Leikjarýni

Birt þann 15. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Brink

eftir Daníel Pál Jóhannsson

Í byrjun 21. aldarinnar var verkefnið að smíða Örkina sett í gang. Það var talið framsýnt ogvistvænt þar sem markmið verkefnisins var að búa til fljótandi borg sem væri sjálfbær. Hún er staðsett á fjarlægum stað í Kyrrahafinu, þar sem frumkvöðlar að byggingu hennar töldu að hún yrði fyrir sem minnstum truflunum og áreiti á þeim stað.

Spólum til ársins 2045. Yfirborð sjávar hefur hækkað og heilu löndin horfið. Þeir sem staðsettir voru á Örkinni voru öruggir með vatn og helstu lífsnauðsynjar. Þeir sem lifðu af hamfarirnar og tókst að sigla til Arkarinnar voru teknir inn en settir á sér svæði. Eftir að tíminn leið og fleiri flóttamenn komu til Arkarinnar var byrjað að úthluta þröngum plássum fyrir nýju gestina á flóttamannasvæði sem var í raun ekkert meira en samansafn af því sem gat flotið og var fest við hina fljótandi borg. Eftir því sem mannfjöldinn jókst þá var augljóst að ekki væri hægt að framleiða lífsnauðsynlegar vistir fyrir alla og því tekið á það ráð að gefa flóttamönnum litla skammta á meðan að upprunalegu gestirnir nutu margfalt betri réttinda.

Saga Brink byggir á því að það eru tvær fylkingar í Örkinni. Öryggissveitir þeirra háttsettu og þeirra ætlunarverk er að halda Örkinni eins öruggri og hægt er fyrir ytri öflum. Síðan eru það Uppreisnarmenn sem samanstendur af flóttamönnum og berjast þeir fyrir jafnrétti meðal þeirra sem búa í Örkinni. Þessar fylkingar berjast sín á milli og eru með mismunandi markmið og skipanir frá sínum yfirmönnum til að framfylgja.

 

Umfjöllun

Brink er fyrstu persónu skotleikur en Splash Damage, framleiðendurnir, ákváðu að leggja mismunandi áherslur á leikinn þannig að hann yrði ekki enn einn dropi í hafið af þessari tegund leikja. Þeir lögðu mjög mikla áherslu á hreyfingar hjá leikmönnum og hvernig þeir spila saman. Í byrjun leiksins velur spilarinn sína persónu og velur hvaða málstað hann vilji berjast fyrir, Uppreisnarmaður eða Öryggissveit.

Þegar verið er að setja upp persónuna sem spilari mun spila í gegnum leikinn fær hann að velja mismunandi andlitsföll sem persónan hans mun hafa ásamt litarhafti. Þegar það hefur verið valið þá er ekki hægt að breyta vali sínu þannig að spilari þarf að passa sig á því að velja það útlit sem honum lýst best á. Spilarinn hefur fjöldann allan af möguleikum til að gera persónu sína einstaka í leiknum, hvort sem það er með höfuðfati, jakka, buxum, skyrtu, grímu og þaðan af en hægt er að breyta því útliti óendanlega oft. Það er líka hægt að velja hvort að persóna spilarans sé með einhver ör og/eða húðflúr en hafa verður í huga að þau eru líka til framtíðar eins og í raunveruleikanum. Spilarinn getur haft allt að tíu persónur en reynslustigin færast ekki á milli, nánar um það síðar í greininni.

Í leiknum hefur leikmaður aðgang að fjórum stöðugildum til að spila. Þessi stöðugildi hafa sína kosti og galla og eru eftirfarandi; Hermaður, sá hefur möguleika á að gefa sjálfum sér og meðspilurum viðbótar skotfæri og sprengja upp brýr og veggi sem verða á vegi hans í ákveðnum borðum. Læknir, sem hefur möguleikann á að gefa sjálfum sér og öðrum meira líf svo að hægt sé að verða fyrir meiri skothríð áður en aðilinn fellur niður ásamt því að lífga við fallna meðspilara. Verkfræðingur, sem getur gert byssur hjá sjálfum sér og meðspilurum öflugri, ásamt því að geta sett niður byssuturna og jarðsprengjur, hann sér líka oft um að gera við nauðsynlega hluti í hverju borði fyrir sig til að geta haldið áfram. Útsendari, meistari dulargervis, sér um að brjótast inn í tölvukerfi og getur tekið á sig útlit óvinarins með því að nota lófatölvu sína á fallna óvini.

