Leikjarýni

Birt þann 12. febrúar, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Sleeping Dogs (2012)

Sleeping Dogs er leikur í anda Grand Theft Auto og L.A. Noire, þar sem spilarinn getur þvælst um í opinni borg og gert nánast hvað sem honum sýnist. Leikurinn er ótrúlega vel heppnaður og í raun furðulegt hvað lítið hefur farið fyrir honum miðað við hve mikið hann hefur upp á að bjóða…

Leynilögga rannsakar undirheimana

Glæpaklíkur hafa náð miklu völdum í stórborginni Hong Kong og róttækar lögregluaðgerðir orðnar nauðsynlegar. Í Sleeping Dogs stjórnar spilarinn leynilöggunni Wei Shen sem dulbýr sig sem glæpon í þeim tilgangi að gerast meðlimur í glæpaklíku og koma þannig upplýsingum um klíkurnar áleiðis til lögreglunnar.

Spilarinn fær fljótt á tilfinninguna að Wei Shen viti ekki alveg í hvorn fótinn hann eigi að stíga og sekkur ansi hratt og djúpt í undirheima Hong Kong. Þessi barátta hans um hvort hann sé í raun góður eða slæmur, lögga eða bófi, yin eða yang, gefur honum áhugaverðan vinkil í söguþræði leiksins. Auk þess sem það er helvíti skemmtilegt að fá að spila góða OG vonda gaurinn í eina og sama leiknum.

Sleeping Dogs

Lögga og bófi

Spilarinn flakkar á milli þess að vera í glæpaklíkum og hjá lögreglunni og því eru verkefni leiksins mjög misjöfn. Þegar hann er í hlutverki lögreglumanns þá rannsakar hann morðstaði, reynir að finna sönnunargögn og kemur njósnabúnaði fyrir á hinum og þessum stöðum. Það fer þó mun meira fyrir Wei Shen þegar hann fer með hlutverk glæpamannsins þar sem hann eltir upp glæpona, drepur óvini sína og endar stundum í hörkuspennandi bílaeltingaleikjum.

Að loknu hverju verkefni fær spilarinn reynslustig sem skiptist í tvo flokka; lögreglu reynslustig og glæpona reynslustig. Með reynslustigunum getur Wei Shen lært ný brögð, en spilarinn fær ekki mikið val í leiknum þar sem aðeins er hægt velja á milli tveggja uppfærslna í hvert sinn og kemur nánast út á það sama hvaða uppfærslur spilarinn velur.

Bardagalistir í stað skotbardaga

Það er skemmtileg tilbreyting að áhersla sé lögð á bardagalistir í leik sem þessum, en aðal áhersla sambærilegra leikja hefur verið sett á skotvopnin. Vissulega eru skotvopn í leiknum og nokkuð mikið um hnífa, en aðal áherslan er engu að síður á bardagalistina.

Stjórntakkarnir venjast fljótt og er auðvelt að læra brögðin sem Wei Shen getur framkvæmt. Bardagarnir eru mjög vel útfærðir og skemmtilegt að sjá hvernig hægt er að nota umhverfið í bardögunum. Til dæmis er hægt að henda óvini í risastórt fiskabúr svo að vatnið og fiskarnir flæða um allt gólfið, einnig er hægt að henda þeim ofan í gám eða kynna andliti þeirra fyrir vélsög. Möguleikarnir eru margir – og blóðugir.

Sleeping Dogs

Hong Kong – flott og fjölbreytt borg

Eins og ég segi þá gerist leikurinn í stórborginni Hong Kong. Í borginni getur þú farið inn á skemmtistað og dansað eða sungið karókí, þú getur heimsótt fjölmargar fataverslanir sem selja allt frá hefðbundnum tískufötum yfir í brúðkaupsfötin, þú getur keypt þér mat í næstu hornverslun eða einfaldlega rúntað um borgina og skoðað þig um.

