Birt þann 24. janúar, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Topp 5: Það besta í bresku sjónvarpi 2012
Það er alltaf gott eftir langan vinnudag að slappa aðeins af og horfa á gott breskt sjónvarpsefni. Til er óheyrilegur fjöldi breskra þátta og mikið af gæða sjónvarpsefni sem vert er að horfa á en til þess að þrengja listann hef ég ákveðið að halda mig við sjónvarpsefni sem mér þótti skara mest fram úr á nýliðnu ári og eru á sama tíma nördalegir á einn eða annan hátt.
5. Louis Theroux: Extreme Love – Autism
Louis Theroux hefur gert fjöldan allann af heimildarmyndum og -þáttum og er líklega þekktastur fyrir þættina Louis Theroux’s Weird Weekends og When Louis Met…. þar sem hann tekur fyrir sérstakt þema í hverjum þætti, eins og; glæparapp, klám, líkamsrækt, geimverur o.fl. Í þáttunum ræðir hann oftar en ekki við fólk sem eru með örðuvísi eða brenglaðar hugmyndir og kynnir áhorfandunum fyrir þeim og fær gjarnan að fylgjast með fólki í nokkra daga eða vikur til að gera þáttinn. Þema þáttanna er oftast áhugavert og brenglað og mætti flokka sem afþreyingar-heimildarþætti.
Persónuleiki Louis Theroux er mjög heillandi. Hann er lógískur, efins um allt og kann að spyrja spurninga. Louis Theroux er róleg, þæginleg og heillandi sjónvarpspersóna, og þó hann virki stundum fyrir að vera frekar feimið nörd að þá hikar hann ekki við að ræða við fólk og gagnrýna skoðanir í leit sinni að svörum.
Að undanförnu hefur Louis einnig verið að fjalla um mun alvarlegri efni. Heimildarmyndin Louis Theroux: Extreme Love – Autism kom út árið 2012 þar sem hann fjallar um einhverfu og fær hann að fylgjast með nokkrum einhverfum einstaklingum. Myndin er mjög grípandi og átakanleg þar sem Louis nær að tækla efnið mjög vel.
Ef þig langar að kíkja á einhverja góða heimildarmynd þá má reikna með að Louis Theroux sé með eitthvað í pokahorninu handa þér. Ef þú ert ekki í skapi fyrir þungt efni sem reynir á tilfinningarnar að þá er alltaf hægt að skoða hvað annað er í boði hér á IMDb síðunni hans.
4. Stephen Fry: Gadget Man
Hver elskar ekki Stephen Fry? Maður er fyndinn, skemmtilegur, sjarmerandi, með stórt hjarta, enn stærri heila og auk þess bara helvíti góður leikari. Nó hómó – en þessi maður er hreint út sagt yndislegur í alla staði. Og hver elskaði ekki íslensku sjónvarpsþættina Nýjasta tækni og vísindi!? Ímyndið ykkur ef Stephen Fry sæi algjörlega um Nýjasta tækni og vísindi og þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af kostnaði þáttanna og hefði nokkuð frjálsar hendur; útkoman er Gadget Man.
Gadget Man þættirnir voru sýndir á sjónvarpsstöðinni Channel 4 í fyrra. Í þáttunum fer Stephen Fry yfir fjölbreytta flóru af tækni og tækjum sem gera lífið einfaldara og skemmtilegra. Það sem er enn skemmtilegra er að hann prófar tækin og fær jafnvel frægu vini sína til að prófa þau með sér. Til dæmis heillaði þessi tappatogari mig alveg upp úr skónum! Tækin sem fjallað er um í þáttunum eru notuð og prófuð, en það er mjög misjafnt hvort tækin sem hann tekur fyrir séu í raun og veru gagnleg eða ekki.
Gardget Man er skylduáhorf fyrir Íslendinga með tækja- og tæknidellu. Þó það sé ekki kafað djúpt í tæknina þá er þetta fullkomin samblanda af góðri afþreyingu og tækniþætti. Svo gerir Stephen Fry auðvitað þættina enn betri!
3. QI
Tölum aðeins meira um Stephen Fry, var ég búinn að segja ykkur hversu frábær sá maður er? Stephen Fry er spyrillinn í spurningarþáttunum QI, eða Quite Interesting eins og þeir heita fullu nafni. QI er þó enginn hefðbundinn spurningarþáttur. Í þáttunum fókusar Stephen Fry gjarnan á spurningar sem margir telja sig vita svarið við en vita í raun ekki. Hann reynir að blekkja gesti sína með klókum spurningum og fær áhorfandinn vænan skammt af fróðleik í bland við breskan húmor.
