar með spilurum færi á að byggja upp, stjórna og berjast fyrir nýjum heimsveldum. Þetta mun ekki aðeins gefa nýjum spilurum færi á að finna sér sinn eigin skika í EVE heiminum, heldur mun þetta vafalaust koma af stað miklum átökum milli núverandi hernaðarbandalaga sem munu sækjast eftir að stækka sín eigin yfirráðasvæði.
DUST 514 fær meira dót
DUST 514 kemur út þann 14. maí, en stuttu eftir útgáfuna mega spilarar búast við töluverðri aukningu í spilunarmöguleikum leiksins. Brátt munu allar þjóðir DUST heimsins hafa aðgang að léttum, miðlungs og þungabrynjum. Einnig munu allar þjóðirnar fá aðgang að stöðluðum búnaði á við hnífa, riffla og skammbyssur sem verða í stíl við persónueinkenni hverrar þjóðar, og smátt og smátt mun hver þjóð einnig fá sína eigin skriðdreka, flutningstæki, orrustuþotur og fleiri stríðstæki. Þá eiga DUST spilarar einnig eftir að geta byggt stjórnstöðvar á plánetum sem munu auðvelda þeim að verja svæði sín fyrir innrásum og veita þeim aukna innkomu. CCP ætlar einnig að gefa DUST spilurum færi á að vinna sér inn stig án þess að þurfa að spila gegn öðrum spilurum. DUST spilarar eiga eftir að geta barist gegn tölvustýrðum vélmennum (drones) líkt og spilarar EVE Online. Þetta geta þeir gert upp á eigin spýtur eða ásamt öðrum spilurum, en þetta bætir við einspilunarhluta með tilgangi í DUST 514 sem er ekki til staðar í mörgum öðrum skotleikjum.
Skilrúmið milli EVE og DUST minnkar
Fjöldi nýstárlegra hugmynda hafa komið fram sem munu enn frekar stuðla að því að brjóta niður múrana sem aðskilja EVE Online og DUST 514. Til að mynda munu plánetur og tungl hafa enn meiri þýðingu fyrir spilara beggja leikja en þau gera fyrir. Ein af hugmyndunum sem hafa þegar komið fram er að leyfa spilurum að byggja geimlyftur frá plánetum svo spilarar geti styrkt stöðu sína með auknum birgðaflutningum til og frá plánetum. Þá eiga DUST og EVE spilarar í sameiningu eftir að geta byggt stjórnstöðvar á plánetum sem munu auðvelda þeim að verja svæði sín fyrir innrásum. CCP sér einnig fyrir sér að EVE spilarar eigi eftir að geta fylgst með gangi bardaga á plánetum með myndbandsstreymi beint inn í EVE Online. Þetta opnar fyrir fleiri möguleika þar sem EVE spilarar geti jafnvel veðjað á útkomu bardaga og styrkt vissa DUST spilara áfram í keppnisleikjum og fleiru. Allt þetta mun koma til með að dýpka EVE heiminn til muna og auka möguleika spilara EVE Online og DUST 514 til að starfa saman.
Esports
Esports fyrirbærið fer sístækkandi á heimsvísu og CCP er með áætlanir um að taka þátt í því með EVE og DUST 514. Á PvP mótinu á Fanfest í fyrra voru EVE Online og DUST 514 spilaðir í sitt hvoru lagi, en í ár var hins vegar PvP mótið spilað með leikjunum tveimur samtengdum. Mótið gekk vel fyrir sig og sigurvegararnir gengu burt með glæsileg verðlaun. CCP stefnir á að stuðla að frekari mótum þar sem EVE og DUST spilarar geta komið sér upp liðum og keppt í mótaröð þar sem veglegir vinningar eru í boði, líkt og er þegar gert í leikjum á borð við League of Legends, Starcraft 2 og Battlefield.
Framtíðarsýn CCP fyrir stefnu EVE heimsins heillaði alla sem voru viðstaddir CCP Presents. Nú þegar er EVE Online tölvuleikur sem á sér fáa líka á markaðnum í dag. Markmiðin eru háleit, en starfsfólk CCP er staðfast í því að þessir hlutir séu vel gerlegir og aðdáendur EVE og DUST 514 komi til með að sjá þá flesta gerast á næstu árum. Með tilkomu DUST 514 og þeim framtíðarmarkmiðum sem CCP hefur sett sér, stefnir EVE heimurinn í að verða eitthvað mun stærra en bara tölvuleikur og því verður spennandi að fylgjast með framvindu EVE á komandi árum.
• Fleiri fréttir frá EVE Fanfest 2013
Höfundur er Kristinn Ólafur Smárason,
fastur penni á Nörd Norðursins.