Bíó og TV

Birt þann 2. nóvember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

5 bestu helgarferðirnar til vísindaskáldskaparborga

Það eru eflaust margir sem hugsa sér gott til glóðarinnar nú þegar hausta tekur og vilja losna undan skammdeginu með því að lyfta sér upp og skreppa í borgarferð með einhverju af okkar „samkeppnishæfu“ flugfélögum. Svo eru margir sem hafa ekki tíma eða fjármuni til þess eða þjást af hrikalegri flughræðslu, hvað veit ég.

Það er óþarfi að örvænta ef þú kemst ekki af klakanum yfir eina helgi því það er alltaf hægt að láta sig dreyma. Ég hef því sett saman 5 helgarferðir til nokkurra áhugaverðra borga sem eru því miður ekki til og því tilgangslaust að heimsækja þær, nema þá í huganum, sem er plús því það er óvíst að þú kæmist til baka ef þú heimsæktir eitthvað af þessum borgum. Þessar borgir eiga það sameiginlegt að birtast í vísindaskáldskaparmyndum og iða þær flestar af mannlífi og merkilegri menningu en sumar eru hreint út sagt stórfurðulegar (með stóru S-i).

Einhver sagði að draumar dagsins í dag geta orðið raunveruleikinn á morgun, hver veit nema þessar borgir sem ég tel upp hér eigi eftir að birtast í einhverri mynd í raunveruleikanum á einhverju tímaskeiði.

Í vil benda á að margt sem kemur fram í upptalningunni gæti spillt fyrir þeim sem ekki hafa séð umræddar kvikmyndir.

 

METROPOLIS

Hrikalega spennandi og fjölbreytt mannlíf  og nóta bene í svart-hvítu. Ég mæli með því að þú skoðir stóra Babelsturninn sem sést á myndinni en þar býr valdamesti maður borgarinnar, Joh Fredersen. Það er ekki ólíklegt að þú verðir fyrir áhrifum Bauhaus byggingarlistarinnar eða þýska expressjónismans því borgin sækir innblástur til Þýskalands. Þó er vert að minnast á hús vísindamannsins Rotwang sem fer ekki fram hjá neinum því það er í 17. aldar stíl. Passaðu þig bara að hætta þér ekki of nálægt því líkur eru á að þú verðir klónaður sem vélmenni og farir að dansa upp á borðum á skemmtistöðum borgarinnar.

Takið eftir nýtingu á gömlum flugvélum sem sveifa nánast tilgangslaust um þessa þéttu borg og veltu því fyrir þér hvar í ósköpunum þær lenda? Gamlir bílar eru einnig áberandi og lítið um gangandi vegfarendur. Það ætti svo sem ekki að trufla þig því þú ert frá Íslandi.

Líklegasta skýringin á því af hverju svo fáir eru á ferli gæti verið sú að flestir búa undir borginni og vinna þar myrkranna á milli. Það er þó mikið líf á skemmtistöðunum í borginni og ef þú ert svo heppinn að fá að heimsækja leynigarðana þá fer ýmislegt að minna á Amsterdam. Já og að lokum þá er ekkert GSM samband í Metropolis en hægt er að nota myndsíma á vissum stöðum.

Kvikmynd: Metropolis frá árinu 1927.
Leikstjóri: Fritz Lang

 

NEW EVERYTOWN

Velkominn til bresku borgarinnar New Everytown en hún er neðanjarðar og byggð á rústum gömlu borgarinnar Everytown. Það sem vekur strax athygli er mikil uppbygging neðanjarðar og umhverfisvernd er í hávegum höfð þar sem lítið er byggt ofanjarðar, en það má deila um það hversu mikil umhverfisvernd það er að byggja neðanjarðar. En hvað um það.

Það er mikið um lyftur og fallega hönnun í borginni og mikið mannlíf. Þú átt örugglega eftir að skera þig úr hópnum hvað klæðaburð varðar því það er lítið um fjölbreyttar tískubylgjur í borginni. Klæðnaður íbúanna minnir um margt á klæðnað Rómverja til forna.

Það er ekki ólíklegt að pólitískar skoðanir íbúanna láti á sér kræla því margir í borginni eru orðnir langþreyttir á stanslausri uppbyggingu og hraðri framþróun. Ef mótmælandinn í þér kveiknar þá er tilvalið að fylgja fjöldanum að gríðarlega stórri fallískri fallbyssu sem ætlar bráðlega að skjóta geimflaug til tunglsins. Þau telja þetta vera hentugustu aðferðina til að koma mannaðri geimflaug út í geim, ég veit ekki með ykkur en þessi borg er farin að hljóma strax illa. Eitt að lokum ef þið rekist á John Cabal, sem ætti ekki að fara framhjá ykkur því hann klæðist mjög hentugum og þægilegum hjálm eins og sést á myndinni, ekki hlæja því þessum manni er ekki auðveldlega skemmt.

Kvikmynd: Things to Come frá árinu 1936.
Leikstjóri: William Cameron Menzies

 

LOS ANGELES ÁRIÐ 2019

Ef þú hefur heimsótt Metropolis þá má segja að Los Angeles árið 2019 sé yfirdrifin og nútímalegri útgáfa af þeirri borg. Hún er gríðarlega stór og ekkert lík Los Angeles samtímans. Það er mikið mannlíf í borginni og fjölmenningarsamfélagið setur sinn svip á borgarmyndina því það eru mikil áhrif frá japönskum menningarheimi. Ekki láta stóru Tyrell bygginguna láta framhjá þér fara, hún minnir um margt á Maja pýramída og tilvalið „Kodak moment“.