Borgin skiptist í nokkur hverfi líkt og þekkist í sambærilegum leikjum. Hverfin skiptast fyrst og fremst eftir stéttaskiptingu fólks þar sem fátækir, millistéttin og ríka fólkið hafa hver sín hverfi. Það helsta sem vantar í borgina er opið svæði þar sem hægt væri að fíflast um í náttúrunni á bíl, en í leiknum eru aðeins nokkrir litlir garðar og engin leið að komast út úr sjálfri stórborginni. Meðfram borginni er þó stórt svæði þakið sjó og bætir það upp fyrir þann missi að vissu leiti, en þar er hægt að sigla um á báti, auk þess sem Wei Shen er sannkölluð hetja þar sem hann kann að synda og deyr ekki við það eitt að snerta sjóinn.

Það er flott úrval af farartækjum í Sleeping Dogs þar sem hægt er að finna allt frá litlu mótorhjóli yfir í hraðskreiða sportbíla. Það getur verið svolítið fyndið að sjá flúraða leynilöggu keyra um á lítill vespu með asíska rapptónlist í botni.

Sleeping Dogs

Gott úrval af tónlist

Tónlistin í leiknum spilar stórt hlutverk og virkar svipað og í GTA leikjunum, þar sem spilarinn getur flakkað á milli útvarpsstöðva. Útvarpsstöðvarnar eru margar og fjölbreyttar og er m.a. hægt að hlusta á rólega tónlist, blús, rokk, teknó og hiphop frá Hong Kong. Mörg lög eru kunnugleg (sérstaklega þau sem hægt er að syngja í karókí), en einnig eru fjölmörg lög sem maður er að heyra í fyrsta skiptið.

Yfir 40 klukkutímar í spilun

Það tók mig rétt yfir 40 klukkutíma að spila í gegnum söguþráð leiksins og u.þ.b. helminginn af aukaverkefnunum. Það er því augljóst að hér fá spilarar eitthvað fyrir peninginn. Það er vel hægt að teygja spilunina upp í 50 klukkutíma með því að klára öll aukaverkefnin og finna falda hluti í leiknum. Sleeping Dogs nær að halda góðu tempói út allan leikinn, en maður finnur þó fyrir svolítilli þreytu rétt í lokin þar sem verkefnin eru orðin nokkuð einhæf og fyrirsjáanleg.

Ekki alveg gallalaus

Gallar leiksins eru ekki margir, en einhverjir eru þeir þó. Fyrir utan nokkra þreytu í lok leiksins að þá varð ég var við að bakrunnur leiksins á það til að hökta þegar breytt er snögglega um sjónarhorn. Ég spilaði leikinn á Xbox 360 og veit ekki hvort þetta kemur eins út í PlayStation 3 eða PC útgáfu leiksins. Þessi galli hefur svosem engin áhrif á spilun leiksins, en miðað við hve vel leikurinn er útfærður og flest öll smáatriði í lagi, var ég svolítið hissa að sjá þennan galla. Einnig kom tvisvar sinnum fyrir að ég festist í leiknum. Þ.e.a.s. ég náði að komast á einhverja staði sem ekki er gert ráð fyrir að spilarinn komist á.

Það hefði verið virkilega gaman að sjá fjölspilunar möguleika í leiknum sem hefði örugglega náð að gera hann ógleymanlegan!

Niðurstaða

Það hefur ekki farið neitt voðalega mikið fyrir Sleeping Dogs, en ef þú ert fyrir leiki sem gerast í opinni borg, líkt og GTA og L.A. Noire, þá á hann ekki eftir að valda þér vonbrigðum. Hong Kong býður upp á marga spennandi staði og eru þessir 40-50 klukkutímar sem leikurinn endist fljótir að líða. Bardagakerfið er vel útfært og gaman að fá að leysa verkefni bæði sem lögreglumaður og glæpon í Hong Kong borg. Tónlistin og grafíkin setur svo punktinn yfir i-ið og gerir hann að með þeim betri leikjum ársins 2012.

Það hefði verið gaman að sjá fjölspilun í leiknum, en vonandi eigum við eftir að sjá þann möguleika í Sleeping Dogs 2 í framtíðinni.

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