Birt þann 28. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: Harry Potter and the Deathly Hallows – Part 2
Árið 2001 kom fyrsta kvikmyndin um Harry Potter og ævintýri hans út, með þeim Hermione Granger og Ron Weasly. Núna tíu árum seinna er loka kaflinn kominn í kvikmyndahús, átta kvikmyndir í heild (seinasta myndin er í tveimur pörtum).
Sem mikill Harry Potter aðdáandi (oft verið kallaður Harry Potter og stundum ennþá af sumum) þá hef ég alltaf haft miklar væntingar til allra kvikmyndanna, og flestar stóðust þær. Að sjálfsögðu er ekki hægt að fara alveg eftir bókinni en sem betur fer ákvað leikstjórinn, David Yates, að skipta seinustu bókinni upp í tvo parta, ég sé ekki eftir því að þurfa bíða eftir seinni partinum. En af sjálfsögðu ná kvikmyndirnar aldrei með tærnar þar sem bækurnar eru með hælana!
Harry Potter and the Deathly Hallows – Part 2 er góð kvikmynd til þess að enda þessa stórfenglegu sögu sem J.K. Rowling hefur samið. Leikararnir, sem eru að sjálfsögðu þeir sömu og í hinum kvikmyndunum, stóðu sig allir með prýði, þó að ég hafi nú viljað sjá meira af honum Hagrid í myndinni. Tæknibrellurnar voru mjög góðar og er ég frekar ánægður með þær, þar sem lélegar tæknibrellur geta oft eyðilagt góða kvikmynd. Tónlistin var einnig góð, ég tók allavega ekki eftir því að tónlistin hafi passað illa við einhverja ákveðna senu í kvikmyndinni.
Í heildina litið þá geta Harry Potter aðdáendur skemmt sér vel yfir þessari mynd og spjallað um hana í einhvern tíma. Sem mikill Harry Potter aðdáandi þá labbaði ég sáttur (jafnvel hálf svekktur yfir því að þetta sé búið) út úr kvikmyndahúsinu. Ég gef Harry Potter and the Deathly Hallows – Part 2 fjórar stjórnur af fimm, hún fær ekki alveg fullt hús þar sem ég hefði viljað sjá aðeins fleiri atriði úr bókinni.
Núna fer ég að lesa alla seríuna upp á nýtt…
– Ívar Örn Jörundsson