Birt þann 17. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins
0E3 2011: Microsoft
Hin árlega tölvuleikja- og leikjatölvusýning E3 (Electronic Entertainment Expo) var 7. – 9. júní síðastliðinn. Sýningin er ein sú stærsta sinnar tegundar og úr mörgu að velja. Hér höfum við tekið saman það helsta sem kom úr kynningunum frá leikjatölvu- og tölvuleikjarisunum þrem; Microsoft, Nintendo og Sony.
MICROSOFT
Megin áherslan á kynningu Microsoft var framtíð Kinect í Xbox 360, en Kinect er aukabúnaður fyrir Xbox 360 sem gerir spilurum kleift að stjórna leikjum og einföldum aðgerðum með hreyfingum í stað fjarstýringar. Möguleikar Kinect eiga eftir að skila sér í gegnum leiki og almennri stjórnun á Xbox 360 leikjatölvunni.
KINECT
Það má skipta leikjunum sem styðja Kinect í tvo flokka; annars vegar leiki sem allir geta spilað (sama hvort Kinect sé til staðar eða ekki) og svo leiki sem eru sérstaklega gerðir fyrir Kinect, en til að spila þá er nauðsynlegt að Kinect sé tengt í leikjatölvuna. Á kynningunni var fjöldi Kinect leikja kynntir til sögunnar og ber þar helst að nefna Kinect Star Wars, Fable, The Journey og Ryse. Leikirnir þrír spilast á mjög svipað hátt þar sem spilarinn notar líkamshreyfingar til að stjórna leiknum, til dæmis er barist með geislasverðum í Star Wars leiknum, galdrar notaðir með því að sveifla höndunum til og frá í Fable og skyldi og sverði rómverska bardagamannsins í Ryse stjórnað. Líkamshreyfingarnar eru í flestum tilfellum augljósar, það er að segja, til þess að hoppa í leiknum, hoppar spilarinn, til þess að sparka þá sparkar spilarinn og svo framvegis. Í sýnishornunum úr leikjunum á E3 kynningunni virðast þeir allir vera svokallaðir leikir „á teinum“ (e. „on-rails“) þar sem persóna leiksins gengur fyrifram ákveðnar leiðir, líkt og lest sem fylgir lestarteinum. Spilarinn fær þar af leiðandi ekki að stjórna því hvaða leiðir persónan velur. Sumum þykir þetta vera stór galli og þrep aftur í timann á meðan öðrum þykir þetta sjálfsögð leið til að útfæra Kinect leiki svo að spilarinn þurfi til dæmis ekki að hlaupa allan tíman eða spá í hvaða átt hann á að fara.
Aðrir Kinect leikir sem voru nefndir til sögunnar voru; Kinect Disneyland Adventures, Kinect Sports Season 2, Dance Central 2 og Sesame Street: Once Upon a Monster.
RADDSTÝRING
Það er ekki aðeins hægt að stjórna tölvuleikjunum með Kinect, heldur öllum helstu valmöguleikum sem Xbox 360 hefur upp á að bjóða með raddstýringu. Með þessum hætti er hægt að stjórna ýmsum aðgerðum án þess að nota fjarstýringu. Til dæmis til að fara í tónlistarmöppuna segir spilarinn einfaldlega „Xbox, Music“, til að fara í tölvuleikjamöppuna segir spilarinn „Xbox, Games“ og til að skoða kvikmyndir segir spilarinn „Xbox, Movies“.
Einnig var kynnt að innan skamms verður hægt að horfa á sjónvarpið í gegnum Xbox 360 LiveTV. Þessi möguleiki mun meðal annars virka í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar, en við hjá Nörd Norðursins gerum þó ráð fyrir því að þessi möguleiki verði ekki til staðar fyrir spilara á Íslandi. YouTube er einnig væntanlegt í Xbox 360.
