Íslenskt

Birt þann 15. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Viðtal: Brynjólfur Erlingsson

Lítill Internetfugl hvíslaði því að okkur að Brynjólfur væri á leið út til Svíþjóðar til að vinna fyrir leikjafyrirtækið DICE, en fyrirtækið hefur meðal annars komið að gerð Battlefield-leikjanna og Mirror’s Edge. Við heyrðum í Brynjólfi og fengum að forvitnast nánar um bakrunn hans og hvað hann mun vera að gera hjá DICE.

 

 

Nú ert þú að farað vinna sem framleiðandi (e. producer) í Battlefield 3 teyminu hjá DICE í Stokkhólmi. Hvað felst í þessu starfi?
Ég er semsagt sérfræðingur í því sem kallast viðskiptagreind (e. Business Intelligence) og gagnavöruhús (e. Data Warehousing).  Ég útskrifaðist með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði 2003 og datt einhvernveginn inn í þennan geira strax eftir útskrift, þar sem ég hafði gert stórt rannsóknarverkefni fyrir gagnaver Háskólans í Reykjavík. Við vorum ekki margir á landinu að sérhæfa okkur í þessu á þeim tíma, en núna er þetta orðin risastór bransi.  Aðalástæðan fyrir því er að þetta er orðið mjög mikilvægt fyrir öll meðalstór og stór fyrirtæki.  Það sem þetta gengur út á er að búa til einhverja nytsamlega þekkingu úr gögnum.  Gagnagrunnar eru venjulega hannaðir bara til að skrá og geyma gögn, en ekki til að búa til skýrslur og að búa til eitthvað nytsamlegt úr gögnunum.  Þar kem ég inn og bý til allskonar sniðuga hluti eins og skýrslur, gröf og risastór gagnavöruhús sem ganga út á að leyfa fólki að grafa ofan í gögnin.  Þetta er semsagt það sem ég mun gera hjá DICE.  Ég mun vinna náið með leikjahönnuðum og grafa ofaní gögnin í leit að einhverju sem hægt er að nota til að gera leikinn betri.  Inn í það spilast líka allskonar markaðsrannsóknir, sölutölur og samskipti við önnur EA stúdíó sem nota gögn mikið (eins og  t.d. EA Sports, Criterion, Bioware o.fl).

Hvernig fékkstu starfið?
Líklega nokkrar ástæður.  Þær helstu eru líklega að ég kláraði M.Sc. gráðu við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi 2008 og það að ég hef verið að vinna hjá CCP síðastliðin 3 ár við að búa til gagnavöruhús og greina gögn. DICE er ekki léttasta fyrirtækið til að fá vinnu hjá, þar sem nokkurnveginn allir Svíar sem klára tölvunarfræðigráðu sækja um hjá þeim.  Þeir eru líka lítið fyrirtæki (bara 300 manns, CCP til viðmiðunar eru um 600).  Líklega hefur þetta verið bara „perfect storm“ hjá mér; leikjareynsla, reynsla af Svíþjóð,  gott háskólanám og átta ára reynsla í þessum bransa.

Við hvað vannstu áður en þú fékkst starfið hjá DICE?
Hefuru unnið áður í tengslum við tölvuleiki?Já, hjá CCP síðustu 3 ár.  Þar hefur starfið gengið út á að skoða hegðun spilara í leiknum.  Við höfum gefið út efnahagsskýrslu fjórum sinnum ári ásamt því að ég hef verið að spá í allskonar hlutum eins og „real money trade“, sjálfvirkri spilun (e. botting), neytendaþjónustu, leikjahönnun og mörgu fleira.  Það er eiginlega frekar erfitt að segja upp hjá svona frábæru fyrirtæki, en Ísland er bara í leiðinlegu ástandi sem ekki sér fyrir endan á og okkur leið mjög vel þegar við bjuggum úti í Svíþjóð á sínum tíma Hef líka verið útseldur ráðgjafi hjá Annata og Hug/Ax, forritari hjá Landspítalanum og verkefnastjóri hjá Glitni.  Allt í viðskiptagreind eða gagnavöruhúsum.

Hvaða menntun hefur þú að baki og hver hefur verið stefna þín að framtíðarstarfi?
B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. í „Engineering and Management of Information Systems“ frá Konunglega tækniháskólanum í Stokkhólmi.  Ég stefni að því að vinna eins lengi og ég get hjá DICE ef allt gengur upp bæði þar og með fjölskylduna úti 🙂

Spilaru tölvuleiki sjálfur? Ef svo er, hverskonar leiki spilaru helst? Hefuru spilað lengi? Áttu einhverja uppáhalds leikjatölvu eða tölvuleik?
Já, ég spila mikið sjálfur og hef verið að spila síðan ég fékk Sinclair Spectrum 48K tölvu 5 ára gamall árið 1982.  Uppáhalds leikjatölvan mín er pottþétt Sega tölva, en ég átti bæði Megadrive og síðar Dreamcast og fannst þær báðar æðislegar.  Varðandi uppáhalds leiki þá á ég nokkuð marga og myndi þá helst nefna Team Fortress 2, Shadow of the Colossus, Ico, Baldur’s Gate serían, Mass Effect serían, Zelda: Link to the Past, Alpha Centauri, Morrowind, Monkey Island 1-3, UFO: Enemy Unknown, Portal, Metal Gear Solid 3, Dodonpachi, Rez og VVVVVV.

 

Að lokum viljum við óska Brynjólfi góðs gengis í Svíþjóð þar sem hann á klárlega eftir að gera góða hluti!

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