Menning

Birt þann 31. maí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Ico, Flower, og tölvuleikir sem listform

Lengi hefur verið deilt um það hvort að tölvuleikir séu list eða einungis vörur með hátt skemmtanagildi og lítið annað undir yfirborðinu. Jafnvel einn háttsettasti kvikmyndagagnrýnandi allra tíma, Roger Ebert, hefur gengið svo langt að neita algjörlega listrænni tilvist í heimi tölvuleikja. Hvað finnst mér, einum af þessum svokölluðu „casual-spilurum“ sem tekur upp á því að spila nýja leiki með löngu millibili og glápi mun meira á kvikmyndir?  Ég tel tölvuleiki klárlega vera listform, jafn mikið og ég tel þá vera skemmtun.

Þegar fólk tekur undir það sem Roger Ebert hefur að segja um tölvuleiki  gleyma margir hverjir að hann hefur aldrei verið hluti af menningu tölvuleikja, né upplifað þá í sögulegum skilningi. Hann er barn eldri tíma og menningar sem þessi miðill er upphaflega ekki ætlaður og hefur ekki fylgt honum á sama hátt og sérgrein hans; kvikmyndir. Hann dæmir tölvuleiki á sama skala og hann myndi dæma kvikmyndir, en þú myndir í raun ekki dæma kvikmyndir á sama skala og málverk, er það nokkuð? Hann getur einfaldlega ekki tengt sig við þá líkt og þær kynslóðir sem njóta þeirra best, og ég skil það alveg þó ég sé ósammála því sem hann hefur að segja um efnið.

Ef list er persónubundin upplifun
sem snertir litahjól tilfinninga þinna,
þá falla tölvuleikir jafn mikið undir
þá skilgreiningu og aðrir vinsælir miðlar.

Ef list er persónubundin upplifun sem snertir litahjól tilfinninga þinna, þá falla tölvuleikir jafn mikið undir þá skilgreiningu og aðrir vinsælir miðlar. Þeir eru hannaðir af fólki sem er annt um útkomu verksins og starfa við að hnoða og móta væntanlega upplifun fyrir aðra og hafa jafn mikinn, ef ekki meiri áhuga en flestir spilarar á miðlinum. Heilir heimar eru byggðir í tölvuleikjum, þeir hafa margir sögur að segja. Arkitektúr margra leikja væri auðveldlega hægt að skilgreina sem list í sjálfu sér þó að það sé einungis hluti af heildinni. Sama frá hvaða sjónarhorni þú lítur á, þá er ávallt hægt að greina hugtakið „list“  á tilfinningalegu sviði – að vilja greina eitthvað verk er jafnvel sprottið af tilfinningum.


Handahófskennd pæling: hvað ef blóm gætu fengið víðáttubrjálæði?
Mynd úr Flower

Viðtökur leiksins Flower er gott dæmi um það hvernig margir bregðast við list. Sumir venjulegir spilarar gátu tengt upplifun leiksins við sjálfa sig á meðan að jafnmagrir (eða jafnvel fleiri) litu varla við honum vegna þess að hann höfðaði ekki til þeirra. Margir gagnrýnendur lofuðu leiknum á meðan ýmsir spilarar sögðu hann ekki einu sinni vera raunverulegan tölvuleik. Eitt er þó víst, leikurinn var upplifun – að mínu mati (eftir að hafa spilað hann aftur) þá var hann gullfalleg upplifun sem fær hugann til að reika um viðfangsefnið og tekst gífurlega vel að koma manni inn í markmiðið og indæla andrúmsloftið sem umlykur upplifunina. Leiknum tókst svo sannarlega að skapa umræðu og ég efa það ekki að hann hafi verið líklegur til að fá fólk til þess að íhuga hvað skilgreinir tölvuleik í fullri lengd. Margir telja að markmið listgreina sé einnig að framfleyta miðli sínum – en Flower var ansi ferkst fyrirbæri þegar leikurinn var gefinn út og ekki er mikið um svipaða leiki – er hann þá ekki að ýta undir ákveðna breytingu á upplifun tölvuleikja?

Að mínu mati tekst tölvuleikjum oft að hjálpa okkur að uppgötva okkar innri manneskjur á áhrifaríkari máta en t.d. kvikmyndir eða málverk (bækur eru hugsanlega annað mál, að mínu mati).

Að mínu mati tekst tölvuleikjum oft að hjálpa okkur að uppgötva okkar innri manneskjur á áhrifaríkari máta en t.d. kvikmyndir eða málverk (bækur eru hugsanlega annað mál, að mínu mati). Af hverju? Því tölvuleikir eru hrein upplifun þar sem við erum ekki einungis látin hugsa um það hvernig það væri að vera í sporum annarra, heldur er okkur skotið beinustu leið í fótspor þeirra til að upplifa hvert skref fyrir sig og hvert förinni er heitið.

