Birt þann 28. september, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins
1Eurogamer Expo 2011
Ég skellti mér á Eurogamer Expo 2011 í London, sem er ein af stærstu leikjasýningum Evrópu og stóð yfir 22. til 25. september. Á sýningunni var hægt að spila heitustu og eftirsóttustu leikina í dag, meðal annars var spilanleg útgáfa af Skyrim, Battlefield 3, Assassin’s Creed: Revelations, Batman: Arkham City, Dark Souls og Star Wars: The Old Republic.
Yfirlit
Eurogamer Expo 2011 stóð yfir 22. til 25. september síðastliðin í Earl’s Court í London. Alla fjóra dagana var hægt að spila heitustu leikina, bæði nýútgefna leiki og væntalega titla á borð við Skyrim og Batman: Arkham City. Flestir leikjanördar ættu að þekkja til Eurogamer sem hefur tekið á því helsta úr tölvuleikjaheiminum síðastliðin 12 ár og er ein vinsælasta leikjasíðan í Evrópu í dag.
Eurogamer Expo hefur verið haldið árlega frá árinu 2008 og er þetta því fjórða skiptið sem sýningin var haldin. Sýningin stækkar stöðugt milli ára og mættu í kringum 20.000 gestir á sýninguna í fyrra. Sýningin í ár var sú stærsta frá upphafi þar sem 75 spilanlegir leikjatitlar voru í boði fyrir gesti, allt frá stærstu leikjunum í dag yfir í lítið þekkta indí smáleiki.
Sýningin snýst ekki aðeins um tölvuleikina, heldur einnig græjurnar. Á Eurogamer sýningunni gátu gestir meðal annars fengið að prófa væntanlegu handheldu leikjavélina frá Sony, PlayStation Vita, auk þess sem OnLive þjónustan hóf gögnu sína í Bretlandi.
Á hverjum degi var boðið upp á spjall um gerð og þróun ýmissa tölvuleikja í svokölluðum framleiðslu lotum (Developer Sessions). Ég skellti mér á tvær slíkar lotur; annarsvegar þar sem Trion Worlds ræddu um leikinn End og Nations og hins vegar þar sem Ubisoft Montreal fjallaði um Assassin’s Creed: Revelations.
Einnig var sérstækt svæði sem kallaðist Career Fair og var ætlað þeim sem vildu koma sér á framfæri í leikjaiðnaðinum þar sem reynsluboltar gáfu þeim reynsluminni góð ráð og leiðbeiningar um næstu skref.
Gamlar og góðar leikjatölvur ásamt gömlum og góðum tölvuleikjum fengu nokkuð stórt svæði þar sem unnendur retró leikja gátu spilað sig í gegnum tölvuleikjasöguna.
Sýningin
Ég mætti á síðasta dag sýningarinnar, sunnudaginn 25. september. Þegar ég mætti (rétt fyrir hádegi) var löng og þétt röð af óþreyjufullum nördum sem klæjaði í puttana við að fá að spila leikina sem biðu þeirra handan við dyrnar. Svarthöfði og hans liðsmenn sáu til þess að allt færi vel fram fyrir framan Earl’s Court og skemmtu gestir sér við að taka myndir af sér með einni illræmdustu sögupersónu kvikmyndasögunnar. Þrátt fyrir að röðin hafi verið heldur löng gekk hún mjög hratt fyrir sig.
Við innganginn voru dagskrárblöðum dreift og þar var einnig hægt að kaupa Eurogamer Expo 2011 stuttermaboli. Eftir það blöstu við ljósasýningar og endalausir skjáir með hinum og þessum tölvuleikjum. R2D2, Mario, Link, Riddler og fleiri þekktar persónur gengu um sýningargólfið gestum til mikillar skemmtunar. Auk þess voru nokkrar verslanir með bása þar sem hægt var að kaupa tölvuleikja tengdann varning á borð við nammi, föt, bangsa og ýmsa safngripi.
Sýningunni var skipt upp í nokkur svæði. Eitt svæðið var bannað innan 18 ára þar sem margir fyrstu persónu skotleikirnir voru geymdir ásamt öðrum ofbeldisfullum leikjum, önnur svæði voru tileinkuð indí leikjum, retró leikjum, OnLive og svo framvegis. Lang stærsti hlutinn var þó tileinkaður nýjum og væntanlegum tölvuleikjum.
