Leikjarýni

Birt þann 15. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: L.A. Noire

eftir Bjarka Þór Jónsson

Það er árið 1947 og hrottalegt morð hefur verið framið í borg englanna, Los Angeles, þar sem glamúr, frægð og frami lifir góðu lífi – auk spillingar og skipulagðrar glæpastarfsemi. Lögreglumaður að nafni Cole Phelps er að ganga um götur borgarinnar þegar hann heyrir skyndilega skothvelli og öskur. Cole hleypur í átt að hljóðinu og kemur að blóðugu líki liggjandi á gangstéttinni. Fórnarlambið hefur verið skotið til bana og morðinginn er á bak og burt. Hver skýtur mann um hábjartan dag í miðri stórborg? Og hvers vegna? Nú er tími til kominn að setja á sig rannsóknarlögregluhattinn, því það er þitt að leysa málið.

Um miðjan maí kom út leikurinn L.A. Noire sem Team Bondi og Rockstar Games unnu að. Team Bondi er ástralskt tölvuleikjafyrirtæki sem ekki hefur verið neitt voðalega áberandi í tölvuleikjaheiminum hingað til, en Rockstar Games þekkja flestir tölvuleikjaspilarar. Rockstar stendur á bak við stóra opna sandkassatölvuleiki á borð við Grand Theft Auto og Red Dead Redemption, en sandkassaleikir ganga út á það að hafa umhverfi og spilun leiksins mjög opna, þannig hefur spilarinn áhrif á hvernig leikurinn er spilaður.

 

PERSÓNUR

Í leiknum stýrir spilarinn lögreglumanninum Cole Phelps í Los Angeles. Cole, sem er um þrítugt, er fyrrverandi hermaður og var sæmdur silfurkrossinum í kjölfar frammistöðu sinnar í hernum. Persónuleiki Coles er fullkomin uppskrift að góðum rannsóknarlögreglumanni; hann er ákveðinn, stundum hvatvís, alvarlegur og gefst ekki auðveldlega upp. Það sem gerir persónuna einstaka, líkt og aðrar persónur í leiknum, er hversu mennsk hún er. Þrátt fyrir að þola fleiri byssukúlur en raunverulegur maður og finna fleiri vísbendingar og tengingar í glæpamálum en getur talist sem eðlilegt, að þá fær spilarinn ekki þá tilfinningu að hann sé að stjórna einhverskonar ofurmenni, heldur mannlegri persónu sem er ekki fullkomin og hefur tilfinningar.

Persónurnar í leiknum eru mun mannlegri og raunverulegri en gengur og gerist í tölvuleikjum. Í mörgum tölvuleikjum eru söguhetjurnar einhverskonar ódauðleg ofurmenni með flatann persónuleika og áunnið töffarasigg gegn tilfinningum. Í L.A. Noire hefur verið lögð mikil og góð vinna í persónurnar, ekki aðeins aðalpersónurnar, heldur alla þá sem koma við sögu leiksins.

Í leiknum fær spilarinn að kynnast persónunni Cole Phelps mjög vel og sögu hans. Cole gegnir nokkrum stöðum innan lögreglunnar í söguþræðinu sem brýtur upp á spilun leiksins. Það er fátt í fari Coles sem breytist við nýjar stöður (fyrir utan breyttan fatnað) en málin sem spilarinn er beðinn um að leysa verða fjölbreyttari. Auk þess fær Cole nýjan samstarfsmann í hverri stöðu innan lögreglunnar sem spilarinn fær einnig að kynnast í gegnum söguþráð leiksins og gerir það að verkum að hann fær aldrei leið á samstarfsmanni sínum. Samstarfsmennirnir vinna samhliða Cole í lögreglumálunum og geta leiðbeint spilaranum á næsta áfangastað og keyrt milli staða ef spilarinn fær leið á akstrinum.

 

SPILUN

Það er skemmtileg tilbreyting að stjórna persónu sem er réttu megin við lögin. Margar tölvuleikjapersónur eru einhverskonar glæpamenn sem fremja glæpi og stinga undan, sbr. söguhetjur Grand Theft Auto og Mafia. Í leiknum verður spilarinn að passa sig á því að slasa ekki almenna borgara með því að skjóta eða keyra á þá. Það er líka skemmtileg tilbreyting að sjá söguhetjuna segja bílstjórum að vinsamlegast fara úr bílnum þar sem lögreglan þurfi nauðsynlega á honum að halda, í stað þess að rífa viðkomandi úr bílnum og spóla svo yfir hann. Þar sem þú ert í lögreglunni ertu ekki tekinn fyrir hraðakstur eða fyrir að klessa á aðra bíla. Þessir þættir gera leikinn mun skemmtilegri þar sem spilarar þurfa gjarnan að eyða miklum tíma í sambærilegum leikjum í að flýja laganna verði eða fylgja lögum út í eitt.

