Birt þann 12. ágúst, 2012 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason
0LE37 sigrar League of Legends mót HR-ingsins 2012
League of Legends móti HR-ingsins er nú lokið, en í úrslitum þess mættust liðin Gangnam Style og LE37. Fyrirkomulag viðureignarinnar var svokallað Best of Three, sem þýðir að fyrra liðið til að vinna tvo leiki sigraði.
Í fyrsta leiknum gekk Gangnam Style mjög illa framan af. Margir turnar töpuðust snemma og á sama tíma rakaði LE37 inn drápum og gulli. Þegar aðeins 15 mínútur voru liðnar af leiknum hætti einn leikmaður Gangnam Style í leiknum, og tilkynntu þeir í kjölfarið að þeir væru búnir að gefast upp. LE37 tók því fyrsta leikinn og staðan varð 1-0.
Seinni leikurinn byrjaði á svipaðan máta og sá fyrri, en Gangnam Style virtust ekki vera að spila jafn vel og þeir höfðu gert út mótið. Þegar 15 mínútur voru liðnar af leiknum höfðu LE37 þegar náð töluverðu forskoti í drápum, turnum og gulli, og því þegar farið að halla verulega á Gangnam Style. Á 22 mínútu náði Blaazer, leikmaður LE37 Quadra Kill og kom þannig liði sínu í 15 drápa forrystu. Stuttu eftir það náði LE37 að stela Baron fyrir lítinn tilkostnað, og þar með var seinasti naglinn kominn í líkkistu Gangnam Style og LE37 tóku sigurinn.
LE37 tókst því að sigra mótið án þess að tapa einum einasta leik, en þeir hafa nú unnið sér inn gjafabréf frá Kísildal, Mountain Dew gosdrykki, Dominoz pítsur og 80.oookr í verðlaunafé. Nörd Norðursins vill óska liðsmönnum LE37 innilega til hamingju með sigurinn!
Hægt er nálgast myndbönd af leikjunum með íslenskri leiklýsingu á Twitch síðu HR-ingsins í League of Legends.
– KÓS