Birt þann 18. október, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Äkta Människor: eða hvernig ég lærði að elska sænskan vísindaskáldskap
Á næstu dögum mun ríkissjónvarpið taka til sýninga sænska sjónvarpsþætti sem bera nafnið Äkta Människor eða á hinu ylhýra: Alvörufólk. Þessir þættir eru með því áhugaverðasta sem komið hefur frá Svíþjóð í langan tíma þó svo að sænsku vinir okkar geti stært sig af þáttum eins og lögregludramanu Wallander og vinsælum dramaseríum.
Äkta Människor var tekið til sýninga í sænska sjónvarpinu í janúar á þessu ári og vöktu mikla athygli hvað varðar efnistök. Þættirnir eru nefnilega hreinræktaður vísindaskáldskapur en lítið hefur borið á slíku sjónvarpsefni frá Norðurlöndunum. Þættirnir gerast í mjög nálægri framtíð og er söguheimurinn lítið þorp úti á landi. Í þessum pastel litaða heimi (en klæðnaður og umhverfi er oft á tíðum mjög hvítt og lítið um ýkta liti, ekki nema þegar undirstrika á andstæður sögupersóna) býr ósköp venjulegt fólk í venjulegu umhverfi sem er ekki langt frá samtímanum en í þessum heimi eru þó vélmenni eða eins og þau kallast í þáttunum; hubotar. Þessi vélmenni þjóna sem dramatíski kveikþráðurinn í þáttunum og þau eru það sem þættirnir spinna aðallega í kringum. Vélmennin eru nákvæmar eftirlíkingar af okkur. Þau eru nýtt sem þrælar mannfólksins, vinna í verksmiðjum og sem þjónar inni á heimilum fólks, fá ekki kaup og ekkert sjálfræði ekki frekar en önnur tæki og tól. Þau eru algjörlega undir mannfólkinu komin og ef eitthvað vélmenni finnst á víðavangi og án upplýsinga um eiganda er því umsvifalaust fargað eins og hverju öðru heimilistæki.
Aðalpersónur þáttanna Äkta Människor
Strax í upphafi þáttana er ljóst að vélmennin virðast búa yfir tilfinningum og virðast hafa einhverja tilvistarmeðvitund. Það er strax ljóst að höfundur þáttanna hefur haft kvikmyndina Blade Runner (1982) eða bók vísindaskáldskaparhöfundarins Philip K. Dick, Do Androids Dream of Electric Sheep (1968), sem Blade Runner byggir á, í huga þegar hugmyndin að þáttunum kviknaði.
Í þáttunum er tekist á við ýmisskonar heimsspekilegar spurningar um hvað er að vera mennskur. Vélmenninn eru notuð sem starfskraftar eða kynlífsleikföng. Þó veita þau líka mannfólkinu félagsskap og nokkrar persónur þáttanna elska vélmennin sín ekkert minna en lífsförunautin eða fjölskyldumeðlimi. Margir myndu halda að ekki væri hægt að elska vélmenni en ef við tökum bara iPhone sem dæmi, sem er tæki sem er ekkert líkt manneskju, þá hefur það komið í ljós í nýlegri rannsókn sem gerð var á nokkrum einstaklingum að sömu heilastöðvar og virkjast þegar við sjáum ástvin loga líka skært þegar við sjáum iPhone. (Martin Lindstrom, „You Love Your iPhone. Literally“, The New York Times, 2011).
Hugmyndin um mannlegt eðli verður óljósara þegar líðar tekur á þættina, það sem við teljum einungis vera mannlegt eins og samúð, tryggð, minningar og ást, á að einhverju leyti líka við um vélmennin, þau virðast mörg hver búa yfir þessum einstöku mannlegu eiginleikum þó svo að flest öll vélmennin virðist vera algjörlega án þessara mannlegu eiginleika og gera bara eins og þeim er sagt. Sem dæmi má nefna að í þáttunum segir ein kvenpersónan að hún sé með hinum „fullkomna karlmanni“ en hún býr með vélmenni sem virðist uppfylla allar hennar þarfir og er ekki með neitt vesen því hún hefur algjöra stjórn á honum.
Tilvistarheimspekin í Blade Runner á einnig við um Äkta Människor en í báðum söguheimunum er spurt spurninga um eðli minninga og hvað það er að vera mennskur. Í Blade Runner eru vélmenni elt uppi (sem eru nákvæmlega eins í útliti og mannfólkið) sem hafa sloppið frá þrælkun og ráfa um borgina á meðal alvöru fólks. Í Äkta Människor koma líka fyrir vélmenni sem hafa sloppið frá eigendum sínum og ráfa um í feluleik við yfirvöld sem vilja fanga þau og eyða. Þessi flótti vélmennina spegla frásagnir af flóttaþrælum, en hugmyndin um þrælahald og meðferð á þrælum og þá sérstaklega í Bandaríkjunum, er mjög augljós í þáttunum. Spurningar vakna um minningar og tilfinningar sem tengjast þeim og hvort vélar geti búið yfir slíkum mannlegum eiginleika.
Það kemur brátt í ljós að hugmyndir vísindaskáldskaparhöfundarins Isaac Asimov um Reglurnar þrjár eiga ekki við um vélmennin í þáttunum. Þessar reglur um vélmenni setti Asimov fram í smásögunni Runaround (1942) og eigar þessar reglur að koma í veg fyrir það að vélmenni geti skaðað mannverur. Eflaust kannast einhver við þessar reglur úr kvikmyndinni I, Robot (2004).
Þættirnir spyrja líka spurninga um hvaða hagur sé af því að vera með vélmenni sem taka vinnu af raunverulegu fólki og brjóta upp eðlilegt heimilislíf. Skrímsli Victor Frankenstein var skapað í þeim tilgangi að dást yfir mætti og mikilfengleika vísindanna en skrímslið reis upp sem martröð og ofsótti Frankenstein það sem eftir var ævi hans. Það eina sem skrímslið vildi var að vera mennskur og upplifa það sem við teljum vera mannlegast af öllu, ást. Sama hugmynd, um vísindin sem snúast gegn manninum og valda honum einungis meiri skaða en sæld, er stórt minni í þáttunum.
Ég vil meina að Äkta Människor séu einhverjir áhugaverðustu sjónvarpsþættir sem gerðir hafa verið í langan tíma…
Það var svolítið skrýtið að horfa á fyrstu þættina því svona söguheimur á sænsku er eitthvað sem er mjög framandi. Þeir voru þó fljótir að venjast og er það gífurlega góðu handriti, leik og tæknilegri úrvinnslu að þakka. Ég vil meina að Äkta Människor séu einhverjir áhugaverðustu sjónvarpsþættir sem gerðir hafa verið í langan tíma og ég skal hundur heita ef þeir verða ekki keyptir og endurgerðir í Bandaríkjunum.
Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.