Loka valmynd
    Facebook Instagram YouTube Spotify TikTok Twitch
    Nörd Norðursins
    Facebook Instagram YouTube Spotify Bluesky TikTok Twitch
    • Fréttir
    • Greinar
    • Leikjarýni
    • Íslenskt
    • Leikjavarpið
    • Viðburðir
    Nörd Norðursins
    Heim»Bíó og TV»Kvikmyndarýni: Reykjavík Whale Watching Massacre (2009)
    Bíó og TV

    Kvikmyndarýni: Reykjavík Whale Watching Massacre (2009)

    Höf. Nörd Norðursins9. júní 2012Uppfært:26. maí 2013Engar athugasemdir6 mín. lestur
    Facebook Twitter LinkedIn Reddit WhatsApp Tölvupóstur Bluesky Afrita hlekk
    Deila
    Facebook Tölvupóstur Afrita hlekk

    Saga íslenskrar kvikmyndagerðar er ekki beint full af sigrum og alþjóðlegri velgengni. Að undanskyldum handfylli kvikmynda eru þær íslensku yfirleitt of súrar fyrir eigin markhóp, sjálfan Íslendinginn. Þær geta verið langdregnar, með húmor sem aðeins nokkrir kunna að meta, sorglegar en samt innantómar og ótrúverðugar sökum formlegrar notkunar á tungumálinu. Margir gullmolar leynast hins vegar í íslenskri kvikmyndagerð og eru að mestu lausir við týpíska galla. Reykjavík Whale Watching Massacre í leikstjórn Júlíusar Kemp (Blossi, Veggfóður) er dæmi um mynd sem hefði átt að komast í þann hóp en tókst það á endanum ekki.

    Þó að íslenskar myndir eiga það til að vekja einhvers konar hroll (kjánahroll?) hjá áhorfandanum þá eru þær sjaldnast markaðsettar sem hrollvekjur eða spennutryllar, en RWWM er ein af örfáum slíkum myndum. Þó hún passi að mörgu leyti við slíka markaðsetningu virkar hún jafn vel sem svört kómedía (skreytt hryllingi, drama og smá spennu). Þetta atriði skilaði sér alls ekki til allra áhorfenda þegar myndin kom út í kvikmyndahúsum fyrir þremur árum. Ég, ásamt flestum, bjóst við fyrstu alvöru íslensku hryllingsmyndinni en vissi svo ekki alveg hvað ég hafði séð á hvíta tjaldinu. Vildi hún vera spennandi og hrollvekjandi, þung og listræn, en samt fyndin og kaldhæðin? Áður en ég fer meira út í það er betra að vita um hvað myndin fjallar.

    Hún fjallar um hóp ferðamanna á Íslandi sem koma víða að og hittast ásamt fáeinum Íslendingum í hvalaskoðunarferð á litlum báti. Fljótlega kemur í ljós að þetta er ekki vingjarnlegasti hópur sem sést hefur og því er áhorfanda fljótt gert grein fyrir því að heimurinn hljóti lítinn skaða af því að losna við nokkur þeirra. Týpur eins og eigingjarn Kani (Miranda Hennessy), hjálpsamur Kani (Terence Anderson), fullur Frakki (Aymen Hamdouchi), karlrembu Japani (Carlos Takeshi), klár Japani (Nae) og saklaus stelpa (Pihla Viitala) mynda heild sem svipar til þeirra hefðbundnu hópa í hrollvekjum sem þurfa að kljást við erfitt verkefni í skuggalegum aðstæðum. Eins og Íslendingar vita þjóða best þá kemur stundum babb í bátinn (ohohoho) og því neyðast þau til að kalla eftir hjálp. Enginn annar en Helgi Bjöss, eða Tryggvi eins og hann er kallaður í myndinni, svarar kallinu og þar sem hann gengur í leðurfrakka vitum við að voðinn er vís. Hann veiðir jú hvali á skipi sínu ásamt fjölskyldu sinni sem birtist áhorfandanum sem hinir týpísku ferðamannahatandi sveitadurgar og því er ekki við öðru að búast en all svakalegu fjöldamorði þegar þessir hópar mætast.

