Birt þann 23. janúar, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Leikjarýni: Saints Row: The Third
Þriðji leikurinn í Saints Row seríunni, frá framleiðandanum Volition, kom út í nóvember 2011. Leikurinn var gefinn út fyrir Windows, Playstation 3 og Xbox 360. Saints Row: The Third er hasarleikur sem gerist í stórborginni Steelport þar sem spilarinn getur ráðið ferð sinni í stórum opnum heimi og hefur möguleika á að valda óreiðu og skemmdum á skemmtilegan og fjölbreyttan máta.
SAGAN
3rd Street Saints (gengið sem spilarinn er í) eru orðnir að fjölmiðla risaveldi með ýmsar vörur merktar með Saints merkinu, eins og orkudrykki, fatnað og skemmtilegar japanskar auglýsingar. Saga leiksins snýst í kringum það hvernig Saints reyna að koma undir sig enn stærra svæði, Steelport, en gengin sem eru þar fyrir eru ekki hrifnir af því að sjá nýja keppinauta í undirheimunum.
Snemma í leiknum kemur í ljós að eitt risa glæpagengi vill arðræna Saints en það tekur aðalpersónan auðvitað ekki í mál. Hafa verður í huga að í gegnum sögu leiksins geta sumar ákvarðanir haft áhrif á niðurstöðu sögunnar, því getur útkoma mismunandi verkefna orðið mismunandi.
SPILUN
Spilarinn byrjar leikinn á því að búa sér til persónu sem hann mun spila. Hérna er strax hægt að hrósa leiknum því möguleikarnir til að búa til persónuna sína eru nánast óendanlegir. Auðveldlega er hægt að eyða löngum tíma í að finna það útlit sem verið er að sækjast eftir og koma möguleikarnir manni fljótt á óvart. Hvort sem spilarinn vill spila sem karl eða kona, feitur eða mjór, með hár eða sköllóttur, hvíta eða dökka húð, farða eða augnskugga, glóðurauga eða ör, nærbuxur með fyllingu eða ekki og allt þar á milli. Þetta er bara smá bragð af því sem hægt er að dunda sér við í byrjun leiksins.
Það tók smá tíma að komast inn í spilun leiksins en eins og með marga ef ekki flesta tölvuleiki, þá venst stýring leiksins fljótt. Stýringin er á flesta vegu mjög vel gerð en sumt hefði mátt gera betur eins og, til að mynda, vopnavalið. Þar þarf að halda inni takka og nota vinstri gleðipinnann til að velja vopnið, en auðvelt er að ímynda sér að þetta er ekki það auðveldasta í miðjum risabardaga. Höfundur hefur líka oftar en einu sinni (lesist: alltof oft) ýtt á vitlausan takka þegar hann ætlar að nappa bíl af mis saklausum íbúum en kastar í stað þess handsprengju í farartækið við misjafna hrifningu ökumanns og löggæslumanna. En það er algjörlega á ábyrgð höfundar að þekkja muninn á að opna bílhurð eða taka pinna úr handsprengju.
Ein mesta hrifning mín við leikinn er sú þegar haldið er inni hlaupa (e. sprint) takkanum haga margar aðrar aðgerðir sér öðruvísi t.d. að ýta á takkann til að stela farartæki meðan hlaupa takkanum er haldið inni hoppar aðalpersónan inn í bílinn í gegnum rúðuna sem minnir helst á Dukes of Hazzard (enda heitir þetta stökk í leiknum eftir því). Þessi takki á víst líka að hafa verið kallaður „Awesome Button“ af Volition.
Bardagakerfi leiksins er nokkuð gott en þar hefur spilarinn val um margar tegundir af vopnum til að ganga með í einu. Vopnin eru mjög fjölbreytt og mikill húmor í þeim geiranum. Hægt er að vopnast fjarstýringu sem tekur yfir hvaða farartæki sem er, ómönnuðu flugfari sem skýtur eldflaugum á óvini eða risastóru fjólubláu plast typpi. Fyrir utan auðvitað þessi venjulegu vopn, þ.e.a.s. skammbyssur, vélbyssur, haglabyssur, árásarrifla og mismunandi tegundir af handsprengjum.