BING
Leitarvél Microsoft, Bing, mun aðstoða notendur leikjatölvunnar við að finna hluti. Notendur Xbox 360 munu ekki fá sömu niðurstöður úr Bing í leikjatölvunni og í borðtölvunni þar sem Bing í Xbox 360 mun aðeins birta efni sem er sérstaklega hannað fyrir Xbox 360. Til dæmis getur spilarinn sagt „Xbox, Bing, Lego“ til að fá lista yfir alla Lego leikina, eða „Xbox, Bing, X-Men“ til að sjá alla leiki, kvikmyndir og annað efni sem tengist X-Men í Xbox 360.
FUN LABS
Kinect Fun Labs var kynnt til sögunnar, en sú uppfærsla er nú þegar aðgengileg fyrir Kinect notendur. Í Kinect Fun Labs getur notandinn meðal annars skannað sig inn og fengið leikjatölvuna til að hanna Xbox útgáfu (e. Avatar) af sjálfum sér, teiknað í þrívídd með fingrunum og skannað allskonar hluti inn í tölvuna, til dæmis hjólabretti eða uppáhalds bangsann sinn.
NÝIR LEIKIR
Í upphafi Microsoft kynningarinnar voru sýnd brot úr Call of Duty: Modern Warfare 3 og væntanlegum Tomb Raider leik. Báðir leikirnir litu gífurlega vel út þar sem boðið var upp á mikinn hasar og grafík sem fékk kjálkann til að falla. Call of Duty er væntanlegur 8. nóvember 2011 í PC, PlayStation 3 og Xbox 360 og Tomb Raider er væntanlegur seinni hluta ársins 2012.
Rapparinn Ice T var fenginn, ásamt öðrum spilara, til að spila hluta úr söguþræði Gears of War 3 á kynningunni, en leikurinn er væntanlegur 20. september 2011. Spilun leiksins var nokkuð hefðbundin og fátt nýtt á ferðinni. Helsta nýjungin var að persónur leiksins gátu klifið í vélmennabúningi og stjórnað vélmenninu á svipaðan hátt og í leiknum Lost Planet. Þó að spilunin virtist ekki bjóða upp á margar nýjungar þá njóta Gears of War leikirnir gífurlegra vinsælda meðal Xbox 360 spilara og má þar af leiðandi búast við frábærum leik.
EA Sports tilkynnti að fjórir leikir frá þeim myndu bjóða upp á Kinect möguleikann árið 2012, leikirnir eru; Fifa, NFL Madden, Tiger Woods PGA Tour og að lokum titill sem þeir kjósa að halda leyndum enn sem komið er. Risavaxni smáleikurinn Minecraft er einnig væntanlegur í Xbox 360 og mun leikurinn styðjast við Kinect.
Stórleikirnir Mass Effect 3 og Tom Clansy’s Ghost Recon: Future Soldier munu báðir bjóða upp á nokkrar Kinect stýringar. Í Mass Effect 3 verður fyrst og fremst hægt að notast við raddskipanir en í Tom Clansy leiknum verður auk þess hægt að nota Kinect til að skjóta úr byssum. Allir Tom Clansy leikir í framtíðinni munu styðja Kinect.
Í lokin tilkynnti Microsoft að nýr þríleikur í Halo seríunni væri væntanlegur og sá fyrsti, Halo 4, kæmi út jólin 2012. Stutt kitla úr leiknum var sýnd samhliða tilkynningunni og verður spennandi að fylgjast með gerð leiksins. Til gamans má geta að Halo Aniversary útgáfa er væntanleg, en þar sem gamli góði Halo leikurinn er endurbættur.
Á heildina litið var kynning Microsoft nokkuð lífleg, en að mati margra var of mikil áhersla lögð á Kinect. Flestir leikir sem styðjast við Kinect eru barna- og fjölskylduleikir og falla misvel í kramið hjá hefðbundnum Xbox 360 spilurum.
– Bjarki Þór Jónsson