Bíó og TV

Birt þann 10. maí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Night of the Creeps (1986)

Kvikmyndin Night of the Creeps, frá árinu 1986 og leikstýrð af Fred Dekker, er ein af fjölmörgum frá níunda áratugnum sem hafa fallið í skugga stærri mynda.

Síðan þá hefur myndin verið sýnd í sjónvarpi í Bandaríkjunum og fólk uppgötvað myndina smátt og smátt í gegnum árin. Fyrir ekki svo löngu var myndin loksins gefin út á DVD og Blu-ray og er það í fyrsta sinn sem hún er gefin út síðan hún var fyrst gefin út á VHS og Laserdisc.

Ég hafði aldrei heyrt minnst á hana en vissi um aðra mynd eftir sama leikstjóra, The Monster Squad (1987). Þegar sú mynd kom út á DVD frétti ég af þessari mynd og beið eftir þessari útgáfu. Biðin var þess virði því diskurinn er stútfullur af góðri skemmtun og góðu aukaefni.

Myndin fjallar um tvo unga háskólanema, Chris og J.C. (Jason Lively og Steve Marshall), sem reyna að fá inngöngu í bræðrafélag svo að Chris geti gengið í augun á hinni fallegu Cindy (Jill Whitlow). Til þess að fá inngöngu í félagið eru þeir sendir í leiðangur að finna lík og koma því fyrir fyrir utan hús annars bræðrafélags. Vinirnir tveir ramba á rannsóknarstofu sem hefur að geyma frosið lík, sem hefur verið þar síðan seinni hluta sjötta áratugarins, og reyna að taka það með sér. Þegar líkið virðist lifna við, hlaupa þeir dauðhræddir í burtu. Óafvitandi hafa þeir leyft sníkjudýri, sem leynist inní líkinu, frá geimnum að leika lausum hala á háskólalóðinni. Sníkjudýrið nærist á heilum og þegar það fjölgar sér inní fórnarlambinu breytist fórnarlambið í uppvakning. Þegar líkin fara að hrannast upp þarf rannsóknarlögreglumaðurinn Ray (Tom Atkins) að taka lögin í eigin hendur áður en allt fer til fjandans.

Það merkilega við leikstjórann, Fred Dekker, er að hann fékk ekki inngöngu í kvikmyndaskóla en á endanum valdi hann að læra ensku við UCLA. Á heimavistinni var hann um tíma herbergisfélagi Shane Black en hann skrifaði t.d. Leathal Weapon, lék í Predator og leikstýrði Kiss Kiss Bang Bang. Sem krakki var Fred forfallinn teiknimyndasögu-og kvikmyndanörd og þegar hann skrifaði Creeps henti hann í hana öllu því sem hann hafði haft gaman af í kvikmyndum í æsku. Í myndinni eru geimverur, sníkjudýr, uppvakningar og rannsóknarlögreglumaður í anda gömlu noir-myndanna. Þannig að myndin hefur því sérstaka blöndu, hún tekur sig ekkert allt of alvarlega, fyrir utan persónurnar.

Myndin er stórt ástarbréf til leikstjóra hryllingsmynda þar sem margar persónur í myndinni hafa kunnugleg eftirnöfn. Það er auðvelt að segja að myndin sé fáránleg, sem hún er, en það eru persónurnar sem lyfta myndinni á æðra plan. Vinatengslin eru sterk hjá Chris og J.C. og rannsóknarlögreglumaðurinn Ray er ekki allur þar sem hann er séður. Á bakvið fáránleikann eru alvarlegar persónur sem umbreytast þegar á líður. Myndin er fyrst og fremst góð skemmtun og lætur manni þykja vænt um persónurnar. Það er ekki oft sem það gerist í hryllingsmyndum.

Maður verður líka að tala aðeins um tónlistina en hún er eftir Barry DeVorzon. Hann er án efa þekktastur fyrir tónlistina úr The Warriors (1979) þar sem hann blandaði saman rokki og nútímatónlist við kvikmyndatónlistina. Þar sem Creeps var frekar ódýr mynd þurfti tónlistin að vera gerð með hljóðgervlum og Barry notaði þá einnig til að búa til hljóðin sem sníkjudýrin gáfu frá sér. Hann fékk aðstoð frá Doug Timm sem heyrist langar leiðir ef maður hefur heyrt tónlistina úr Nightflyers (1987). Það er sorglegt að segja frá því að hann var drepinn í ránstilraun á heimili hans sumarið 1989, það hefði verið gaman að heyra meira frá honum þar sem hann var mjög efnilegur tónlistarmaður. Tónlistin í Creeps fer víðan völl, allt frá gömlum smellum sjötta áratugarins til hljóðgervlapopps níunda áratugarins. Mikið af dularfullum og hægum lögum í bland við hröð vísindatryllis lög. Líkt og myndin sjálf er tónlistin ekki alvarleg nema við vel valin augnablik. Ef leikstjórinn hefði fengið að ráða hefði hann fengið sinfóníuhljómsveit til þess að spila tónlistina, en sem betur fer gerðist það ekki því það hefði farið á skjön við tón myndarinnar.

