Birt þann 23. október, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Leikjarýni: Blocks That Matter
Blocks That Matter er indí leikur sem kom út á þessu ári fyrir PC og Xbox 360 og er gerður af Swing Swing Submarine. Leikurinn er þrauta-, hopp- og skopp leikur (puzzle og platform) þar sem spilarinn þarf að forðast óvini og pússlar sig í gegnum leikinn.
Saga leiksins snýst um ferðalag smávaxins vélmennis sem borar sér leið áleiðis í þeim tilgangi að bjarga sköpurum sínum, Alexey og Markus, sem óþekktir óþokkar hafa rænt. Spilarinn stjórnar vélmenninu sem safnar kubbum með því að bora í þá eða skalla þá. Í leiknum eru ýmsar tegundir af kubbum og hver og ein tegund hefur sitt eigið útlit og eiginleika. Til dæmis eru brúnir kubbar úr tré sem geta brunnið, gráir kubbar úr steini og kubbar úr demöntum sem er mun erfiðara að brjóta.
Spilun leiksins skiptist í tvær gerðir af spilun; þrautir annars vegar og hopp og skopp hins vegar. Í hopp og skopp hluta leiksins þarf vélmennið að safna kubbum, forðast óvini og forðast að festast í borðinu. Vélmennið springur og deyr ef það snertir óvin tvisvar sinnum, en auk þess getur spilarinn sprengt vélmennið upp ef/þegar hann festist í borðinu og vill byrja að spila það aftur frá byrjun. Hopp og skopp hluti leiksins er ansi líkur öðrum leikjum í sama flokki en útlit leiksins er frábrugðið og sker sig úr öðrum leikjum. Umhverfi leiksins samanstendur af einfaldri og kubbalegri uppsetningu sem gefur leiknum retrólegan keim sem heppnast að mörgu leiti mjög vel.
Þegar spilarinn skiptir yfir í þrauta hluta leiksins stoppar tíminn og græn filma fer yfir alla skjámyndina sem leyfir spilaranum að pússla saman kubbum til að komast að enda hvers borðs – sem eru yfir 40 talsins.
Tónlistin í leiknum er algjört eyrnakonfekt fyrir þá sem fíla retróleiki og nær að tvinnast grafíkinni og tilfinningu leiksins einstaklega vel.
Spilarinn getur pússlað kubbunum saman á ranga vegu, til dæmis með því að nota ranga tegund af kubbum eða velja ranga staðsetningu fyrir kubbana. Þetta hefur ekki endilega samstundis áhrif á leikinn, en að lokum áttar spilarinn sig á því að hann getur ekki klárað borðið nema með því að hafa fleiri kubba milli handanna og þá getur hann nálgast með því að pússla kubbunum á annan veg. Á þessum tímapunkti þarf spilarinn að sprengja vélmennið og byrja borðið frá byrjun. Þar sem spilarinn þarf að byrja hvert borð frá byrjun í hvert skipti sem hann deyr fer hann að hugsa áður en hann framkvæmir hlutina.
Kjarni leiksins samanstendur af einfaldri grafík og flóknum þrautum og vinna þessar andstæður einstaklega vel saman, líkt og yin og yang. Þrautirnar eru sumar hverjar ansi erfiðar – en ánægjan við að ná að leysa þær er klárlega þess virði að hafa eytt tíma í að klóra sér í hausum og sett nokkrar heilasellur í ræktina!
Vélmennið sem spilarinn stjórnar lítur út fyrir að vera hjálparlaust og saklaust, þó borinn eigi það til að blekkja. Vélmennið berst ekki – það hleypur í burtu og fer að byggja úr kubbum! Það getur ekki meitt neinn, aðeins meiðst, og má segja að þetta stóra og mikla verkefni sem þessu örsmáa vélmenni hefur verið sett minnir mann vissulega á söguna um Davíð og Golíat.
Með reglulegu millibili fær vélmennið uppfærslu sem gerir því kleyft að bora í og safna kubbum sem áður var ómögulegt að nálgast.
Stjórnun og spilun leiksins er mjög vel heppnuð (leikurinn var spilaður á Xbox 360) og nær ansi góðu flæði. Í hverju borði er svo einn kubbur sem skiptir máli (block that matters) og inniheldur kubburinn hluta úr sögu kubba í tölvuleikjum – til dæmis er kubbur sem skiptir máli úr Tetris í einu borði og úr Minecraft í öðru borði. Þessir yndislegu söfnunargripir auka endingu leiksins til muna og er virkilega gaman að sjá hvaða hluti leikjasögunnar finnst í hverju borði.
Niðurstaða
Blocks That Matter er klárlega þess virði að prófa ef þú hefur gaman af indí leikjum og/eða þrautaleikjum! Spilun leiksins er frábærlega vel heppnuð. Ég myndi ekki setja leikinn á jafn háan stall og Braid, Limbo eða Portal, en þessi leikur kom mér verulega á óvart og er mjög ofarlega á mínum lista yfir bestu (indí) þrautaleiki þetta árið.
9,0
– Bjarki Þór Jónsson