Retró

Birt þann 18. september, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

1

Sjaldgæfustu NES leikirnir

eftir Kristinn Ólaf Smárason

Ef þú varst barn eða unglingur á árunum í kringum 1990 þá annað hvort áttirðu, eða þekktir einhvern sem átti gömlu góðu Nintendo Entertainment System tölvuna (NES). Ef ekki, þá misstirðu af miklu og varst sennilega alin upp af tófum á miðhálendinu. Seinustu ár hefur það færst mikið í vöxt að fólk grafi upp þessa gömlu gráu hlunka úr geymslunum sínum og byrji að spila klassísku leikina aftur. Aðrir taka það skrefinu lengra með því að kaupa, selja og safna leikjum og fylgihlutum sem tengjast þessari fornu vél. Eins og gengur og gerist í safnaraheiminum eru alltaf einhverjir hlutir sem til er nóg af og flestir eiga, og síðan eru aðrir hlutir sem eru fágætir og verða þar af leiðandi mjög eftirsóknarverðir og dýrmætir meðal safnara. Þetta er ekkert öðruvísi hjá þeim sem stunda það að safna gömlum NES leikjum. Flestir eiga Super Mario Bros. og Duck Hunt, enda vinsælir leikir og fylgdu oft með þegar ný tölva var keypt. En svo eru leikir sem eru svo sjaldgæfir að verðmiðinn á þeim er ekki á færi flestra. Í þessari grein ætlum við að skoða nokkra af þeim allra sjaldgæfustu NES tölvuleikjum sem fyrirfinnast og drepa aðeins niður á því hvað það er sem gerir þá svona sjaldgæfa.

 

Stadium Events (Bandai 1986-1988)

Stadium Events er talinn vera einn sjaldgæfasti NES leikurinn sem var gefinn út fyrir almennan markað. Leikurinn var fyrst gefinn út í Japan árið 1986, af Bandai fyrir Family Game tölvuna (japanska NES). Ári seinna var leikurinn gefinn út í Bandaríkjunum og seinast í Evrópu árið 1988, en það eru þessar tvær útgáfur sem eru hvað sjaldgæfastar. Stadium Events var einn af tveimur leikjum sem var gefinn út til að nota með Family Fun Fitness mottunni. FFF mottan var metnaðarfull viðbótargræja, hönnuð og framleidd af Bandai, sem var tengd við NES tölvuna, en leikmenn stóðu á henni og stýrðu leikjum með því að stíga á vissa þrýstipunkta. Leikurinn sjálfur innihélt nokkra frjálsíþróttaleiki eins og 100 m. hlaup, langstökk og þrístökk.

Það sem gerir leikinn sjaldgæfan er að hann var framleiddur í takmörkuðu upplagi og aðeins seldur í nokkrum vel völdum búðum. Síðan gerðist það árið 1988 að Nintendo keypti allan rétt að FFF mottunni og hófu framleiðslu á henni sjálfir undir nafninu Power Pad. Þar sem Nintendo gat ekki liðið að þessi framúrskarandi leikjatækni væri ennþá gefin út undir nafni annars fyrirtækis, voru öll eintök af Stadium Events sem voru enn í bandarískum búðum, innkölluð og þeim eytt. Leikurinn var síðan endurútgefinn undir nafninu World Class Track Meet ásamt nýju Nintendo Power Pad mottunni. Vegna innköllunarinnar er talið að aðeins 200 eintök af bandarísku gerð leiksins hafi komist í hendur neytenda, og af þessum 200 eintökum er talið að aðeins 20 heil eintök séu til í dag. Óopnað eintak af bandaríska Stadium Events seldist á Ebay í janúar á þessu ári fyrir 22.800$, eða rúmar 2,6 milljónir íslenskra króna. Evrópska útgáfan var hins vegar ekki innkölluð og er því ekki eins sjaldgæf og hin bandaríska, en sjaldgæf engu að síður, og hafa heil eintök af henni selst á allt að 4.000$, en fara þó yfirleitt á töluvert minna.

