Greinar

Birt þann 11. september, 2012 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

0

Þættir um retroleiki sem er vert að horfa á

LNBanner

Jæja, nú er komið nokkuð langt síðan seinasta Leikjanördablogg leit dagsins ljós. Það er augljóst að mín upphaflega áætlun um eina færslu á viku er löngu þotin út um gluggan, og ég hef í raun enga góða né gilda afsökun fyrir því aðra en að ég hef voðalega lítið verið að leika mér með gömlu leikjatölvurnar mínar upp á síðkastið. Það þýðir ekki að ég sé búinn að missa áhugann fyrir gömlum leikjum, heldur aðeins það að margt annað (vinna, góðviðrisdagar, önnur skrif fyrir Nörd Norðursins, almenn leti o.s.frv) hefur verið að taka upp minn dýrmæta tíma sem ég hefði getað eytt í tölvuspil.

Þegar maður hefur hvorki tíma né nenning til að tengja gamla leikjatölvu, þá getur verið gaman að fylgjast með öðru fólki spila og spjalla um gamla tölvuleiki, en ég er mjög duglegur að fylgjast með þáttum á netinu sem snúast um gamla leiki. Það má segja að fyrir tveim til þrem árum síðan hafi orðið sprenging í fjölda fólks á Youtube sem tekur fyrir tölvuleiki og gagnrýnir þá, en þó er ekki nema brot af því fólki sem nær einhverju áhorfi af viti. Þar er margt sem spilar inn í. Til að svona þáttur nái vinsældum þá verður hann að hafa það sem ég kýs að kalla hin þrjú F, en þau eru: Fyndni, Fróðleikur og Framsetning. Fyndnin er fyrir þá sem vilja sjá almenna skemmtun í bland við tölvuleikjarýnina sína. Fróðleikurinn er til þess að fólki finnist það hafa lært eitthvað af áhorfinu, og framsetningin er mikilvæg að því leyti til að engin nennir að horfa á óæft, óklippt, titrandi myndband af einhverjum náunga að tala um tölvuleiki.

Í þessari færslu ætla ég að fjalla stuttlega um sex netþætti þar sem retroleikir eru teknir fyrir með umfjöllun og gagnrýni. Ég mun gefa stig fyrir hin þrjú F sem ég nefndi áðan, en þó þættirnir séu allir góðir nálgast þeir hin þrjú F á misgóðan máta. Þessir sex þættir eru þeir sem ég horfi nánast alltaf á þegar kemur eitthvað nýtt frá þeim, því það er jafnan hægt að ganga að því að þeir séu skemmtilegir, ólíkt svo mörgum öðrum þáttum sem hægt er að finna í víðáttum veraldarvefsins.

.

Pat the NES Punk

Pat Contri hefur í nokkur ár verið með þátt sem heitir Pat the NES Punk, þar sem hann fjallar um leiki fyrir gamlar leikjatölvur. Pat sjálfur er mikill retroleikjasafnari og á yfir 800 leiki fyrir gömlu Nintendo NES tölvuna, en á meðal þeirra leikja er einn sjaldgæfasti NES leikur allra tíma sem er Nintendo World Championship 1990. Pat fjallar oftast um gamla 8-Bit NES leiki en tekur stundum fyrir leiki úr öðrum leikjatölvum eins t.d. Sega Mega Drive. Fyrir utan umfjöllun á leikjum bregður Pat sér stundum á flóamarkaði með myndavél meðferðis og sýnir hvernig best er að gera góð kaup á gömlu leikjatölvudóti, sem getur verið gaman að fylgjast með fyrir þá sem fara reglulega á nytjamarkaði hérna heima í leit að retrofjársjóði.

Þrátt fyrir að einstaka þættir séu frekar fyndnir, þá getur húmorinn hans Pats verið frekar tilgerðalegur og þurr, sem veldur því stundum að maður fær kjánahroll yfir því hve ófyndnir brandararnir hans geta verið. Pat veit samt slatta um gamla leiki og er duglegur að lauma fróðleiksmolum að í þáttunum sínum. Framsetning þáttanna er mjög misjöfn en að öllu jöfnu þokkalega góð. Pat the NES Punk er ekki fyrir alla, en þeir sem hafa sérstakan áhuga á gömlu NES tölvunni ættu að hafa gaman af að horfa á hann.

> Valinn þáttur

 

.