Þekktir Bretar, sem eru gjarnan gamanleikarar eða uppistandarar, eru fengnir sem gestir í þættina sem gerir þá mjög fyndna. Stigagjöfin í leiknum og sigurvegari hvers þáttar er eiginlega aukaatriði þar sem þættirnir snúast fyrst og fremst um fróðleik og stórskemmtilegar umræður, en gestir þáttanna og Stephen Fry ræða saman á gamansaman hátt um spurningar og svör og er ótrúlegt hvar sumar umræðurnar enda.
Þættirnir hafa verið í gangi síðan árið 2003 og var tíunda þáttaröðina sýnd í fyrra. QI eru mjög góðir þættir fyrir þá sem elska spurningaþætti og fróðleik í bland við breskan húmor.
2. Peep Show
Peep Show hófu göngu sína árið 2003 og eru því orðnir 10 ára gamlir líkt og QI. Sjötta þáttaröðin var sýnd árið 2010 en aðdáendum þáttanna til mikillar gleði var áttunda þáttaröðin sýnd í fyrra og er sú níunda væntanleg á þessu ári.
Í Peep Show er sagt frá kauðunum Mark (David Mitchell) og Jeremy (Robert Webb) sem eru ansi sérstakir; þeir eru skemmtilega vitlausir, þrjóskir, svolítið nördalegir, ólógískir, sjálfselskir og velja ítrekað styðstu leiðina úr vandræðum, án þess að hugsa nokkuð um afleiðingarnar (já, eða hugsa OF mikið um afleiðingarnar). Mark á að kallast sá þroskaðri af þeim tveimur og fyrirlítur nánast allt og alla, er félagsfælinn, ótrúlega nískur og kennir öðrum um öll sín mistök. Á meðan hagar Jeremy eins og unglingur og dópar reglulega, er kærulaus og gerir hvað sem er til að slá í gegn sem tónlistarmaður eða eitthvað annað. Hann nennir að vinna ef hann þarf ekki að hafa mikið fyrir því og vill helst fá allt upp í hendurnar án þess að þurfað standa í einhverju veseni.
Mark og Jeremy búa saman í íbúðinni hans Mark (Jeremy býr frítt hjá honum þó að Mark vilji það nú ekki alltaf) og bjóða samtöl þeirra og ákvarðanir upp á endalausan hlátur, yndislegan kjánahroll og facepalm dauðans. Peep Show eru frábærir þættir sem enginn unnandi breskra gamanþátta ætti að láta framhjá sér fara. Ekki er verra að detta inn í þá núna og eiga eftir að horfa á þættina frá upphafi – Ó hvað ég öfunda ykkur!
Til gamans má geta að þá eru David Mitchell og Robert Webb frægir gamanleikarar og uppistandarar í Bretlandi og hafa meðal annars leikið saman í hinum stórgóðu sketsaþáttum That Mitchell and Webb Look sem voru sýndir á árunum 2006-2010 og eru auk þess reglulega gestir í QI.
1. Sherlock
BBC hóf sýningu árið 2010 á nýjum Sherlock Holmes þáttum sem eiga að gerast í nútímanum. Benedict Cumberbatch fer með hlutverk Sherlock Holmes og Martin Freeman leikur Dr. John Watson. Það getur tekið smá tíma að meðtaka allar þær breytingar sem eru gerðar í sjónvarpsþáttunum til að losa sig við týpísku gamaldags útgáfuna af Sherlock Holmes þar sem hann er klæddur gamaldags spæjarahúfu og tottandi pípu. En um leið og þú hefur samþykkt þessa nútíma útgáfu af Sherlock þá grípa þættirnir þig á augabragði.
Leikararnir passa ótrúlega vel í hlutverk sín, og þá sérstaklega Benedict Cumberbatch og Martin Freeman. Það eru eflaust margir sem kannast við nöfnin á þessum bresku leikurum, en þeir leika báðir hlutverk í The Hobbit þar sem Benedict fer með lítið hlutverk og leikur The Necromancer og Martin fer með aðalhlutverkið sem hobbitinn Bilbo Baggins, einnig leikur Benedict í nýjustu Star Trek myndinni sem er væntanleg á næsta ári, Star Trek Into Darkness, auk þess sem hann leikur Julian Assange í væntanlegri kvikmynd um Wikileaks. Sherlock þættirnir eru því ekki aðeins góð skemmtun, heldur einnig góð kynning á rísandi stjörnum frá Bretlandi.