    Nafn myndarinnar vísar, eins og flestir vita, í The Texas Chainsaw Massacre, eina frægustu slægjumynd (slasher) allra tíma með Gunnar Hansen í fararbroddi, sem fær einnig lítið hlutverk í þeirri íslensku. Með því að bæta „Whale Watching“ við titilinn virkar hún pínu kómísk og nafnið er einnig grípandi, ólíkt Harpoon, öðrum titli myndarinnar. Stiklan sjálf auglýsir spennandi hrollvekju, en ekki svarta kómedíu með þungum undirtónum og slægju fíling. En það er einmitt vandamálið. Myndin veit sjálf ekki alveg hvað hún er. Að blanda saman fullri alvöru og drama við grín og morðæði er hægara sagt en gert. Það verður að skapa gott jafnvægi og passa að bæði húmor og alvara fái að njóta sín, sem tekst ekki alveg að mínu mati. Þá kemur einmitt einn af helstu göllum íslenskra kvikmynda til sögunnar: leikarar með lélegt handrit og litla leikstjórn. Í þessari mynd fær sjónvarpsstjarnan Ragnheiður Steinunn það hlutverk að leika ferðamann sem missir af skoðunarferðinni og henni tekst engan veginn að sannfæra áhorfendur um þjóðerni sitt, sem ég er hreinlega ekki viss um hvað átti að vera. Er hún Breti? Af hverju er vinkona hennar þá ekki með svipaðan hreim? Er hún Þjóðverji? Síðan hvenær tala Þjóðverjar svona? Stefán Jónsson stendur sig reyndar vel sem hinn ógeðslegi og geðsjúki Siggi, en það er þó erfitt að taka hann alvarlega og því verður eitt alvarlegt atriði frekar skrítið og kjánalegt, en það var kannski meiningin. Flestir leikaranna standa sig ágætlega, en maður veit bara ekki alltaf hvort hægt séð að taka þá alvarlega. Frakkinn er t.d. alltof ýktur til að geta nokkurn tímann verði tekinn alvarlega og því efast maður á sama tíma um hina.

    Grámyglulegur hversdagsleikinn birtist eins og í flestum íslenskum myndum og tónlist Hilmars Arnar Hilmarssonar smellpassar við þau atriði. En þau draga myndina niður og minnka bæði  spennu og húmor. Kvikmyndin á nefnilega mörg fyndin augnablik og það sem skiptir mestu máli: flottar drápssenur. En það er algjört lykilatriði í slægjumyndum, sem RWWM sækir helst í. Gæði slægjumynda felst að miklu leyti í því að hafa morð aðferðirnar á sem mest skapandi hátt. Þar stendur myndin sig vel og er að mínu mati það sem gerir hana þess virði að sjá. Ef að handritið hefði frekar einbeitt á blóðuga skemmtun í stað þess að passa að hafa örugglega línuna „How do you like Iceland“ og þunga stemningu sem reynir að vera listræn hefði myndin ekki fallið í þá gryfju að reyna að þóknast sem flestum til að fá fleiri styrki og hefði þar af leiðandi virkað. Ég hreinlega trúði ekki að Sjón hefði skrifað handritið, en svo virðist sem að hann hafi verið að passa að handritið falli innan í mismunandi formúla með því að fylgja verstu klisjum þeirra.