Þú ert ekki áhorfandi, þú ert aðalpersónan – önnur persóna en þú sjálf/-ur, réttara sagt. Markmiðið er að setja þig bókstaflega í spor annara. Þú lendir í  aðstæðum sem þér hefði aldrei órað að lenda í, eða telur þig ekki hæfa/hæfan til þess að takast á við í daglegu lífi, náttúrulegum aðstæðum sem og yfirnáttúrulegum. Að sjá heiminn með augum annarra er lykillinn að skilningi hvors annars, styrkir okkur sem samfélag og byggir upp menningu. Eru þá góðir leikir ekki ansi góðir lyklar að skilningsríkara lífi ef við kunnum að nota þá

Leikurinn Ico er gott dæmi um list í þessum skilningi. Leikurinn er tilfinningaleg upplifun, hreint og beint. Þú færð sáralítið til að tengja þig við  baksögu, en hún skiptir litlu máli hér, því þú upplifir vægi aðstæðna og heilmikið tilfinningalegt ævintýri í gegnum spilun og hönnun leiksins. Þér verður annt um persónurnar eins og þau séu hluti af þér eða jafnvel þinn dyggasti vinur á meðan að leikurinn er í gangi.

Leikurinn skilar sér svo vel að það þarf varla mikið meira en handaband tveggja persóna og markmið til að skapa umhyggju í garð þeirra. Allt það helsta sem einkennir tölvuleikinn Ico er hversu lítið þarf til að ná til spilarans. Ico nýtir einfaldlega það sem er á boðstólnum og vegnar mjög vel því frásögnin er svo sterk og persónurík.

Leikurinn fjallar um unga drenginn Ico sem er borinn í risavaxinn kastala sem fórn því hann fæddist með horn á höfði sínu. Honum tekst að losna  úr prísundinni og þegar hann leitar að  útgönguleið kynnist hann fríðri eldri stelpu sem er hundelt af ógnvekjandi skuggaverum. Drengurinn Ico gerir vernd hennar að markmiði sínu auk þess þurfa þau að vinna saman til að komast út úr kastalanum, en það er hægara sagt en gert.

Þegar þú kynnist stelpunni (Yorda) kemur í ljós að þið talið allt annað mál og eigið því erfitt með samskipti. Þess vegna er handaband þeirra í leiknum svona mikilvægt, það táknar vináttu og traust sem allir skilja. Okkur er jafnvel gefin önnur mynd af þessu handabandi til þess að ítreka þessar tilfinningar, eins og þegar að hún þarf að stökkva langa leið og það eina sem heldur henni frá því að falla til dauða síns er að þú leggur henni hjálparhönd hinum megin og grípur hana þegar hún tekur stökkið. Alltaf táknar handaband þeirra traust og þessi tilfinning myndar sýndarvináttu milli spilarans og persónanna sem gerir átakanleg atriði seinna í leiknum mun áhrifaríkari þó að þú vitir voðalega lítið um persónurnar.

Sumir vilja meina að Ico sé karlrembulegur leikur því að þú ert að draga frekar klunnalega stelpu með þér hvert sem þú ferð og hún getur ekki bjargað sér sjálf. Þetta er algjör misskilningur að mínu mati…

Sumir vilja meina að Ico sé karlrembulegur leikur því að þú ert að draga frekar klunnalega stelpu með þér hvert sem þú ferð og hún getur ekki bjargað sér sjálf. Þetta er algjör misskilningur að mínu mati, persónurnar eru vinir sem leggja allt sitt traust í hendur hvors annars til að sleppa út úr kastalanum. Yorda launar þér hjálp þína þegar að því kemur, en sú sena er mun áhrifaríkari þegar þú sérð hana í réttu ljósi; hún er ekki elskuhugi eins og þeir sem ásaka leikinn um karlrembu vilja meina, hún er vinur. Traustur vinur, og við vitum það því spilunin kennir okkur það.

Ico er gullfallegur leikur í anda og útliti. Umhverfið er líflegt og er leið leiksins til að skila til spilarans réttu andrúmslofti, enda er leikurinn nánast laus við tónlist nema á nokkrum stöðum. Maður finnur fyrir því hversu ógnarmikill kastalinn er, og því lengur sem þú dvelur í honum, því meira langar þig til að koma ykkur úr honum. Allt þetta varð ekki til í höndum fólks sem sýnir miðlinum litla virðingu, heldur er þetta verk skapað af mikilli ástríðu þeirra sem elska þennan miðil, en það er eitthvað sem allir listamenn eiga sameiginlegt, þeir elska allir sitt fag.

Ef þið hugsið út í það þá hefði Ico auðveldlega geta klúðrast þar sem hugmyndin er sáraeinföld og hljómar ekkert sérstaklega spennandi; þú leikur strák sem dregur stelpu um risavaxinn kastala í leit að undankomuleið og hvorugt ykkar skilur hvort annað, né talið mikið. En Team Ico tókst að grípa spilendur um allan heim þökk sé tilfinningalegri tengingu leiksins og þeirra sem upplifa hann. Og það er sönn list, að tengja okkur við viðfangsefnið og fá okkur til að endurskoða það sem við þekkjum.

Tölvuleikir eru svo sannarlega list fyrir margt annað, en þeir hafa m.a. haft áhrif á menningu okkar. Tölvuleikir endurspegla okkar innri persónu í ýktari skilningi en aðrir miðlar, en líkt kvikmyndum, bókum, og fleiri miðlum þá, eins og ég sagði, myndi ég auðveldlega telja tölvuleiki sem list jafn mikið og ég tel þá vera skemmtun.

PS: ef einhverjir eru ekki enn sannfærðir er hægt að finna frábær greiningar myndbönd um miðilinn hjá frábæra fólkinu hjá Extra Credits, en þau elska tölvuleikjamiðilinn meira en allir sem ég þekki.

Axel Gústavsson

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