 

Nintendo World Championships (1990) / Nintendo Campus Challenge (1991)

Heimsmeistarakeppnin í Nintendo leikjum var haldin í Bandaríkjunum árið 1990. Í keppninni spiluðu keppendur þrjá leiki með það að markmiði að fá sem flest stig á aðeins 6 mínútum og 21 sekúndu, en leikirnir voru Super Mario Bros, Rad Racer og Tetris. Leikirnir voru spilaðir á sérstöku Nintendo tölvuleikjahylki sem innihélt alla þrjá leikina, en með vissum breytingum. Leikmenn byrjuðu á því að safna 50 peningum í Super Mario Bros. Þegar það tókst skipti leikurinn yfir í Rad Racer þar sem leikmenn þurftu að klára sérstaka braut sem var sérhönnuð fyrir keppnina. Þegar sú braut var keyrð á enda kláruðu leikmenn afganginn af tímanum sínum í Tetris. Þegar tíminn kláraðist reiknaði leikurinn út heildarstig keppandans.

90 grá leikjahylki voru framleidd til notkunar fyrir keppnina, og þegar keppnin var búin voru þau öll gefin þeim keppendum sem höfðu komist í undanúrslit á sínu svæði. 26 önnur leikjahylki voru þó sérstaklega framleidd eftir keppnina, en þau voru frábrugðin hinum hylkjunum að því leiti að þau voru gyllt að lit. Gylltu hylkin voru veitt út sem verðlaun af bandaríska tölvuleikjablaðinu Nintendo Power. Þrátt fyrir umbúðirnar eru leikirnir nákvæmlega eins í spilun, en eru þrátt fyrir það mis sjaldgæfir. Gráu Nintendo World Championship leikirnir hafa verið að fara á allt upp í 10.000$ (1,17 milljón íslenskra króna) og jafnvel hærra. Gylltu hylkin eru hins vegar mun sjaldgæfari og hafa hingað til aðeins 13 af upprunalegu 26 hylkjunum fundist. Mikið af gylltu hylkjunum hafa verið seld fyrir leyndar upphæðir, en hæsta staðfesta upphæðin sem borguð hefur verið fyrir gylltan Nintendo World Championship leik er í kringum 21.000$, eða næstum 2,5 milljón íslenskra króna. Fyrir þá sem eru ekki tilbúnir til að borga slíkar upphæðir fyrir 20 ára gamalt plaststykki, er hægt að nálgast endurgerð af þessum leik á retrousb.com fyrir sirka 6.500 krónur.

Síðan er vert að minnast á það að ári seinna hélt Nintendo aðra keppni með svipuðu sniði, en þeir sem fengu að taka þátt að þessu sinni voru aðallega bandarískir framhalds- og háskólanemar. Sú keppni hét Nintendo Campus Challenge, en hún ferðaðist á milli skóla og leyfði tölvuleikjasjúkum nemum að spreyta sig. Leikirnir sem voru notaðir í þessari keppni voru; Super Mario 3, PinBot og Dr. Mario, og eins og áður höfðu leikmenn um 6 mínútur til þess að safna sem flestum stigum. Eftir að keppninni lauk var hins vegar öllum leikjahylkjunum eytt, nema einu, sem uppgvötaðist árið 2006 á bílskúrssölu hjá fyrrverandi starfsmanni Nintendo. Hylkið hefur síðan gengið kaupum og sölum og var seinast selt fyrir 20.100$, eða um 2,35 milljónir íslenskra króna.

 

Caltron 6-In-1 / Myriad Six In One (Caltron 1992)

6-In-1 var gefin út (án samþykkis Nintendo) árið 1992 af tævanska leikjafyrirtækinu Caltron Industries og er eini leikurinn sem það fyrirtæki gaf út. Caltron 6-In-1 er eins og nafnið gefur til kynna, sex leikir á einu leikjahylki. Allir leikirnir voru svokallaðir „klónar“ af áður útgefnum leikjum frá leikjafyrirtækinu NTDEC, en klónaður leikur er yfirleitt gamall leikur sem hefur verið tekinn og grafík, tónlist og fleiri hlutum hefur verið breytt til þess að komast hjá lögsókn frá upprunalega framleiðanda leiksins. Samkvæmt gagnrýnendum eru leikirnir frekar lélegir miðað við útgáfutíma þeirra, en leikirnir sem eru á hylkinu eru; Bookyman, Balloon Monster, Porter, Adamn and Eve, Cosmos Cop og Magic Carpet 1001.

