Birt þann 17. desember, 2011 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason
0Nintendo Game & Watch tölvuspilin
Fyrir tíma Gameboy og annara handhægra leikjatölvna voru tölvuspil málið. Ég myndi skilgreina tölvuspil sem einfalda tölvu sem er hægt að setja í vasa, með áföstum skjá og stjórnborði, og með einum eða fleiri innbyggðum leikjum sem er ekki hægt að skipta út. Leikirnir á spilunum eru líka yfirleitt ekki í lit og allar aðgerðir sem hægt er að gera í spilinu eru bundnar við eina óhreyfanlega skjámynd sem er allur heimur spilsins. Ég hugsa að flestir krakkar sem öldust upp á níunda og tíunda áratugnum hafi átt alla vegana einn slíkan grip, en þau voru auðvitað töluvert ódýrari en alvöru leikjatölvur og gæddar þeim góða eiginleika að geta hafið ofan af fyrir börnum í löngum bílferðum eða álíka aðstæðum.
Hvað vantar inn á þessa mynd?
Tölvuspilin eru að sjálfsögðu mjög mismunandi í gæðum. Ég átti nokkur svona spil. Það fyrsta sem ég man eftir var Batman spil, sem var pínkulítið, án alls hljóðs og hafði mjög takmarkað skemmtanagildi. Seinna spilið sem ég man eftir var Turtles tölvuspil, en það var töluvert betra. Í því stjórnaði maður einni af stökkbreyttu ninja skjaldbökunum sem stóð allan tíman útí vinstra horni skjásins. Óvinir streymdu síðan inn frá hægri hluta skjásins sem skjaldbakan þurfti að sigra til að halda áfram. Hljóðið í spilinu var meira að segja frekar gott (í minningunni), þegar kveikt var á því spilaði það stutta útgáfu af þemalagi teiknimyndaþáttanna sem endaði með mjög tölvugerðri rödd sem öskraði „Cowabunga!„. Spilinu var meira að segja skipt í borð með endaköllum og öllum pakkanum, en ég man að ég komst aldrei fram hjá Skrekknum sjálfum, enda fáránlega erfiður andstæðingur.
Ég myndi alla vegana ekki vilja mæta honum í dimmu húsasundi
Það voru samt tölvuspil sem voru frekar vinsæl hérna á Íslandi og víðar sem skáru sig úr þegar kom að gæðum, en það voru Game & Watch spilin. Game & Watch spilin voru framleidd af Nintendo á árunum 1980-1991, en í heildina voru gefin út 60 slík tölvuspil og af þeim seldust um það bil 43 milljón eintaka um allan heim. Eins og nafnið á spilunum gefur til kynna þá eru Game & Watch spilin bæði tölvuleikur og úr, en á öllum spilunum er klukka sem er meira að segja hægt að stilla til að láta vekja sig. Sum tölvuspilin voru flöt með einum skjá, meðan önnur lokuðust eins og samlokur og voru með tvo skjái, en grunnurinn að hönnuninni á þeim spilum átti eftir að vera notuð aftur þegar Nintendo DS tölvan var framleidd.
Ég man eftir þó nokkrum týpum af þessum spilum, en af einhverri ástæðu var yfirleitt til eitt svona spil á flestum heimilum þegar ég var krakki, og flestir áttu samlokuspilin með tveimur skjáum. Heima hjá mér var til dæmis til brúnt Donkey Kong 2 spil, en ég verð reyndar að viðurkenna að ég spilaði það ekki mikið þar sem gamli famiklóninn minn var kominn inn á heimilið þegar spilið birtist. Því miður hefur gamla Donkey Kong 2 spilið týnst í gegnum tímans rás, en ég hef á seinni tímum náð að sanka að mér þrem öðrum gömlum Game & Watch tölvuspilum, en þau spil eru; Oil Panic, Donkey Kong og Safebuster.
Donkey Kong (1982)
Þetta tölvuspil fékk ég fyrir nokkrum dögum síðan frá ömmu gömlu. Ég mundi eftir því að hafa spilað þennan leik þegar ég var krakki í sveitinni og spurði hvort hún ætti það ennþá til. Auðvitað mundi hún eftir spilinu og gróf það upp úr skúffu fyrir mig og gaf mér það. Það sést vel á þessu spili að það hefur fengið mikla spilun í gegnum árin, það er alsett grunnum rispum og klemman sem á að halda spilinu lokuðu er brotin af. Það skiptir samt engu máli, því af öllum Game & Watch spilum sem ég hef spilað er þetta það lang skemmtilegasta. Leikurinn er í rauninni hálfgerð endurgerð af klassíska Donkey Kong, en vegna takmarkanna sem fylgja tölvuspilaleikjum er hann ekki alveg eins.