Það voru mis langar raðir við básana en flestar raðir gengu frekar hratt fyrir sig. Það voru þó áberandi langar við The Elder Scrolls V: Skyrim, Battlefield 3, Star Wars: Old Republic og síðast en ekki síst í prufuspilun PlayStation Vita. Á meðan eðlilegur biðtími var í kringum 0 – 20 mínútur til að spila leik þurftu margir að bíða í kringum 1 – 3 klukkutíma til að komast í vinsælasta efnið.
Leikirnir
Helstu stórleikirnir í dag – nýir og væntanlegir – voru á Eurogamer Expo í spilanlegum útgáfum. Leikirnir sem voru á sýningunni voru:
Ace Combat: Assault Horizon, Anarchy Reigns, Assassin’s Creed: Revelations, Awesomenauts, Batman: Arkham City, Battlefield 3, Binary Domain, Counter-Strike: Global Offensive, Dance Central 2, Dark Souls, Driver: San Francisco, End of Nations, FIFA 12, Final Fantasy XIII-2, Forza 4, Gears of War 3, Guild Wars 2, Gunstringer, Halo: Combat Evolved Anniversary, Ico & Shadow of the Colossus Collection HD, Inversion, Journey, Just Dance 3, Kid Icarus: Uprising, Kinect Sports Season 2, Legend of Zelda: Skyward Sword, Mario Kart 7, Mass Effect 3, Metal Gear Solid: Snake Eater 3D, Need for Speed: The Run, Ninja Gaiden 3, OnLive, PlayStation Vita, Pro Evolution Soccer 2012, Rage, Ratchet and Clank: All 4 One, Rayman Origins, Renegade Ops, Resident Evil: Revelations, Resistance 3, Ridge Racer Unbounded. Rift, Rise of Nightmares, Saints Row: The Third, Silent Hill: Downpour, Sonic Generations, Soul Calibur V, SSX, Star Wars: The Old Republic, Starhawk, Street Fighter X Tekken, Super Mario 3D Land, Tekken Hybrid, Tekken Tag Tournament 2, The Elder Scrolls V: Skyrim, The House of the Dead: Overkill Extended Cut, Tom Clancy’s Ghost Recon: Future Soilder, UFC Undisputed 3, Ultimate Marvel vs. Capcom 3, Uncharted 3: Drake’s Deception, Warhammer 40.000: Space Marine, World of Games, World Rally Championship 2011 og WWE 12.
Uppsetningin var svipuð hjá hverjum og einum tölvuleik þar sem stór mynd blasti við af leiknum og voru tölvur tiltækar fyrir þá sem vildu spila viðkomandi leik. Stórleikir á borð við The Elder Scrolls V: Skyrim, Battlefield 3 og Star Wars: Old Republic voru með stærra svæði og fleiri tölvur og mun lengri röð en aðrir leikir, enda margir sem bíða spenntir eftir þessum leikjum.
Raðirnar gengu vel fyrir sig og eiga spilarar ekki eftir að vera fyrir vonbrigðum með þessa leiki. Þegar ég ætlaði að smella af myndum og næla mér í nokkur skjáskot úr leikjunum tók það öryggisverði ekki nema örfáar sekúndur að hrópa „No! No! No photos or videos here!“ – setning sem maður bjóst nú ekki við að heyra á opnu Expó-i! Spurning hvort þetta tengist einhvers konar ritskoðunaráráttu, hver veit.
Eftir að hafa spilað nokkra leiki má sannarlega fullyrða að lang flestir leikirnir eru að standast væntingarnar. Aftur á móti kynnist maður aðeins spilun leikjanna á svo stuttum tíma að ómögulegt er að kynnast sögu leiksins almennilega. Aftur á móti af þeim leikjum sem ég skoðaði stóðu eftirfarandi leikir úr hvað varðar spilun og grafík; Assassin’s Creed: Revelations, Final Fantasy XIII-2, Ico & Shadow of the Colossus Collection HD, Legend of Zelda: Skyward Sword, Gears of War 3, Guild Wars 2, Star Wars: The Old Republic og The Elder Scrolls V: Skyrim. Nintendo hornið var skemmtilega upp sett, skjannahvítt skreytt með persónum úr heimi Nintendos. Aftur á móti var fátt spennandi að sjá í þeirra básum, nema þá helst Nintendo 3DS og nýi Zelda leikurinn.