Leikurinn fékk vægast sagt dræmar viðtökur og stuttu eftir að leikurinn hafði verið gefinn út fóru Caltron Industries á hausinn. Bandaríska leikjafyrirtækið Myriad Games keypti þá lagerinn af Caltron Industries, skellti nýjum límmiða á leikjahylkin og byrjaði endursölu á þeim undir nafninu Myriad Six In One. Leikurinn hefur eflaust verið framleiddur á tævönskum Indíánagrafreit, því stuttu eftir að Myriad endurútgaf leikinn fóru þeir líka á hausinn. Vegna þess hve leikurinn var almennt dæmdur lélegur og vegna stutts líftíma fyrirtækjanna sem seldu leikinn í heildsölu, er þetta leikjahylki eitt það sjaldgæfasta af svokölluðum „pirate“ leikjum (leikir gefnir út í óþökk Nintendo) sem voru framleiddir fyrir NES tölvuna. Upprunalega Caltron útgáfan er eitthvað örlítið algengari en Myriad útgáfan, en þó eru báðar útgáfurnar einstaklega sjaldgæfar og eru verðin á þeim eitthvað á milli 800$-5.000$, eftir því í hvaða ástandi leikurinn er og hvort upprunalegi kassinn eða handbókin fylgja með.

 

Nokkrir „fullorðins“ leikir (Panesian)

Eins og flestir vita þá gaf Nintendo ekki út alla leikina fyrir NES tölvuna. Mörg fyrirtæki gerðu samninga við Nintendo og fengu réttindi til þess að gefa út leiki fyrir tölvuna, enda eru margir af gömlu góðu leikjunum frá allt öðrum framleiðendum en Nintendo. Til að fá gæðastimpil Nintendo þurftu fyrirtækin að standast ýmsar kröfur hvað varðaði framleiðslu, höfundarétt og gæði leikjanna. Þar af leiðandi fengu ekki öll fyrirtæki Nintendo gæðastimpilinn og gáfu út leiki í óþökk Nintendo, eins og t.d. Caltron sem við fjölluðum um hér fyrir ofan. Eitt slíkt fyrirtæki fór þó skrefinu lengra, og það fyrirtæki var Panesian. Panesian gaf út leiki sem voru fyrir annan markhóp en Nintendo miðaði venjulega á, en leikirnir frá Panesian eru erótískir leikir. Panesian gaf út þrjá slíka leiki; Bubble Bath Babes sem var Tetris klón, Peek A Boo Poker sem var stripppókerleikur og Hot Slots sem var einskonar spilakassaleikur. Allir þrír leikirnir voru með myndum af fáklæddum konum í kynæsandi 8-bita grafík.

Nintendo var að sjálfsögðu ekki par sáttir með þessa leiki, og birtu grein í Nintendo Power þar sem þeir hvöttu neytendur til þess að tilkynna búðir sem seldu leiki frá Panesian (og öðrum „pirate“ fyrirtækjum) með því að hringja í sérstakt númer. Panesian leikirnir voru ekki gefnir út í hefðbundu pappakössunum sem Nintendo leikirnir voru jafnan í, heldur voru þeir í plast VHS boxum, enda voru þeir miðaðir að því að vera leigðir út af vídjóleigum. Panesian leikirnir eru ekki margir eftir í dag og er talið að það séu ekki nema í kringum 1000 eintök eftir í heiminum. Bubble Bath Babes og Peek A Boo Poker eru taldir vera sjaldgæfari en Hot Slots, en þeir hafa verið seldir á Ebay fyrir 900$-1400$ á meðan Hot Slots fer í dag á sirka 600$.