Í Brink er fjöldinn allur af eiginleikum sem bæði eru sameiginlegir með öllum stöðugildum eða einstakir fyrir hvert og eitt. En eiginleikarnir gefa spilaranum kost á að sérhæfa þá persónu sem hann spilar með því að bæta við hvað persónan getur framkvæmt í leiknum. Svo sem að setja niður öflugri byssuturna eða gefa meðspilurum betri brynjur og þaðan af. Aðgangur spilarans að eiginleikum er takmarkaður til að byrja með en eftir að búið er að spila nokkra leiki opnast aðgangur að fleiri og öflugri eiginleikum. Fyrir hvert af tuttugu þrepunum sem spilarinn kemst í fær hann að velja einn nýjan eiginleika og mælt er með því að velja eiginleika hjá því stöðugildi sem spilaranum finnst skemmtilegast að spila.

Í hverjum leik fær spilarinn reynslustig sem safnast saman og þegar nóg er komið í pottinn hækkar spilarinn í þrepi. Fjöldi reynslustiga sem spilari vinnur sér inn fer eftir hversu vel hann stóð sig í hverjum leik fyrir sig og skiptir því miklu máli að standa sig sem best og spila með liðinu. Þar sem Brink einbeitir sér mikið að liðaspilun verðlaunar leikurinn mikið fyrir það að hjálpa meðspilurum.

Eins og fyrr var nefnt skiptir hreyfing miklu máli í Brink. Splash Damage bjuggu til kerfi sem þeir nefndu S.M.A.R.T. sem er skammstöfun á ensku og stendur fyrir Smooth Movement Across Random Terrain. Þetta kerfi gerir spilaranum kleift að renna sér undir, hoppa og klifra yfir hindranir sem hefur verið nánast óþekkt í fyrstu persónu skotleikjum.
Hérna bætist inn nýtt atriði sem spilarinn þarf að hugsa um þegar hann býr til persónuna sína en hægt er að velja úr þremur líkamsstærðum. Stór, miðlungs og lítil. Þessu vali er hægt að breyta á milli leikja en ekki á meðan leikur er í gangi. Valið hefur líka áhrif á hreyfigetu og hversu mikið af skotum spilarinn getur tekið á sig. Stór líkamsstærð er hægust og getur tekið mikla refsingu áður en spilarinn dettur niður. Miðlungs kemst á flesta staði með því að klifra en er frekar fljótur að falla á meðan litla líkamsstærðin er hröðust en er einstaklega aumur varðandi að verða fyrir skothríð. Minnast verður á að þó hann sé fljótur að fara niður þá kemst spilarinn með litla líkamsstærð á svæði í borðum sem aðrir komast ekki, sem gefur þeim oft færi á að komast aftan að óvininum og valda tilheyrandi usla.

Í leiknum eru 24 vopn og þeim er skipt niður í fjóra flokka. Hver persóna getur haft tvö vopn á sér á hverjum tíma og fer eftir líkamsstærð persónu hvaða flokkum spilarinn hefur aðgang að. Vopnin eru t.d. sprengjuvörpur, hríðskotabyssur, árásarriflar, vélbyssur og skammbyssur. Hverju vopni er síðan hægt að breyta að þörfum hvers og eins því hægt er að setja aukahluti á flest vopnin. Hvort sem það eru hljóðdeyfar, ný sigti og stærri skotgeymar. Hver breyting hefur í för með sér að eiginleikar vopnsins breytast. Ef settur er hljóðdeyfir á byssuna minnkar færið sem vopnið drífur en á móti kemur að óvinir sjá spilarann ekki á kortinu þegar hann skýtur, ef settur er stærri skotgeymir er hægt að skjóta fleiri skotum áður en þarf að endurhlaða byssuna en sú aðgerð tekur lengri tíma. Það eru margir möguleikar til að breyta byssunni og hver spilari dettur niður á þá samsetningu sem honum finnst best.

Það er ekki auðvelt að fjalla um muninn á einspilun og fjölspilun í Brink, þar sem það er nánast sami pakkinn. Það sem gerir línuna á milli svona þokukennda er það að þó þú sért að spila söguna í leiknum, þá hefurðu valmöguleika á að spila einn með tölvustýrðum andstæðingum, spila á móti tölvustýrðum andstæðingum meðan aðrir geta hoppað inn í leikinn hjá þér og spilað með þér og jafnvel spilað á móti þér. Því er hægt að spila í gegnum alla söguna í leiknum í fjölspilun og hafa gaman að. Síðan er alltaf hægt að velja það að detta í leik hjá öðrum sem eru að spila eða detta inn á leik sem er í gangi þar sem mennskir spilarar eru í báðum liðum að berjast um framtíð Arkarinnar. En hafa ber í huga að ef einhver dettur út þá kemur alltaf tölvustýrð persóna í staðinn til að taka lausa plássið þangað til að mennskur spilari kemur inn í leikinn.