    Þó að RWWM gæti vissulega verið markvissari sýnir hún ákveðna þróun í íslenskri kvikmyndagerð með því að blanda íslenskum klisjum saman við þær bandarísku og gleymir sem betur fer ekki að skemmta áhorfandanum. Myndin er í raun skylduáhorf fyrir alla íslenska hrollvekjunörda og þó hún skilgreinist ekki aðeins sem slík þá hefur hún margt til borðs að leggja og vekur upp spurningar sem tengjast ferðaiðnaði og millilandapólitík. Myndin er hvorki hreinræktuð slægjumynd né grínhrollvekja og ég myndi heldur ekki kalla hana spennutrylli, eins og hún var markaðsett sem. En hún er sitt lítið af hverju og markar ákveðin tímamót í átt að meiri vinnslu með kvikmyndagreinar í íslenskum búningi. Nú er t.d. kvikmyndin Frost væntanleg í kvikmyndahús og hún á víst að vera einhvers konar spennutryllir með vott af hryllingi og vísindaskáldskap. Því er víst að einhver aukning sé á slíkum myndum hér á landi og vonandi heldur sú þróun áfram. Kannski fáum við jafnvel alvöru hryllingsmynd áður en að áratuginum lýkur.

    – Andri Þór Jóhannsson

    Andri Thor Johannsson hrollvekja Júlíus Kemp kvikmyndarýni Reykjavík Whale Watching Massacre rwwm Sjón
    Deila. Facebook Twitter Reddit Tölvupóstur Bluesky Afrita hlekk
    Fyrri færslaTvær myndir byggðar á It eftir Stephen King í bígerð
    Næsta færsla E3: Tomb Raider, Aliens: Colonial Marines, God of War: Ascension og Call of Duty: Black Ops 2 [SÝNISHORN]
    Nörd Norðursins
    • Facebook

    Birt af ritstjórn

    Svipaðar færslur

    Fyrsti hálftíminn í Master Lemon: The Quest for Iceland

    20. nóvember 2025

    Vefur Samtaka leikjaframleiðenda uppfærður

    19. nóvember 2025

    Leikjafyrirtækin á Íslandi aldrei fleiri en nú

    19. nóvember 2025

    Leggur til að stofna tölvuleikjabókaklúbb

    15. nóvember 2025

    Það sem við vitum um Gang of Frogs

    15. nóvember 2025

    Icelandic Game Fest haldið í fyrsta sinn

    14. nóvember 2025
    Nýtt á Nörd Norðursins

    Fyrsti hálftíminn í Master Lemon: The Quest for Iceland

    20. nóvember 2025

    Vefur Samtaka leikjaframleiðenda uppfærður

    19. nóvember 2025

    Leikjafyrirtækin á Íslandi aldrei fleiri en nú

    19. nóvember 2025

    Leikjavarpið #62 – Steam Machine og GTA VI seinkað

    17. nóvember 2025

    Leggur til að stofna tölvuleikjabókaklúbb

    15. nóvember 2025
    Leikjarýni
    8

    Anno 117: Pax Romana

    11. nóvember 2025
    9

    Áttum við að tengjast?

    15. júlí 2025
    8

    Skemmtilegt nostalgíu ferðalag í nýjum búningi

    7. maí 2025
    8

    Indiana Jones and the Great Circle: Enn betri á PlayStation 5 og PS5 Pro

    2. maí 2025
    6

    Krúttleikurinn Hello Kitty Island Adventure dalar hratt

    21. mars 2025
    Nýjast á Youtube
    Myndbandsspilari
    https://youtu.be/84R6rYZR0nQ
    00:00
    00:00
    32:02
    Notaðu upp/niður örvahnappana til að auka eða minnka hljóðstyrkinn.

     Um okkur 

    Leita á vef
    Nýjar færslur
    • Fyrsti hálftíminn í Master Lemon: The Quest for Iceland
    • Vefur Samtaka leikjaframleiðenda uppfærður
    • Leikjafyrirtækin á Íslandi aldrei fleiri en nú
    • Leikjavarpið #62 – Steam Machine og GTA VI seinkað
    • Leggur til að stofna tölvuleikjabókaklúbb
    Facebook Instagram YouTube Spotify Bluesky TikTok Twitch
    © 2025 Nörd Norðursins.

    Skrifaðu fyrir ofan og ýttu á Enter til að leita. Ýttu á Esc til að hætta við.