Bækur og blöð

Birt þann 23. júlí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Myndasögur á Íslandi

Myndasögur eru sérstætt bókmenntaform. Reyndar vilja margir meina að þær séu hreint ekki bókmenntir, heldur list. Flestir sem þekkja til geta þó verið sammála um að í myndasögum tvinnast bókmenntir og myndlist svo vel saman að erfitt er að greina hvar eitt endar og annað byrjar. Myndasögur eru til í ótal greinum, af öllum stærðum og gerðum og frá flestum heimshornum. Með samspili mynda og texta gefa þær lesendum svo góða innsýn inn í hugarheim höfundar að næstum er hægt að tala um hugsanaflutning.

Eftir að hafa lesið þennan inngang myndi mann væntanlega þyrsta í nánari kynni af myndasöguheiminum og vilja þjóta í næstu bókabúð að ná sér í eitt af þessum meistaraverkum. En það er ekki svo auðvelt. Fyrir utan eina búð, sem við vitum væntanlega öll hver er, eru myndasögur nánast ófáanlegar í íslenskum bókabúðum. Auðvitað er hægt að finna eina og eina Tinnabók eða eitthvað smá skrípó í helstu bókabúðum landsins (svo ekki sé minnst á Bóksölu stúdenta, þar sem endalaust úrval er af bókum um myndasögur). En það er hægara sagt en gert að finna hágæða myndasögu hérlendis.

Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er staðan einföld: Nexus. Búðin hefur verið til, í einu eða öðru formi, frá því elstu nördar muna og þjónar öllum þeim þörfum sem hinn íslenski nútíma nörd getur hugsanlega haft. Þar er því ekki aðeins að finna myndasögur, heldur einnig skáldsögur, kvikmyndir, þætti, spil, hlutverkaleiki (nei, þeir eru ekki spil) og allt mögulegt annað. Nexus er ekki aðeins besta myndasögubúð landsins, heldur sú eina sem hefur eitthvað myndasöguúrval að ráði. Starfsmenn búðarinnar eru jafn fróðir um myndasögur og aðrar greinar nördismans og ávallt tilbúnir að panta þær bækur sem ekki eru til í búðinni í það skiptið.

En hvað ef maður vill setjast niður og glugga í bækurnar áður en ákveðið er hvort þær verði keyptar eða ekki? Jafnvel fá sér kaffibolla með? Í Nexus er svoleiðis ekki í boði, enda vilja sannir nördar ekki kaupa bækur sem virðast notaðar, jafnvel með kaffiblettum á. Þó kemur fyrir að maður er á ferð í miðbænum og þyrstir í myndasögulestur eftir klukkan sjö. Þá er í fá hús að venda, enda athvarf nördanna lokað. Ráðvilltur myndasögunörd gæti ráfað inn í Eymundsson eða Mál og menningu í leit að lesefni, en fundið fátt annað en bækur um myndasögur eða barnabækur með myndum. Og Hugleikur Dagsson, eins frábær og hann  er, getur hann ekki uppfyllt allar þarfir myndasöguáhugafólks. Hvert er þá hægt að snúa sér?

Í Iðu má segja að sé að finna vin í eyðimörkinni. Þar er hilla, ekki mjög stór, talsvert stærri þó en undirrituð, þar sem finna má ágætis úrval af myndasögum af ýmsum uppruna og eitthvað við allra hæfi. Það er að sjálfsögðu ekki nema brotabrot af því sem Nexus hefur upp á að bjóða og langt undir því sem mætti kalla nokkurs konar samkeppni við nördahimnaríkið, en þetta er þó byrjun. Jafnvel ágætis byrjun. Starfsfólkið er meira að segja sæmilega nördalegt, þ.e. nördalegra en gengur og gerist í bókabúðum almennt og viðræðuhæft um myndasögur, sem gleður nördahjartað alveg ósegjanlega.

Þeir sem búa á landsbyggðinni hafa ekki úr jafn miklu að moða. Reyndar er áðurnefnd Nexus (sem kemur svolítið oft fyrir í þessum pistli, en það sýnir líka hversu  mikilvæg hún er) með vefverslun sem þjónar þörfum þeirra sem af einhverjum ástæðum komast ekki á Hverfisgötuna á opnunartíma verslunarinnar. Þar er úrvalið þó ekki nærri því eins gott og í versluninni sjálfri, fyrir utan það að oft er gott að geta gluggað í bækurnar og þuklað aðeins á þeim áður en ákveðið er hvort þær verði keyptar eður ei. Í Eymundsson á Akureyri er sæmilegt úrval af myndasögum, miðað við að þetta er eina almennilega bókabúð bæjarins (náttúrulega fyrir utan fornbókaverslunina Fróða, en þar er heldur lítið um myndrænt efni). Annars staðar á landsbyggðinni hefur málið ekki verið kannað af höfundi, en lesendur mega gjarnan koma með ábendingar um stöðu mála þar.

Hér hefur einn vettvangur verið algjörlega skilinn útundan, enda er hann gjörólíkur hinum. Þeir myndasögulestrarhestar sem ekki hafa efni á því verði sem sett er upp í verslunum geta þess í stað leitað í athvarf allra bókaorma: Bókasafnið. Í Aðalsafni Borgarbókasafnsins er eitt myndarlegasta myndasögusafn á landinu, allavega meðal þeirra sem ekki eru í einkaeigu. Bækurnar þar eru reyndar allar, eða allavega langflestar, fengnar úr Nexus, en kostirnir við að fara frekar á bókasafnið eru fjölmargir. Fyrst og fremst þarf þar ekkert að borga. Þar er einnig hægt að setjast niður án þess að æpandi espressóvélar trufli einbeitinguna (þó að æpandi krakkar gætu reyndar truflað, sérstaklega þar sem myndasögudeildin er í návígi við barnabókadeildina). En aðalkosturinn við Aðalsafnið er þó sá að þar er hægt að finna myndasögur sem ekki finnast lengur í Nexus. Bókasafnið er jú eins konar tímavél, þar sem hægt er að finna bækur langt aftur í tímann, sem hvergi annars staðar er að fá.

Önnur bókasöfn komast varla með tærnar þar sem Aðalsafnið er með hælana, þó Amtsbókasafnið á Akureyri sé reyndar með sæmilegt úrval (allavega betra en Eymundsson). Það er því lítið annað að gera fyrir áhugafólk um myndasögur en að gera sér ferð niður í miðbæ Reykjavíkur á sólbjörtum sumardegi og lesa yfir sig af þessum stórkostlegu ritum í skruddusafninu eða versla þær af konungum nördanna. Því myndasögur eru jú mannbætandi og auðga lífið eins og öll önnur list- og bókmenntaform. Það er óskandi að fleiri taki upp sölu eða lán á þessum bókmenntalegu listaverkum og geri heiminn, eða allavega Ísland, að aðeins betri stað til að búa á.

Anna Stína Gunnarsdóttir

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