Sífellt fleiri leikir krefjast þess að spilarinn hreyfi sig. Það voru nokkrir slíkir leikir á sýningunni en það var áberandi skemmtilegt að fylgjast með spilurum í dansleiknum Dance Central 2 þar sem ófeimnir gestir tóku dansspor. Sitt hvoru megin við spilarann voru dansbúr þar sem tvær stúlkur dönsuðu með. Þetta var klárlega staðurinn þar sem flestar svitaperlur voru myndaðar per sekúndu.
Annar skemmtilegur hreyfileikur var Rise of Nightmares í Kinect í Xbox 360. Þar börðu og spörkuðu spilarar í óvinina þar til skjárinn varð rauður af blóði. Einstaklega heillandi. Leikurinn er með þeim fáu sem er ætlaður fullorðnum í Kinect, engræjan hefur fyrst og fremst verið markaðsett fyrir fjölskyldur, krakka og fulla partýspilara.
End of Nations
End of Nations er leikur gefinn út af Trion Worlds (Rift) og í honum munu þúsundir spilara geta barist gegn hvor öðrum víðsvegar um heiminn. Leikurinn sjálfur mun vera ókeypis að sækja og spila og geta áhugasamir nú þegar skráð sig í Betuna hér. Leikurinn er fjöspilunarleikur (MMO) fyrir alla. Það á að vera auðvelt að læra inn á hann, auk þess sem nýir spilarar eiga að hafa góða möguleika á að sigra reyndari spilara í bardaga – sem getur verið kostur og ókostur.
Leikurinn mun bjóða upp á hluti til sölu á borð við skinn (skins) en vopn og annar varningur sem geta haft bein áhrif á spilun leiksins verða ekki til sölu. Leikurinn mun því ekki fylgja einni illræmdustu formúlu leikjasögunnar; free to play, pay to win.
Einnig má gera ráð fyrir einhverri snilld frá Frank Klepacki í leiknum, en hann er hvað þekktastur fyrir tónlist sína í Command & Conquer seríunni.
Leikurinn er enn í vinnslu og því fengum við aðeins að sjá brot af honum á Eurogamer Expo, en útgáfudagur leiksins verður tilkynntur síðar.
Assassin’s Creed: Revelations
Margir bíða spenntir eftir næsta Assassin’s Creed leik; Assassin’s Creed: Revelations. Myndataka var ekki leyfð á kynningarfundinum en þar var sýnt eitt fjandi flott myndskeið sem hafði aðeins verið sýnt tvisvar áður á sambærilegum kynningarfundum.
Leikurinn heldur áfram þar sem frá var horfið og er árið 1511. Útlit persónunnar er ekki eins hvítt og hreint og áður heldur hallast stíll hans og útlit í átt að barbarisma þar sem útlitið og klæðnaður er dekkri og grófari. Veðrið í leiknum er einnig breytilegt þar sem spilarinn fær meðal annars að kynnast snjókomu.
Stíll aðalborgarinnar, menningarpottsins Konstantínópel (Istanbúl í dag), er mjög breytilegur. Þar er að finna blandaðan arkitektúr og samansafn af stílum héðan og þaðan úr heiminum. Þegar leikjahönnuðirnir voru að teikna upp borgina fyrir leikinn notuðust þeir við fornar teikningar af borginni og auk þess notuðust þeir við ýmis kennileiti sem er/var að finna í borginni sem verða einnig í leiknum.
Borgin, sem er gífurlega stór, mun innihalda marga turna og háar byggingar og verður seint talin flöt. Hverfin munu einnig hafa sín sérstöku þemu og áberandi öðruvísi útlit, sama hvort um er að ræða hverfi fátækra, ríkra eða markaðstorg.