Þegar þú mætir til borgarinnar þá skaltu ekki láta þér bregða þó augun í þér séu skönnuð og þú spurður einhverja spurninga, en það eru verur sem kalla sig „replicants“ sem herja á borginni og til þess að staðfesta að þú sért ekki replicant þá eru augun skönnuð. Replicants eru í raun vélmenni í mannslíki, bara svo það sé á hreinu. Það stafar þó ekki mikil hætta af þeim því lögreglumenn sem kallast Blade Runners sjá um að handsama þessar vélverur.

Borgin á örugglega eftir að þreyta þig fljótlega því hún er mjög dimm og lítið um almennilega upplýst svæði. Gleðipillur eru algengar og maturinn ekki upp á margar fiska á götumörkuðunum. Skemmtanalífið er mjög áhugavert og hægt er að fara á margar strípibúllur, en svo virðist sem litla sem enga aðra skemmtun sé að finna í borginni en þær búllur. Svo að lokum er ágætt að fjárfesta í minjagripum eins og litlum orígamí fígúrum. Ég mæli með einhyrningnum.

Kvikmynd: Blade Runner frá árinu 1982.
Leikstjóri: Ridley Scott

 

SEAHAVEN

Það er varla hægt að kalla Seahaven borg en þetta er mjög fallegur smábær sem á eftir að heilla þig upp úr skónum. Mannlífið er fjölbreytt og veðrið yfirleitt mjög gott. Mikið um áhugaverðar verslanir og byggingarnar eru mjög skemmtilegar og litavalið er heillandi.

Það er áhugavert að skoða ströndina og ókláruðu brúnna yfir á meginlandið, en bæjarbúum finnst fátt skemmtilegra en að skjóta golfkúlum af enda brúarinnar. Eitthvað sem þú gætir prófað í tindrandi tunglsljósinu.

Þó svo að borgin líti út fyrir að vera útópía og laus við allt sem gæti kallast mein í nútímasamfélagi þá er paradísin öll á yfirborðinu. Þú skalt ekki láta þér bregða þó rafmagnstæki falli niður til jarðar og útvörp og lyftur bili með tilheyrandi látum. Það er nefnilega verið að fylgjast með þér allan tímann sem þú ert í Seahaven og því er um að gera að hafa alla pappíra á hreinu áður en þú heimsækir staðinn. En ef þú ert mikið fyrir eftirlitssamfélög þá er Seahaven „the place to be“, svo mikið er víst að Michel Foucault hefði þótt áhugavert að heimsækja bæinn.

Láttu þér ekki bregða þó þú komist síðan ekki heim aftur því líklega bila öll farartæki sem þú sest upp í eða þá að leki í kjarnorkuveri eða skógareldar hindra för þína. Það er þó óþarfi að örvænta því nóg er til af köldum Marlon’s bjór og yfirleitt er hægt að sigla á skútu eða bát alveg þangað til löngu skuggarnir mætast við himinn bláan vegg og þar ætti að vera útgönguleið.

Kvikmynd: The Truman Show frá árinu 1998.
Leikstjóri: Peter Weir

 

DARK CITY

Það eru eflaust ekki margir sem fara heilir frá Dark City (nafnið á borginni er ekki hreinu). Borgin er mjög drungaleg og í raun ekkert öðruvísi en aðrar stórborgir samtímans. Það er eiginlega ekki neitt sem heillar við þessa borg annað en að hún breytist mjög ört og yfirleitt á miðnætti. Þú munt þó ekki taka mikið eftir því og það sem verra er er að þú munt örugglega ekki muna eftir breytingunni heldur og því lítið skemmtanagildi í þeim hamagangi.

Ef þú ert í Dark City þá muntu taka eftir því að það eru skuggalegir menn á ferð víða um borgina og líkur eru á að þú verðir bendlaður við morð eða annan ófögnuð. Rúsínan í pysluendanum er þó sú að geimverur stjórna öllu og þú ert í raun um borð í geimskipi sem er stjórnað af þeim og líklega gætiru endað sem tilraunadýr.

Ef Dark City væri til í alvörunni þá væri helgarferð þangað mjög líklega hagstæðasti kosturinn í stöðunni hvað varðar fluggjald. Ókosturinn er náttúrulega sá að ekki er hægt að lofa góðri skemmtun í borginni þó svo að það sé stór plús að rekast á Íslandsvininn Kiefer Sutherland.

Kvikmyndir: Dark City frá árinu 1998.
Leikstjóri: Alex Proyas

 

Aðrar kvikmyndir sem hefði mátt nefna í samhengi við borgarmyndina:
  • A.I. Artificial Intelligence
  • Alphaville
  • Judge Dredd
  • Minority Report
  • Waterworld
  • … og margar fleiri

 

Myndir: Skjáskot úr kvikmyndunum Metropolis (1927), Things to Come (1936), Blade Runner (1982), The Truman Show (1998) og Dark City (1998).

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