Birt þann 4. desember, 2011 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason
2Gameboy geðveiki!
Þegar ég var 10 ára gamall þá fór ég með Pabba mínum í heimsókn til bróður hans og fjölskyldu í Danmörku. Þetta var í fyrsta skipti sem ég myndi fara til útlanda og ég var mjög spenntur fyrir ferðinni. En aðeins tveim dögum fyrir ferðina varð ég heiftarlega veikur, fékk 40C° hita og önnur almenn leiðindi sem fylgdu því. Ég var samt staðfastur á því að fara út, þannig ég var sendur með rútunni til Reykjavíkur í Kraft galla, með beinverki, svitaköst og allan pakkann. Þegar við komum loksins út á flugvöll var ég ennþá frekar slappur og leiddist voðalega mikið að bíða eftir öllu þessu umstangi sem fylgdi því að ferðast erlendis. Pabbi kallinn sá aumur á mér og keypti fyrir mig Gameboy tölvu í fríhöfninni til að stytta mér stundir. Þetta var gamla upprunalega Gameboy tölvan. Snjógrá, með fjólubláum tökkum og tók fjórar AA rafhlöður, sem hún var merkilega fljót að klára. Með tölvunni fylgdi Aladdin leikur sem mér fannst rosalega skemmtilegur. Allt í einu voru veikindin og leiðindin af biðinni mun bærilegri, því ef það er eitthvað sem fær mig til að gleyma stað og stund þá eru það tölvuleikir (þetta á við enn í dag). Ég spilaði á Gameboy tölvunni alveg þangað til að við fórum upp í flugvélina en þá þurfti ég að slökkva á henni þar sem öll notkun rafeindatækja var bönnuð í flugvélum.
"Flugstöð! Við erum að koma inn til brotlendingar... Lítill drengur gleymdi að slökkva á Gameboy tölvunni sinni."
Eftir að Danmerkurferðinni lauk, eignaðist ég fljótlega fyrstu PC tölvuna mína (IBM 386, újee) þannig að Gameboy tölvan fékk sífellt minni spilunartíma, enda var hún ekki bara í samkeppni við PC tölvuna heldur líka famiklóninn minn, og aðeins síðar, Sega Mega Drive tölvuna mína. Ég var sem sagt aldrei mikill Gameboy spilari, ég átti ekki nema 3 leiki fyrir tölvuna og sú staðreynd að hún þurfti rafhlöður sem voru bæði dýrar og entust stutt var frekar fráhrindandi.
Síðan gerðist það um daginn að ég stoppaði við í Góða Hirðirnum eins og ég geri oft á leiðinni í skólann. Eins og ég hef skrifað um áður er fremur sjaldgæft að maður finni eitthvað merkilegt í Góða Hirðirnum, sem er á annað borð tengt gömlum tölvuleikjum. En aftur á móti kemur það alveg fyrir að maður finnur eitthvað sem er þess virði að borga nokkra hundraðkalla fyrir. Þessi ferð var einmitt þannig ferð. Eftir að hafa skoðað þessa venjulegu staði sem ég skoða reglulega ákvað ég allt í einu að skoða dótadeildina. Þar er alltaf allskyns drasl, gömul leikföng, action kallar, brúður, púsluspil, borðspil og margt margt fleira. Þá sá ég hann, sægrænn Gameboy Color, allur útataður í lími eftir límmiða eða límbönd eða eitthvað álíka, liggjandi þarna í hillunni aleinan og einmana. Ég tók hann upp og skoðaði hann og sá að hann var verðmerktur á 300kr, og rafhlöðulokið var greinilega af öðrum Gameboy þar sem það var gult á litinn. Það er að sjálfsögðu þannig með raftæki í Góða Hirðirnum að það er engin ábyrgð tekin á því hvort svona hlutir virki á annað borð, en fyrir 300kr ákvað ég að kippa honum með mér. Þó svo hann virkaði ekki væri tapið aldrei mikið.
Þegar ég kom heim seinna um kvöldið setti ég tvær AA rafhlöður í tækið og viti menn, á skjánum birtist Nintendo merkið og á eftir því fylgdi klassíska „Ding!“ hljóðið. En ég hafði reyndar enga leiki til að prufa á honum. Ég fór því rakleiðis á Facebook og spurði hvort einhver ætti eitt stykki Gameboy leik til að lána mér svo ég gæti prufað minn Gameboy. Það kom mér á óvart hvað margir höfðu átt Gameboy á yngri árum, fullt af fólki bauðst til að lána mér leiki og sýndi þessum fund mínum mikin áhuga. Það sem kom mér þó mest á óvart var að unnusta mín sem tók eftir fyrirspurn minni á samskiptavefnum tjáði mér að hún ætti Gameboy tölvu og fullt af leikjum!
"Safnarðu gömlum leikjum og bloggar um það á netinu? Ég átti kannski að segja þér frá Gameboy safninu mínu fyrr?"