Famicom Dojo

Í Famicom Dojo leggja þáttastjórnendurnir Sean og Vinnk, áhersluna á japanskar leikjatölvur. Famicom tölvan og leikirnir fyrir hana fá mestu athyglina en stundum fjalla þeir um aðrar japanskar tölvur eins og PC Engine og Neo Geo. Þættirnir eru gerðir á dálítið sérstakan hátt, þar sem Sean er búsettur í Bandaríkjunum en Vinnk býr í Japan. Þrátt fyrir örðugleikana sem fylgja því að vera aðskildir af Kyrrahafinu, tekst strákunum nokkuð vel upp með að gera skemmtilega þætti með áhugaverðari umfjöllun um leikjatölvur.

Góður og vel útsettur fróðleikur er í forgrunni Famicom Dojo þáttanna, en þegar Sean og Vinnk taka fyrir eitthvað visst, þá fara þeir vel ofan í sögu hlutarins með fróðlegri og skemmtilegri umfjöllun. Framsetning þáttanna er þokkaleg, en líður svolítið fyrir að strákarnir búa á sitthvorum helmingi jarðarinnar. Öll samtöl þeirra á milli eru greinilega eftir handriti og síðan klippt saman, sem gerir samskiptin þeirra á milli frekar stirð. Fyndni þáttanna er ekki upp á marga fiska, og samanstendur í raun að mestu leyti af samtölum á milli gamallar Famicom tölvu og NES tölvu sem eru látnar tala sín á milli um breytingar sem voru gerðar á leikjum og öðrum Nintendo búnaði eftir að hann var gefinn út í Bandaríkjunum. Famicom Dojo eru engu að síður mjög fróðlegir og skemmtilegir þættir sem eiga sérstaklega upp á pallborð hjá þeim tölvuleikjaunnendum sem láta japanska tölvuleikjamenningu sig varða.

> Valinn þáttur

.

.

JonTron

JonTron hefur ekki verið tölvuleikjagagnrýnandi lengi, en hefur á rúmu ári dregið að sér fjöldan allan af aðdáendum og horft hefur verið á myndböndin hans nokkrum milljón sinnum á YouTube. JonTron tekur fyrir allskonar tölvuleiki í þáttunum sínum, bæði PC leiki og leikjatölvuleiki, en fer sjaldan lengra aftur í tímann en fjórða kynslóð leikjatölvna (Super Nintendo er hans uppáhalds leikjatölva).

JonTron á vinsældir sínar að þakka hve mikið skemmtanagildi þættirnir hans hafa, en hans fyrsta og fremsta verkefni er að láta áhorfendur sína hlæja. Til þess notar hann vel tímasetta brandara, tölvuteiknaða grafík, ýkta leikræna tilburði og samtöl við vélræna páfagaukinn sinn Jacques. Eins vel og þættirnir hans eru gerðir þá á leikjaumfjöllunin sjálf stundum til að gleymast í öllum hamaganginum. Oftar en ekki fær áhorfandinn aðeins að sjá brot úr þeim tölvuleikjum sem JonTron tekur fyrir, en á móti kemur að hver og einn þáttur er vel úthugsaður og bullandi fyndinn.

> Valinn þáttur

.

.

JewWario: You Can Play This

JewWario hefur um nokkurt skeið verið með þættina You Can Play This, þar sem hann tekur fyrir leiki sem eiga það allir sameiginlegt að hafa ekki verið gefnir út á vesturlöndum, og eru þar af leiðandi ekki á ensku. JewWario er snillingur í því að sýna fram á að margir þannig leikir eru langt því frá að vera óspilanlegir, en meiri hluti leikjanna sem hann tekur fyrir eru japanskir. JewWario heldur sig mest megnis í gömlu leikjunum, og hefur tekið fyrir leiki úr Famicom, Neo Geo, PC Engine, Dreamcast, Sega Mega Drive og mörgum öðrum leikjatölvum.

Framsetning og fróðleiksgildi You Can Play This þáttanna eru vel yfir meðallagi, enda er JewWario duglegur að fara yfir sögu vissra leikja og leikjatölvna, og klipping og handrit þáttanna er yfirleitt vel heppnað. You Can Play This eru samt mjög misjafnir þegar kemur að fyndni þáttanna. JewWario á það til að bregða sér í gervi annara persóna sem taka þátt í leikjagagnrýni hans. Stundum virkar það frekar fyndið, en oft er það alveg herfilega kjánalegt. Engu að síður reynir JewWario að hafa þættina sína létta, skemmtilega og fróðlega og tekst vel til. Fólk sem hefur áhuga á gömlum leikjum, og þá sérstaklega frá Japan ættu endilega að skoða nokkra þætti af You Can Play This.