Spilarinn fer í gegnum söguna um Örkina frá báðum sjónarhornum, semsagt spilar bæði fyrir Öryggissveitina og Uppreisnarmennina og fær því að sjá báðar hliðar að öllum málum. Það er mjög áhugaverð nálgun sem gerir leikinn sérstakan fyrir vikið. Fyrir hvern leik er stutt atriði  spilað þar sem sagan er sögð í bútum og mörg nöfn nefnd sem hafa ekkert gildi fyrr en seint í leiknum. Það eru átta borð í sögunni ásamt tveimur borðum sem kallast „Hvað ef“ sem sýnir enn aðra sjón að markmiðum þessara tveggja fylkinga. En þar sem spilarinn fer í gegnum leikinn sem báðar fylkingar eru þetta í heild tuttugu borð.

 

Gagnrýni

Brink er ágætis afþreying og jafnvel meira en það ef spilað er með skemmtilegum spilurum. Það þarf ekki eingöngu að hugsa um það að hlaupa áfram og skjóta á allt sem hreyfist heldur skiptir miklu máli að vinna sem lið og sést greinilega að það er samvinna leikmanna sem vinnur leikina. Þótt að sagan bakvið Örkina sé götótt en heillandi þá tekst þeim að gera söguna í leiknum einstaka en ekki á góðan hátt. Oftast eru stuttu atriðin sem eiga að veita okkur innsýn í söguna að sýna okkur nokkra liðsmenn að rífast um mismunandi skoðanir á hlutum sem þeir eiga að framkvæma í hverju borði fyrir sig.

Að spila leikinn með tölvustýrðum andstæðingum, hvort sem þeir eru á móti eða með spilara í leik, eru þeir aðeins gagnlegri heldur en ef að þú myndir láta önd fá stýripinna til að spila leikinn. Þarna sést að Splash Damage voru ekki að vanda verk sín í gerð gervigreindar leiksins og þar sem það eru meira og minna alltaf tölvustýrðir spilarar í leik er það varla fyrirgefanlegt. Þessir spilarar hlaupa á veggi og stoppa, hoppa í hringi, sjá andstæðing og ákveða að hlaupa upp að honum og snúa síðan baki í hann og framkvæma flesta hluti sem mennskur spilari myndi telja mjög heimskulegt í skotleik.

Í fjölspilun lendir maður oftar en ekki í svakalegri nettöf (e. Lag) sem gerir leikinn oftóspilandi, þar sem spilarinn getur annaðhvort ekki hreyft sig eða birtist hér og þar í borðinu.Þegar þessi grein var skrifuð hafa komið út tveir plástrar til að reyna að laga þessi vandamál og hafa þeir komið að einhverju gagni en ekki leyst spilarann undan álögum heimskrar gervigreindar eða leiðinda nettöf. Splash Damage hafa hinsvegar, sem sárabætur, sagt að fyrsti niðurhalspakkinn þeirra með aukaefni verði frír til að friða spilarana og verð ég að játa að það er ágætis bót.

Samt verð ég að viðurkenna, að eftir að hafa farið í gegnum söguna og tekið nokkra leiki á netinu þar sem engin vandamál tengd leiknum komu upp, þá var þetta stórskemmtilegur leikur. Það að hafa S.M.A.R.T. kerfið og hvernig borðin eru uppbyggð er hálfgerlega búið að eyðileggja fyrir mér flesta fyrstu persónu skotleiki. Þar sem núna er ég orðinn vanur því að geta séð grindverk sem er aðeins hærra en ég og samt hoppað yfir það, séð nokkra kassa staflaða saman hjá svölum, klifrað upp kassana upp á svalirnar og koma óvininum að óvörum, hjálpað meðspilurum með því að gera vopnin þeirra betri, ekkert nema góð tilfinning.

Grafíkin í leiknum er ágæt en það er of mikið um að maður sjái módel „poppa“ út og flöktandi áferðir á hlutum. Hönnunin á persónunum er allt annað mál. Þar finnst mér leikurinn standa sér á báti og í staðinn fyrir að fara raunverulegu leiðina sem margir leikir hafa tekið upp á þá fer Brink aðra leið og ýkir öll andlitsföll og það kemur smá teiknimyndatilfinning í leikinn en samt á alvarlegan hátt.

Hljóðið kemst vel til skila og hljóma bæði byssur og sprengjur vel. Tónlistin er fín sem bakgrunnstónlist í leiknum en ég verð að mæla á móti því magni af upplýsingum sem liðsmennirnir senda á mann. Maður getur verið að fá upplýsingar um að þessi sá óvin, þessi var að aftengja sprengju, þessi steig á jarðsprengju og að tveir óvinir hafi verið felldir og það á nokkrum sekúndum. Jú, skal viðurkenna það að þetta eru flest allt upplýsingar sem gott er að vita, en magnið af þeim og hversu ört þær heyrast getur verið vel pirrandi.

Grafík 7.0
Hljóð 7.0
Saga 5.0
Spilun 8.0
Endurspilun 8.0

Samtals 7.0

 

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