Þrátt fyrir miklar sannfæringar af hennar hálfu um að hafa sagt mér af þessari tölvu áður þá mundi ég ekkert eftir því. En alla vegana, næsta dag, eftir að unnusta mín hafði tekið sig til og rótað í kössum heima hjá tengdamömmu, var ég allt í einu kominn með tvær Gameboy tölvur og slatta af leikjum. Tölvan sem hún á er blá Gameboy Pocket tölva. Hún er ekki í lit eins og græna tölvan, en er aðeins minni og léttari, og það er einhvern vegin mun þæginlegra að ýta á takkanna á henni. Hún tekur líka minni rafhlöður, eða tvö AAA batterí.
Eins og ég var búinn að segja áður þá hef ég aldrei verið þessi Gameboy týpa, þannig ég lék mér eitthvað mjög takmarkað að þessu. En þá, rétt eins og þegar ég fékk fyrstu Gameboy vélina þegar ég var 10 ára gamall, varð ég allt í einu rosalega slappur og lagðist í veikindi. Ef ég hefði ekki verið veikur áður en ég fékk fyrstu tölvuna mína mætti halda að ég hefði ofnæmi fyrir Gameboy tölvum, en það er fyllilega mögulegt að allur skíturinn utan á grænu Gameboy tölvunni hafi borið mér sér einhverja pest úr Góða Hirðirnum. En hvað með það. Þar sem ég var núna veikur heima og hafði ekki orku til að gera neitt nema að liggja í rúminu og sitja á klósettinu, kom sér allt í einu vel að eiga Gameboy tölvur! Ég byrjaði að prufa alla leikina í nokkrar mínútur og fannst þeir misgóðir. Eftir smá spilun komst ég að því að skemmtilegast leikurinn að mínu mati var Wario Land 3, sem er alls ekki ólíkur Super Mario Bros 3 á NES og Famicom. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég er frekar lélegur í þessum leik. Ég náði að spila mig upp að tveim endaköllum en náði ekki fyrir mitt litla líf að sigra þá. Ég hlít að hafa drepist 30 sinnum á hvorum endakalli, þannig að ég fékk unnustu mína til að sigra þá fyrir mig, en hún spilaði þennan leik náttúrulega þúsund sinnum þegar hún var barn (svo kenni ég líka veikindunum um hvað ég var lélegur *hóst* *hóst*). Sá leikur sem er í næst mestu uppáhaldi hjá mér er pirate Gameboy hylki sem hún kom með, sem er með sirka 7 mismunandi leikjum á, þar á meðal Super Mario Land, Tetris og Flipull an Exciting Cube Game (sem er þrátt fyrir nafnið frekar óspennandi). Í þessum veikindapakka mínum lærði ég að meta Gameboy tölvuna fyrir hvað hún er, en að mínu mati er hún fyrst og fremst uppfyllingartæki fyrir dauðan tíma. Ég hugsa að ég myndi aldrei setjast niður með Gameboy tölvu til að spila í gegnum einhvern leik í einni setu, eins og ég get gert með ýmsa NES og Famicom leiki. En ég hugsa að það sé fínt að vera með svona vél í strætó, á læknabiðstofum og í mínu tilviki þegar maður er veikur og situr á dollunni hálfan daginn.
Guði sé lof...
En bíðið aðeins, Gameboy ævintýrið var ekki ennþá búið fyrir mér. Nokkrum dögum eftir að ég var kominn á lappir og orðinn hress aftur fann ég aðra Gameboy tölvu í Góða Hirðirnum! Í þetta skiptið silfurlitaðan Gameboy Pocket, og rúsínan í pylsuendanum var að það fylgdi leikur með! Leikurinn sem fylgdi með var Pokémon Gold, en Pokémon leikirnir eru skilst mér ein af helstu ástæðunum fyrir því að fólk er enn að spila þessar tölvur í dag. Ég ætla ekki að fara í langar útskýringar á því hvernig þessi leikur spilast (enda hef ég lítið spilað hann) en það góða við Pokémon leikina er það, að hylkin vista hve langt maður er kominn í leiknum og það er hægt að spila á móti fólki sem á líka Pokémon leik með því að tengja Gameboy tölvur saman með sérstakri snúru. Því miður vistar ekki leikurinn sem ég fann. Það þarf sennilega að opna hann og skipta um rafhlöðu, en ég stefni á að reyna að gera það í jólafríinu svo ég geti prufað þennan örugglega ágætis leik.
Silfurlitaða Gameboy tölvan virkar líka fínt eins og hinar tölvurnar og er í frekar góðu ásigkomulagi. Þannig að á aðeins tveim vikum fór ég úr því að eiga núll Gameboy tölvur, í það að eiga þrjár Gameboy tölvur og níu leiki. Ég veit ekki alveg hvort ég fari að setja Gameboy á listann yfir þær tölvur sem ég ætla að safna drasli fyrir, en ef ég geri það þá er ég alla vegana kominn með ágætis startpakka.
Takk fyrir lesturinn!
2 Responses to Gameboy geðveiki!