> Valinn þáttur

.

.

EgoRaptor: Sequelitis

Arin Hanson, betur þekktur sem EgoRaptor, er margt til lista lagt. Fyrir utan það að hafa talað inn á fjölda teiknimynda og tölvuleikja, og hafa sjálfur gefið út og teiknað fjölmargar vinsælar teiknimyndir á Newgrounds og YouTube, hefur EgoRaptor gefið út nokkur myndbönd þar sem hann fjallar um gamla tölvuleiki. Þættirnir, sem ganga undir nafninu Sequelitis, eru reyndar aðeins þrír talsins, og ekkert hefur bæst í þá seríu í að verða ár. En hver og einn af þessum þáttum er svo virkilega vel gerður að ég get ekki annað en minnst á þá.

Egoraptor tekst mjög vel til með framsetningu þáttanna, sem eru blanda af honum (teiknuðum) að tala um tölvuleiki og skotum úr leikjunum sem hann er að tala um. Honum tekst líka það sem ekki margir aðrir ná að gera, en það er að fjalla um tölvuleikina og vera fyndinn á sama tíma, án þess þó að missa þráðinn og fara út í eitthvað rugl.

Þá er vert að minnast á það að nú nýlega fóru EgoRaptor og JonTron saman af stað með nýja tölvuleikjaseríu sem þeir kalla Game Grumps. Ég hef ekki fylgst mikið með henni, en þar eru þeir tveir aðallega að spila leiki sem þeir báðir elska og tala um heima og geima.

> Valinn þáttur

.

.

Angry Video Game Nerd

James Rolfe er snillingurinn á bak við Angry Video Game Nerd sem flestir nettengdir retroleikjaunnendur ættu að kannast við. Það má segja að James hafi verið fyrsti retroleikjagagnrýnandinn á YouTube sem meikaði það. Ekki nóg með það, þá skapaði hann umgjörðina sem flestir aðrir retroleikjagagnrýnendur fylgja eftir enn í dag. Því miður hefur lítið nýtt komið frá honum í þó nokkurn tíma, en það ku vera vegna þess að bíómynd í fullri lengd er nú í vinnslu um reiða tölvunördið.

Eins mikið og mig langaði til að vera hipster og gefa einhverjum öðrum hærri stig en Angry Video Game Nerd, þá bara gat ég það ekki. James hefur í gegnum árin náð að gera þættina sína betri og betri. Visst jafnvægi ríkir í AVGN þáttunum, þar sem reiða nördapersónan sem James leikur lætur bæði í ljós skemmtilegan fróðleik um leikina sem hann tekur fyrir og nær að gera grín af þeim á sama tíma. Framsetning þáttanna fær líka toppeinkunn, enda er James mikið kvikmyndaséní og veit sitthvað um klippingu, myndatöku og allt annað sem þarf að vita þegar kemur að framleiðslu góðs myndefnis. Það eina sem ég get sagt á móti AVGN er að reiða nördapersónan er orðin dáldið þreytt eftir öll þessi ár, og margir leikir sem hann hefur tekið fyrir og gjörsamlega drullað yfir (það er tilgangur þáttanna) eru alls ekki svo slæmir. Angry Video Game Nerd hefur samt einn hlut fram yfir alla aðra retroleikjagagnrýnendur á YouTube fyrr og síðar. Maður þarf ekki að vita neitt um tölvuleiki til að hafa gaman af þáttunum hans, og því ættu flestir sem hafa gaman af aulalegum nördahúmor að hafa gaman af því að fylgjast með Angry Video Game Nerd.

> Valinn þáttur

.

.

Ef þið hafið gaman af að horfa á umfjöllun um gamla tölvuleiki þá mæli ég með því að þið gefið þessum sex þáttum séns. Svona í lokin vil ég taka það fram að ég ætla að reyna að vera duglegari að skrifa Leikjanördabloggin, en nýja takmarkið mitt er að skrifa alla vegana eitt blogg á mánuði. Fyrir næsta blogg mun ég koma til með að grafa fram eitthvað af mínu eigin leikjadrasli og sjá til hvort ég geti ekki skrifað eitthvað skemmtilegt um það.

Takk fyrir lesturinn!

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Comments are closed.

Efst upp ↑