Kjarni leiksins er söguþráður leiksins sem samanstendur af 21 verkefnum. Hvert verkefni samanstendur af máli sem spilarinn þarf að leysa og hefst með stuttu myndskeiði og kynningu á því sem gerst hefur. Þar á eftir þarf Cole að koma sér á rannsóknarstaðinn (oftast akandi) og talar þar við aðra lögreglumenn, sérfræðinga, vitni og safnar vísbendingum og sönnunargögnum til að rekja málið áfram. Spjallið við aðra lögreglumenn og sérfræðinga er í flestum tilfellum mjög stutt og gefur spilaranum grunn upplýsingar um stöðu mála. Þegar spilarinn gengur um í leit að vísbendingum og sönnunargögnum titrar fjarstýringin og ákveðið hljóð heyrist sem gefur spilaranum vísbendingu að nú sé hann staðsettur við hlut sem hægt er að skoða betur. Þegar hluturinn er skoðaður betur tekur Cole Phelps hann upp og spilarinn þarf að skoða hlutinn í bak og fyrir til að vera viss um að hann sé (ó)gagnlegur í málinu. Til dæmis ef morðvopnið er byssa er hægt að skoða byssuna frá ýmsum hliðum og leita eftir áletrun. Af og til þarf spilarinn einnig að leysa litlar þrautir, sem sjaldnast eru erfiðar, eins og að raða hlutum rétt saman. Helstu upplýsingunum safnar Cole svo saman í minnisbók sína sem spilarinn hefur alltaf aðgang að.

Hasarhluti leiksins samanstendur af byssubardögum, slagsmálum og eltingarleikjum. Þar er fátt nýtt á ferðinni en spilun og stjórnun er ákaflega vel útfærð líkt og aðrir þættir í leiknum.

 

YFIRHEYRSLUR

Yfirheyrsla á vitnum og grunuðum glæpamönnum er stór þáttur í leiknum. Yfirheyrslunar hefjast þannig að spilarinn fær lista yfir spurningar sem hægt er að spyrja viðkomandi að. Sjónarhornið snýr ávallt beint að andlitið viðkomandi. Eftir að spurningin er lögð fram af Cole svarar viðkomandi og þarf spilarinn að lesa í svipbrigði, hegðun og tón raddar og jafnvel rýna í aðrar vísbendingar til að vega og meta hvort viðkomandi sé að segja sannleikann, er að leyna upplýsingum, eða sé að ljúga. Ef spilarinn velur réttan valkost gefur vitnið eða sá grunaði fleiri og betri upplýsingar en ef rangur valkostur er valinn. Ef spilarinn telur að viðkomandi sé að ljúga þarf Cole ávallt að sann mál sitt með sönnunargagni. Í lang flestum tilfellum fær spilarinn aðeins einn möguleika á að spyrja viðkomandi spurninga á spurningalistanum, sem gerir hlutina mun meira spennandi en ef það væri hægt að spyrja sömu spurninguna aftur og aftur þar til spilarinn velur réttan valkost.

 

ENDING

Auk söguþráðar leiksins getur spilarinn tekið að sér ýmis útköll þegar hann er að keyra um götur Los Angeles, allt frá skotbardögum og gíslatöku yfir í að elta uppi afbrotamenn. Einnig er hægt að safna bílum sem eru á víð og dreif um borgina í bílasafnið sitt, skoða merka staði og safna safnhlutum. Það tók mig um 25 til 30 klukkustundir að klára leikinn, en ég kláraði söguþráðinn og tók um helminginn af útköllunum sem hægt er að taka. Það má bæta slatta af klukkutímum við spilunina ef spilarinn hefur í huga að klára leikinn 100%.

 

TÓNLIST OG HLJÓÐ

Tónlist, talsetning og önnur hljóð í leiknum er framúrskarandi. Tónlistin, bæði sú sem var sérstaklega samin fyrir leikinn og sú sem var valinn í leikinn, nær tíðarandanum gífurlega vel og svipar leikjatónlistin mjög til kvikmyndatónlistar 5. áratugarins. Djassið er tónlistarþema L.A. Noire og lög frá tónlistarfólki á borð við Billie Holiday, Dizzy Gillespie, Ella Fitzgerald, Louis Armstrong, Thelonious Monk og fleiri.

Talsetningin er mjög vel heppnuð og ótrúlegt hversu vel leikurinn nær svipbrigðum og munnhreyfingum þess sem talar. Við gerð leiksins var notuð tækni sem kallast MotionScan, þar sem 32 tökuvélum er beint að leikurum og safna gögnum um hreyfingar og svipbrigði þeirra. Þannig eru persónur leiksins ekki aðeins með rödd leikaranna, heldur líta auk þess svipað út. Þessi tækni skilar sér einstaklega vel í leiknum og gerir hann enn raunverulegri. Reyndir leikarar túlka margar af persónum leiksins og fer Aaron Staton (Ken Cosgrove í Mad Man) með hlutverk söguhetjunnar Cole Phelps. Auk þess fara Michael McGrady, Keith Szarabajka, John Noble, Randy Oglesby, Andrew Connolly, Greg Grunberg, Vincent Kartheiser, Ned Vaughn, Rich Sommer og fleiri með hlutverk í leiknum.

 

NIÐURSTAÐA

Ég hafði miklar væntingar í garð L.A. Noire og það er ekki annað hægt að segja en að leikurinn hafi staðið undir þeim. Samblanda af vel skrifuðum söguþræði, flottri grafík, djassaðri tónlist og fjölbreyttri spilun þar sem spilarinn þarf að leysa mál af ýmsum stærðargráðum gerir leikinn að hreinum demanti. Leikurinn ætti að falla sérstaklega vel í kramið hjá eldri spilurum sem vilja eitthvað meira en bara byssubardaga í anda Matrix eða söguhetjur sem eru með slappari persónuleika en ósóðin kartafla. Söguþráðurinn er það öflugur að það er jafnvel auðvelt fyrir áhorfendur að detta inn í leikinn líkt og um kvikmynd væri um að ræða. Þetta er leikur sem enginn sannur spilari ætti að láta fram hjá sér fara.

Grafík 9,5
Hljóð 10
Saga 10
Spilun 10
Ending: 9,0

Samtals 9,7

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