Önnur þáttaröðin af Sherlock var sýnd á BBC í fyrra og fékk mjög góðar viðtökur, sem sést meðal annars þegar litið er á meðaleinkunn þáttanna á IMDb, þar sem þættirnir fá 9,2 í einkunn.
Önnur þáttaröðin af Sherlock var sýnd á BBC í fyrra og fékk mjög góðar viðtökur, sem sést meðal annars þegar litið er á meðaleinkunn þáttanna á IMDb, þar sem þættirnir fá 9,2 í einkunn. Hver þáttaröð samanstendur aðeins af þremur þáttum, en hver þáttur er byggður upp líkt og heil kvikmynd og er u.þ.b. 90 mínútur að lengd. Í byrjun fyrstu þáttanna í fyrstu þáttaröðinni fáum við að sjá hvernig þeir Sherlock og Watson kynnast og um leið eru helstu sögupersónurnar kynntar til leiks. Í hverjum þætti fær Sherlock mál í hendurnar sem þarf að leysa, en hann býr yfir miklum hæfileikum þar sem hann tekur eftir minnstu smáatriðum og leggur ekki aðeins tvo og tvo saman, heldur nær að rekja ótrúlegustu sögur langt aftur aðeins með því að taka eftir litlu hlutunum sem aðrir taka ekki eftir.
Bresku þættirnir eru mjög gott mótsvar við Hollywood kvikmyndunum um Sherlock Holmes þar sem Robert Downey Jr. leikur Sherlock og Jude Law fer með hlutverk Dr. John Watson. Mér finnst BBC ná að útfæra Sherlock Holmes mun betur en Hollywood og er mjög mikill munur á breska og bandaríska Sherlock, allt frá sögusviði til samtala.
Sherlock eru stórgóðir þættir fyrir þá sem vilja leysa nokkur góð sakamál með aðstoð snilligáfu Sherlock Holmes. Þættirnir ná að koma áhorfandanum á óvart og bjóða upp á áhugaverðar sögur og sakamál. Það er töluvert minna um hasar í bresku þáttunum en Hollywood myndunum en á móti er að finna mun betri samtöl, áhugaverðari persónur og dýpri söguþráð. Hver þáttur er sjálfstæð eining (eitt mál tekið fyrir í hverjum þætti) en áhorfandinn fær að sjá persónur þáttanna þroskast í gegnum þáttaraðirnar þar sem fortíð þeirra verður sífellt umfangsmeiri.
Þriðja þáttaröð af Sherlock er í vinnslu og er væntanleg síðar á þessu ári.
Þættir sem ollu vonbrigðum:
Noel Fielding’s Luxury Comedy – Noel Fielding er stórskemmtilegur súrealískur gamanleikari sem lék meðal annars í hinum vinsælu gamanþáttum The Mighty Boosh (2003 – 2007) á móti Julian Barratt. Maðurinn hefur náð að heilla mig upp úr skónum með því að bjóða upp á óhefðbundinn og skrítinn húmor, en í sketsaþáttunum Noel Fielding’s Luxury Comedy frá 2012 var ekki eftirminnilegur þar sem hann virtist einbeita sér að því að framkvæma furðulega hluti frekar en fyndna. Vissulega má finna fyndin atriði þarna inn á milli, en á heildina litið eru þættirnir frekar slappir og ullu vonbrigðum. Ég mæli aftur á móti með The Mighty Boosh fyrir þá sem hafa ekki horft á þá!
Red Dwarf – Tíunda serían af Red Dwarf hóf göngu sína í fyrra. Húmorinn í þáttunum er nokkuð breskur, en aðeins of grunnur og gamaldags að mínu mati. Það er stór hópur fólks sem elskar þessa þætti sem þykir nýja serían eflaust mjög góð, en ég hef aldrei náð að heillast af þáttunum og er tíunda serían engin undantekning.
Misfits – Þessir ofurhetjuþættir lofuðu góðu til að byrja með og er fyrsta þáttaröðin mjög góð. Um er að ræða þætti þar sem hópur Breta öðlast á dularfullan hátt ýmsa ofurkrafta og eru þættirnir troðfullir af húmor. Þættirnir hafa farið versnandi með hverri þáttaröð á fætur annari og virðast höfundar þáttanna sífellt taka nýja stefnu og vita stundum ekki alveg í hvorn fótinn þeir eiga að stíga, áhorfendum til mikils ama. Fjórða þáttaröðin af Misfits hóf göngu sína í fyrra og virðist hún vera sú versta til þessa. Að minnsta kosti fengu þeir mig til að hætta að fylgjast með þáttunum sem ég hef annars fylgst með frá upphafi. Hnuss!
Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.