 

Action 52 og Cheetahmen II (Active Enterprises 1991)

Action 52 var gefinn út árið 1991 af Active Enterprises og er enn einn leikurinn í þessari grein sem var gefinn út án samþykkis Nintendo. Talan 52 í nafni leiksins vísar til þess að á þessu eina leikjahylki voru hvorki meira né minna en 52 leikir. Upphaflega söluverð Action 52 var 200$ (minna en 4$ á leik) sem var heldur dýrt á þessum tíma. Flestir (ef ekki allir) leikirnir eru því miður hreinlega hundleiðinlegir í spilun samkvæmt flestum gagnrýnendum, sem sannar enn og aftur að magn er ekki það sama og gæði. Flestir leikirnir eru í einstaklega lélegri grafík og  líkjast helst leikjum sem komu út á fyrstu árum NES tölvunnar. Aðrir eru svo illa forritaðir og hannaðir að þeir spilast jafnvel ekki.

En einn af leikjunum stendur þó upp úr á meðal allra hinna en það er óskabarn Active Enterprises; Cheetahmen. Cheetahmen er hopp og skopp slagsmálaleikur sem fjallar um þrjá blettatígra í mannsmynd sem eru líka karatemeistarar og börðust gegn hinu illa eða eitthvað í þá áttina (sem sagt einhvers konar sambræðingur af Thundercats og Teenage Mutant Ninja Turtles). Leikurinn lítur örlítið betur út en hinir 51 leikirnir á hylkinu en er samt sem áður hræðilega illa forritaður og nánast óspilanlegur. Hugmynd Active Enterprises var að Cheetahmen myndi verða að gífurlega vinsælu fyrirbæri sem þeir gætu blóðmjólkað með sölu á leikföngum, teiknimyndum og ýmsum öðrum varningi sem myndi tengjast blettatígursundrinu. Þar sem þetta var (engan vegin) skotheld hugmynd hófu þeir strax framleiðslu á Cheetahmen 2 tölvuleik.

Þar sem Action 52 fékk ömurlegar viðtökur, bæði vegna lágra gæða leikjanna og hins tiltölulega háa verðs, var Cheetahmen 2 aldrei gefinn út. Hann var þó framleiddur og á endanum voru 1500 eintök af leiknum seld beint úr vöruhúsinu fyrir smápeninga árið 1997, um það bil fjórum árum eftir að hætt var að framleiða NES leiki. Cheetahmen 2 hélt sig við stíl forvera sinn og var illa forritaður og gjörsamlega óspilanlegur. Þrátt fyrir léleg gæði þessara leikja eru þeir tiltölulega sjaldgæfir og eftirsóttir af söfnurum, þá frekar fyrir sögulegt gildi þeirra heldur en skemmtanagildi. Action 52 er þó enn ódýrari í dag heldur en hann var við útgáfu, og fer yfirleitt á minna en 200$. Cheetahmen 2 hins vegar er heldur sjaldgæfari og fer að jafnaði á milli 600$ og 900$ þegar eintök dúkka upp á Ebay eða sambærilegum stöðum.

 

Þetta eru þessir helstu alræmdu leikir sem koma fyrir í blautum draumum hjá tölvuleikjasöfnurum, en þó er ekki allt upp talið. Til að mynda er mjög algengt að leikir sem komu út í lok lífdaga NES tölvunnar séu fremur sjaldgæfir, enda var Super NES þá meira og minna búin að taka við, og því seldust þeir leikir fremur illa. Flestum finnst eflaust kjánalegt að fólk sé að borga svona háar upphæðir fyrir þessa leiki. Þetta er jú ekkert nema smá plast og málmur. En eru frímerki ekki bara pappír og lím, og er Mona Lisa ekki bara strigi og málning.

Flestum finnst eflaust kjánalegt að fólk sé að borga svona háar upphæðir fyrir þessa leiki. Þetta er jú ekkert nema smá plast og málmur. En eru frímerki ekki bara pappír og lím, og er Mona Lisa ekki bara strigi og málning.

Það er líka vert að minnast á það að margir af sjaldgæfustu NES leikjunum í dag voru einungis gefnir út á Norðurlöndunum, má þar nefna Mr. Gimmick og Devil World. Ef þú lesandi góður heldur að þú sitjir á fjársjóði niðri í geymslu, þá getur þú litið inn á vefsíðu NintendoAge.com, en þar er hægt að sjá lista yfir alla sjaldgæfustu leikina sem gefnir hafa verið út fyrir NES tölvuna.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



One Response to Sjaldgæfustu NES leikirnir

Skildu eftir svar

Efst upp ↑