Leikjarýni

Birt þann 12. apríl, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: The Darkness II

Þegar The Darkness kom út árið 2007 vakti hann athygli fyrir að vera frumlegur fyrstu-persónu skotleikur með athyglisverðan söguþráð, enda byggður á vinsælli teiknimyndaseríu. Síðan eru liðin fimm ár og í stað Starbreeze Studios (Chronicles of Riddick og nýlega Syndicate) hafa Digital Extremes tekið við leiknum.

Aðalsöguhetjan, Jackie Estacado, er ríkur og virtur  mafíu guðfaðir. Hann vill ekki að Myrkrið (The Darkness) sem lifir innra með honum nái stjórn yfir honum svo hann bælir það niður. Myrkrið er afbrigði af Kölska sjálfum sem getur ekki birst í eigin formi (hingað til ) og tekur sér því bólfestu í móttækilegum mannverum og hefur hann gert það frá upphafi alda. Aðstæður verða til þess að Jackie neyðist til þess að gefa sig á vald Myrkursins og þá verður ekki til baka snúið. Hann slátrar öllum sem standa í vegi hans  í leit sinni að svörum en hann fer m.a. fljótlega að sjá sýnir sem hann getur ekki útskýrt.

Líkt og í fyrsta leiknum er byrjað með miklum hasar. Í takt við Guðfaðirinn og The Sopranos er ráðist á Jackie þar sem hann situr inni á veitingastað en hann sleppur með aðstoð Myrkursins aftur í glæsihöll sína. Árásarmennirnir eru í hinu svokallaða Bræðralagi (Brotherhood) sem er stýrt af hinum haltrandi en öfluga Victor Valente, sem vill fá Myrkrið innra með Jackie til eigin nota.

Það fyrsta sem maður tekur eftir í leiknum er grafíkin sem er í teiknimyndastíl sem kallast „cel shading“ líkt og Borderlands. Þetta virkar mjög vel fyrir þennan heim og því ýkta ofbeldi sem honum fylgir. Annað er að í stað heils hers af litlum púkum (minions) hefur spilarinn einn breskan pönkarapúka til aðstoðar. Hann spilar stórt hlutverk sögulega séð en hjálpar  almennt ekki mikið til. Hann mun þó hjálpa spilaranum að ganga frá óvinum endrum og eins.

Spilarinn er með griðastað á milli atriða í glæsihöll Jackie. Þessi staður er óþarflega stór og virðist einungis þjóna því hlutverki að sýna hvað Jackie er mikils metinn og ríkur mafíósi. Það liggur við að það eina sem spilarinn gerir þar, sé að ganga á milli liðsmanna og tala um næstu skref stríðsins við Bræðralagið. Það hefði verið betra að hafa stutt myndskeið (cut-scenes) í staðinn. Þetta er sannarlega engin Villa Auditore en hýsir þó forngripi sem spilarinn finnur á leið sinni.

Eins og áður er Jackie með tvo djöfla arma, nokkurs konar snáka úr helvíti, sem spretta úr bakinu á honum. Hendurnar er hægt að nýta til að halda á vopnum og er einnig hægt að skipta yfir í tvíhent vopn eins og haglabyssur. Það eru semsagt margir möguleikar þegar kemur að því að ganga frá óvinunum, þó þetta kunni að hljóma flókið þá venst það fljótt.

Myrkrið þrífst skiljanlega best í myrkri og þarf spilarinn því að forðast ljós og skjóta ljósaperur eða rafala sem verða á vegi hans þar sem að ljós gerir Jackie máttlausann og blindar hann. Þetta vita óvinirnir og koma stundum með ljóskastara eða kasta að spilaranum flass-handsprengjum. Þetta skapar ágætis vægi því að án veikleika væri hann of öflugur. Gallinn er hins vegar sá að ljósið getur gert spilarann heldur áttavilltann þar sem að skjárinn verður hvítur og maður veit ekkert hvernig maður snýr. Það hefði ef til vill verið hægt að draga úr pirringi spilarans með því að yfirlýsa skjáinn minna og látið ljósið draga meira úr krafti Jackie.

 

SPILUN

Þrátt fyrir sum tæknileg atriði er spilunin bara ansi skemmtileg og fullnægjandi. Þetta er leikur sem gaman er að grípa í. Möguleiki er á að þróa sinn spilastíl með því að nota stig í t.d. flugnasveim sem ræðst á andstæðingana úr fjarlægð eða í að bæta vopnameðferð. Spilarinn fær fleiri stig fyrir frumleika þegar kemur að því að drepa andstæðingana og einnig fyrir það að finna forngripi sem eru á víð og dreif (relics). Djöflasnákarnir geta gripið hluti og fleygt þeim og hreinlega tætt í sundur og bitið óvinina í tvennt. Leikurinn er semsagt mjög ofbeldisfullur og til eru nokkur afbrigði af svokölluðum aftökum (executions).

Djöflasnákarnir geta gripið hluti og fleygt þeim og hreinlega tætt í sundur og bitið óvinina í tvennt. Leikurinn er semsagt mjög ofbeldisfullur og til eru nokkur afbrigði af svokölluðum aftökum (executions).