Aðrir hlutir sem komu til sögunnar voru: Eagle Vision-ið, sem verður öflugra í leiknum og mun spilarinn geta séð hluti sem hann gat ekki séð í eldri Assassin’s Creed leikjum. Hookblade, sem aðstoðar spilarann við að koma sér hraðar á milli staða með því að renna sér á reipi. Og síðast en ekki síst að vopnin í leiknum munu meðal annars samanstanda af mörgum gerðum af sprengjum sem spilarinn getur blandað saman á ýmsa vegu.
Assassin’s Creed: Revelations er væntanlegur 15. nóvember 2011.
PlayStation Vita
Þolinmóðir gestir fengu að prófa arftaka PlayStation Portable (PSP); PlayStation Vita (PSV). Svæðið ætlað leikjavélinni var girt af og var aðeins hleypt nokkrum inn í einu, þar sem hver og einn gestur fékk sinn eigin leiðbeinanda sem fór í gegnum valda möguleika vélarinnar á u.þ.b. fimm mínútum.
Með PSV vill Sony tengja saman leikjaspilun og samskipti vina í eina græju. PSV er með OLED snertiskjá, snertistýringu á bakhliðinni, tveimur stýripinnum (analog sticks), hefðbundnu aðgerðartökkunum, tvær myndavélar (eina framan á og önnur aftan á) og er hún einnig öflugri en PSP. Það eru yfir 80 leikjatitlar í vinnslu og meðal þeirra eru; Uncharted: Golden Abyss, Ruin, Modnation Racers, Street Fighter X Tekken, LittleBig Planet og fleiri.
Leikjatölvan getur tengst PlayStation 3 (PS3) og geta meðal annars átta spilarar spilað saman í gegnum netið – í gegnum PSV og PS3. PlayStation Vita kemur í verslanir um næstu jól og verður fáanleg í tveimur útgáfum; Wi-fi útgáfa sem mun kosta $249/€249 og 3G útgáfa sem kostar $299/€299.
Gestir voru yfir sig hrifnir af græjunni og þótti alveg þess virði að bíð í tvo tíma í röð til að prófa vélina í stutta stund!
OnLive
Með OnLive getur þú spilað valda tölvuleiki þegar þér hentar. Líkt og þegar þú leigir þér kvikmynda í gegnum Skjáinn geta Bretar nú nálgast tölvuleikina með sambærilegum hætti beint í sjónvarpið, PC, Makka og spjaldtölvur – án diska og fyrirfram niðurhals.
Spilarar geta spjallað sín á milli á OnLive og deilt upptökum úr tölvuleikjaspilun meðal vina. OnLive býður notendum upp á úrval tölvuleikja, allt frá smáleikjum og yfir í stórleiki.
Indí leikir
Það var sérstakt leikjahorn fyrir indí leikina. Indí leikir eru leikir sem framleiddir eru fyrir utan stóru leikjafyrirtækin og leikirnir því oft smáir og þora hönnuðir þeirra oftar en ekki að framkvæma nýja og frumlega hluti sem gerir smáleikina þeirra einstaka. Leikirnir sem voru á sýningunni þetta árið voru:
At a Distance, Blocks That Matter, Fotonica, Molecat Twist, Pineapple Smash Crew, Really Big Sky, Rimelands: Hammer of Thor, Smuggle Truck, Stellar Impact, These Robotic Hearts of Mine, Waves og Xenonauts.
Really Big Sky vakti athygli hjá mér strax. Leikurinn er ofurhraður skotleikur sem gerist í geimnum þar sem spilarinn verður að skjóta óvinina og forðast að verða skotinn sjálfur.
Annar leikur sem vakti athygli mína var Greedy Bankers vs. The World, en það var fyrst vegna nafni leiksins. Um er að ræða þrautaleik sem auðvelt er að læra á.
Retróhornið
Í horni retrósins gátu spilarar spilað leiki á gömlum, eldgömlum og hundgömlum leikjatölvum. Þvílík dýrð! Leikjatölvur á borð við Dreamcast, Atari, NES, Game Boy og Lynx og leikir á borð við Quake, Pacman og Street Fighter. Þarna fengu gömlu spilararnir gæsahúð og nýir spilarar kjánahroll.
– Bjarki Þór Jónsson
One Response to Eurogamer Expo 2011
Skildu eftir svar
Þú verður að skrá þig inn til þess að rita athugasemd.
Pingback: Afmælispistill | Nörd Norðursins