Mynd-og hljóðgæðin eru fín á DVD-disknum, myndin lítur og hljómar mjög vel miðað við hversu gömul hún er. Það sem kom mér á óvart voru litirnir, það eru senur sem eru í svart-hvítu sem eiga sér stað í fortíðinni og þegar myndin skiptir yfir í níunda áratuginn æpa litirnir á mann. Myndin er með skemmtilegan litblæ, skærir og draumkenndir litir eru í aðalhlutverki.

Myndin er nokkuð skýr, þrátt fyrir að áferðina á filmunni sést, nærmyndir koma vel út og sum smáatriði í bakgrunni sjást nokkuð vel. Myndin gerist aðallega að kvöldi til og því gott að vita að svarti liturinn kemur einnig vel út. Það eru engin augljós vandamál varðandi þessa myndfærslu og sem betur fer hefur ekki verið skerpt á myndinni eins og sumir framleiðendur eiga til að gera.

Hljóðgæðin eru sömuleiðis fín, þetta var upprunalega í víðóma tveggja rása hljóðrás en hefur verið uppfært í 5.1 hljóðrás. Fred Dekker hafði umsjá yfir færslunni og engar stórar breytingar voru gerðar sem þýðir að afturhátalarnir fá ekki mikið að gera nema styðja við bakið á tónlistinni og bakgrunnshljóðum. Flæði milli fremri hátalarna eru góð, allt kemst vel til skila og það eru engin misræmi í hljóðstyrk. Þetta er kannski ekki diskur til þess að sýna hversu gott sjónvarpið eða heimabíóið er, en þessi mynd hefur aldrei litið né hljómað jafn vel áður og þegar hún kom fyrst út í kvikmyndahúsum.

Myndin er einnig fáanleg á ólæstum Blu-ray diski þar sem mynd-og hljóðgæðin eru mun betri. Hingað til, hefur hún aðeins verið gefin út í Bandaríkjunum, hvort sem við erum að tala um DVD eða Blu-ray mynddiska.

Diskurinn er stútfullur af aukaefni, sem betur fer eru báðar útgáfurnar með sama aukaefni, þannig að það fer aðeins eftir því hvernig spilara maður á. Þar er að finna umtal með leikstjóra myndarinnar og hann er óhræddur að játa það sem ekki fór sem skildi. Mikið af fróðleik varðandi gerð myndarinnar er að finna á þessu umtali. Á hinu umtalinu með leikurunum, sem ég upptaldi í lýsingunni á myndinni, er ekki eins mikið um fróðleik en þess mun meira sprell. Tom Atkins fær ekki að segja mikið þar sem ungviðið gantast og skemmtir sér við að horfa á myndina sem þau hafa ekki séð í langan tíma. Kvikmyndin hefur að geyma nýjan endi sem var ekki notaður þegar hún var sýnd í kvikmyndahúsum eða VHS en var notaður, ásamt ónotuðum senum, þegar hún var sýnd í sjónvarpi í Bandaríkjunum. Þetta er mun betri endir heldur en endirinn sem er að finna í aukaefninu, sem er dæmigerður lokaskelfir sem dregur myndina niður að mínu mati. Það eru nokkrar ónotaðar senur sem voru skynsamlega teknar út þar sem þær þjónuðu litlum tilgangi.

Aðalkjötið á disknum er nærri klukkustunda löng heimildarmynd um gerð myndarinnar sem er skipt í fimm kafla og inniheldur samtöl við alla þá helstu sem komu að gerð myndarinnar.

Aðalkjötið á disknum er nærri klukkustunda löng heimildarmynd um gerð myndarinnar sem er skipt í fimm kafla og inniheldur samtöl við alla þá helstu sem komu að gerð myndarinnar. Þetta í bland við umtal leikstjórans þá er ekki mikið eftir sem maður veit ekki um gerð myndarinnar. Það er líka stutt 20 mínútna viðtal við leikarann Tom Atkins um feril sinn sem leikara og nokkrar sögur frá ferli hans. Svo má ekki gleyma upprunalegu stiklunni fyrir myndina og svo óþarfar stiklur fyrir aðrar myndir (Zombie Strippers, Ghostbusters, Hellboy, Men in Black 1 & 2 og Close Encounters of the Third Kind).

Síðast og síst er að finna fróðleik í formi skjátexta á meðan maður horfir á myndina, en sá texti er algjörlega óþarfi þar sem textinn endurtekur að mestu það sem maður hefur heyrt eða séð í hinu aukaefninu.

Manni finnst eins og þetta sé bara 2 ½ stjörnu mynd en skemmtanagildið er ótvírætt og lyftir í 3 stjörnur. Ég mæli hiklaust með þessari mynd og ekki skemmir fyrir hversu góður diskurinn er hvað varðar aukaefni og mynd-og hljóðgæði. Bara verst hvað hulstrið er ljótt, Blu-ray diskurinn er með skárra hulstur en hvers vegna gátu þeir ekki bara notað upprunalega plakatið.

Jósef Karl Gunnarsson

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