Upplifunin verður skemmtilegri eftir því sem þú byggir upp krafta þína og lærir meira á stjórnkerfið.

 

SAGAN

The Darkness frá árinu 2007 fékk hrós fyrir góðan söguþráð og hér er reynt að gera það sama. Áhrifin eru hins vegar ekki alveg sambærileg, sagan í upprunalega leiknum virkar sterkari og fjölbreyttari, enda frumverkið. Sagan er samt ekki alslæm og persónusköpunin er góð. Talsetningin er stórgóð fyrir flestar, ef ekki allar persónurnar og þá ber helst að nefna Johnny Powell sem er sérfræðingur í dularfullum hlutum og atburðum Darkness heimsins (occultist). Hann er talsettur mjög vel af David Hoffman og minnir helst á Woody Allen sem hefur farið yfirum og nærist á kókaíni. Myrkrið sjálft er talsett af tveimur leikurum (Mike Patton og Brian Bloom) og koma þeir hinni hreinu illsku vel til skila.

 

GRAFÍK OG HLJÓÐ

Eins og áður sagði þá notast leikurinn við „cel-shading“ sem passar mjög vel við hér. Hönnuðirnir hafa verið duglegir að nostra við umhverfið og eru mörg eftirtektarverð smáatriði , t.d. speglast stafir rétt í speglum.

Jackie sjálfur er þolanlegri í útliti, hann var áður nokkurs konar „emo poster-boy“, en lítur nokkuð eðlilega út núna þrátt fyrir að halda síða hárinu sem virkar einkennilega í heimi fullum af ítölskum klisjum. Hann myndi sóma sér betur sem fjórði meðlimur Jonas Brothers.

Jackie sjálfur er þolanlegri í útliti, hann var áður nokkurs konar „emo poster-boy“, en lítur nokkuð eðlilega út núna þrátt fyrir að halda síða hárinu sem virkar einkennilega í heimi fullum af ítölskum klisjum. Hann myndi sóma sér betur sem fjórði meðlimur Jonas Brothers. Eins og áður þá kemur hann með litlar sögur, aðallega frá barnæsku sinni, þegar næsti staður er að hlaðast. Það er erfitt að finna til samkenndar með Jackie og hann virkar frekar fráhrindandi sem kemur helst niður á ástarsögu hans og Jenny.

Þar sem að tónlistin og aðalþemað var mjög eftirminnilegt í fyrsta leiknum (Gustaf Gresberg) var pressa að gera það sama hér. Það tókst þokkalega vel og tónlistin er í samskonar gotneskum og hádramatískum stíl. Öll hljóð í leiknum eru líka sannfærandi enda nauðsynlegt þegar líkamar eru kramdir, skotnir eða rifnir í sundur.

 

ENDING

Leikurinn sjálfur er frekar stuttur, sérstaklega ef maður tekur mið af því að það er ekki hægt að fara hvert sem er. Hann er algjör einstefna (linear). Það hefði mátt gera betur hérna því að þessi heimur er mjög athyglisverður og hægt hefði verið að fara með söguna í fleiri áttir. En sagan á sína spretti. Það er mjög sterk vísbending um framhald og ég spái því að söguþráðurinn muni spila mun meira hlutverk í The Darkness III og leikurinn verði lengri fyrir vikið.

Í The Darkness II er í raun leikur innan leiksins sem kallast Vendettas. Þar er hægt að velja á milli fjögurra móðgandi steríótýpna en þar sem leikurinn er ein ítölsk mafíósa-klisja þá passar þetta vel innan Darkness heimsins. Því ekki að móðga alla kynþætti jafnt? Hver karakter hefur sína veikleika og styrki og getur byggt upp ákveðna hæfileika rétt eins og Jackie. Þessir karakterar þjóna Jackie og eru sentir út til að drepa ýmsa stjóra eða vinna verkefni sem samtvinnast skemmtilega inn í aðalsöguþráð leiksins. Þarna eru t.d. samtöl milli Johnny og ninjunnar Inugami sem maður hafði gaman af svo að eitthvað var lagt í söguna líka þrátt fyrir að þetta snúist nær eingöngu um að koma þér strax í hasarinn. Hægt er að spila Vendettas á netinu eða einn og sér. Netspilunin var ekki mjög skemmtileg reynsla hjá mér, spilarar þurfa að vera á nokkurn veginn sömu línu þar sem það þarf góða samvinnu. Skemmtilegast þótti mér að spila Vendettas einn og sér og fjölspilunarhlutanum hefði mátt sleppa; hann var ekki alveg nógu vel slípaður til.

Ending leiksins batnar við það að hægt er að fara í nýjan leik plús (New Game+) þar sem þú heldur öllum þínum kröftum frá fyrri leiknum og getur þróað þá frekar.

 

NIÐURSTAÐA

Helstu kostir The Darkness II eru spilunin og heimurinn sjálfur. Fyrir þá sem hafa gaman af öðruvísi fyrstu-persónu skotleikjum er þetta fín viðbót í safnið og vega kostirnir þyngra en gallarnir.

 

GRAFÍK
HLJÓÐ
SPILUN
SAGA
ENDING
8,0
8,0
8,0
6,5
6,5

SAMTALS

7,4

Steinar Logi

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