Í skotbardögum er oft næg spenna en leikurinn er duglegur að senda nóg af óvinum á bardagasvæðið. Oftar en ekki neyðist spilarinn að flýja af hólmi til að komast í betri stöðu eða til að fela sig frá óvinunum. Bardagar við örfáa óvini eru léttari en að klessa á ljósastaur en þegar það eru komnir yfir tuttugu gallharðir naglar með vélbyssur, leyniskyttur, fjórir sportbílar, tvö steratröll sem velta bílum og nokkrar árásarþyrlur veit maður að þarna er kominn leikur sem er ekki hræddur við að sýna að hann sé með pung.
Heilsa spilarans er endurnýjanleg svo lengi sem spilaranum tekst að halda sér í skjóli í smá tíma. Oft hjálpar að hlaupa í hringi í kringum hús eða bíla þangað til að fyllist upp í mælinn en leikurinn bíður annars upp á að grípa þann sem þér er næstur og nota hann sem skjól. Ef þér tekst að verða ekki fyrir skotum í ákveðinn tíma byrjar mælirinn að fyllast og þú færð annað tækifæri til að takast á við erfiðleikana sem eru framundan.
Helsti ferðamáti spilarans í gegnum leikinn er annaðhvort að vera fótgangandi eða á bíl. Það verður samt að segjast að stjórnun bílanna er frekar léleg og er illgert að læra almennilega inn á stýringuna svo hægt sé að taka flottar handbremsubeygjur með heilan her á eftir sér. Vitað er að þetta er ekki bílhermir eins og aðrir leikir en þar sem leikurinn vegur þungt í þessum flokki verður að furða sig á því að stjórnin á þessum farartækjum sé eins og hún er.
En til að vega upp á móti því má benda á að hægt er að stýra bátum og fljúga þyrlum og flugvélum. Ójá, þið lásuð rétt, ÞYRLUR OG FLUGVÉLAR! Stjórntækin í þeim eru betur sett upp en samt sem áður má ekki búast við því að verða meistari á nokkrum mínútum. En þegar reynslan er komin þá er fátt skemmtilegra en að vera á blússandi ferð með árásarþyrlunni sinni að valda ómældan usla í borginni.
Í gegnum söguna er hægt að hafa vin með sér og fá þá báðir peninga, virðingarstig og framgöngu í sögunni þegar spilað er í gegnum leikinn. Einungis er hægt að spila saman í gegnum netið eða með því að tengja tölvurnar saman.
GRAFÍK
Grafík leiksins er mjög vel gerð og passar útlit leiksins vel inn í húmorinn og grínið. Þrátt fyrir að það sé nokkuð um það að sumar hreyfingar passa alls ekki eða að „texture“ sé að hoppa af sínum stað þá er það ekki að eyðileggja fyrir manni leikinn heldur er oftast nóg að gera svo maður tekur oft ekkert eftir þessu.
HLJÓÐ
Talsetningin í leiknum er stórskemmtileg og mörg samtöl valda miklum hlátri, annaðhvort yfirhnyttni eða almennum kjánahrolli. Flest hljóð í leiknum eru vel unnin og eins og oft hefur verið minnst á áður tekur maður oftast ekki eftir hljóðum í leik nema þegar þau eru illa gerð. Þar sem höfundur hefur ekkert út á þau að setja verður að gera ráð fyrir því að þau séu vel gerð.
En eitt er hægt að einblína vel á og það er tónlistin. Í farartækjum leiksins er útvarp og hægt er að hlusta á margar útvarpsstöðvar þar sem hver og ein hefur sitt sérsvið. Það sem kom mér skemmtilega á óvart er að þarna voru vel faldnir gullmolar eins og lag úr teiknimyndinni Aqua Teen Hunger Force Colon Movie Film for Theaters.
LOKAORÐ
Stórskemmtilegur leikur með atriðum sem eru svo ekta B-mynda atriði að maður getur ekki annað en hlegið upphátt. Verð að viðurkenna að ég bjóst við algjörum Grand Theft Auto klóni en núna gæti vel verið að ég muni velja Saints Row: The Third framyfir hann. Þó þessi leikur sé meira bull þá er skemmtanagildið ívíð meira sem er einmitt ástæða fyrir að maður spilartölvuleiki. Skemmtun! Ég mæli eindregið með því að grípa eintak af þessum leik og valda eins miklum usla og hægt er (í leiknum auðvitað!).
GRAFÍKHLJÓÐSAGASPILUNENDING |
8,08,57,59,08,0 |
SAMTALS |
8,2 |