Spilarinn stýrir Mario sem þarf að hoppa og skoppa yfir olíutunnur sem úrilla górillan Donkey Kong hendir í hann. Takmarkið með leiknum er að koma Mario alla leið upp á efri skjáinn þar sem hann þarf að kveikja á rofa sem setur af stað krana. Þegar kraninn er kominn í gang þarf Mario að hoppa á hárréttum tíma upp í kranann sem lyftir honum upp að fjórum lyklum sem hanga efst á skjánum. Þegar spilaranum hefur tekist að ná öllum fjórum lyklunum brotna undirstöðurnar undan Donkey Kong og leikurinn hefst á ný. Þetta var víst fyrsta Game & Watch spilið sem notaðist við D-Pad stýripinna, en öll spilin á undan notuðust aðeins við vinstri/hægri takka.
Oil Panic (1982)
Þetta spil fann ég hvar annars staðar en í Góða Hirðirnum, en það hefur greinileg merki um mikla notkun og því miður vantar rafhlöðulokið aftan á það. Oil Panic var fyrsta Game & Watch spilið sem notaðist við tvo skjái í einu, en Donkey Kong spilið var númer tvö í röðinni. Í þessu tölvuspili stjórnar spilarinn kalli sem hleypur fram og til baka á efri skjá spilsins, en pípa fyrir ofan hann lekur olíudropum sem hann þarf að grípa í fötu. Ef kallinn nær ekki að grípa dropana þá detta þeir á eldstæði fyrir neðan hann og þá missir spilarinn líf. En það er ekki allt! Fatan fyllist eftir að þrír dropar eru komnir í hana og þá þarf kallinn að tæma fötuna, en þá þarf spilarinn að fylgjast með neðri skjánum, því þar er annar kall sem hleypur fram og til baka með aðra fötu og reynir að grípa olíuna sem spilarinn hellir niður. Spilarinn hefur enga stjórn á kallinum á neðri skjánum og því þarf maður stöðugt að vera fylgjast með báðum skjám í einu, því ef spilarinn nær ekki að tæma fötuna á réttum tíma þá hellist olían á fínt fólk sem stendur í mestu makindum neðst á neðri skjánum, en þá missir spilarinn líka líf.
Það sem ég elska við þetta spil er hvað grafíkin (ef grafík má kalla) er skemmtileg. Allar fígúrurnar í spilinu eru mjög skemmtilega og fyndið teiknaðar. Til að mynda þegar spilarinn hittir ekki í olíutunnuna á neðri skjánum og olían lendir á fólkinu á götunni, þá gjörsamlega snappar fólkið og það sést greinilega að það er ekki par sátt við það að vera útatað í olíu. Mér finnst frekar merkilegt hve miklu er hægt að koma til skila með svona einföldum teikningum, en það er eitthvað við grafíkina í þessu spili sem fær mig til að brosa.
Safebuster (1988)
Unnusta mín gaf mér þetta tölvuspil, en það var víst mikið spilað af systkinum og foreldrum hennar þegar hún var lítil. Þetta spil er um sex árum yngra en hin tvö spilin en heldur sig samt við svipaða formúlu og breytir voðalega litlu. Safebuster er í rauninni mjög líkt Oil Panic í spilun. Spilarinn er öryggisvörður í banka sem þarf að færa sig fram og til baka á neðri skjá spilsins, og grípa sprengjur sem bankaræningi á efri skjá spilsins hendir niður í sífelldri tilraun til að sprengja upp öryggishvelfingu bankans. Spilarinn getur gripið allt að þrjár sprengjur í einu en þá þarf hann að hvolfa úr sprengjudallinum sínum til hliðanna á skjánum. Þessi leikur er í raun aðeins einfaldari, og jafnvel auðveldari en Oil Panic, að því leyti að spilarinn þarf ekki að hafa áhyggjur af því hvar og hvenær hann losar sig við sprengjurnar, en í Oil Panic er það einmitt helmingurinn af erfiðleikastigi leiksins.
Umbúðirnar á spilinu eru líka öðruvísi en á hinum tveim eldri spilunum. Á gömlu spilunum er aðeins nafn spilsins skrifað utan á það á silfruðum bakgrunni, en á Safebuster er búið að teikna öryggisvörðinn og bankaræningjann í miðju sprengjukasti fyrir framan bankahvelfingu, á mjög teiknimyndalegan máta. Ég er eiginlega hrifnari af umbúðunum á þessu spili því myndin gefur því vissan sjarma og maður fær strax smá hugmynd um hvað spilið gengur út á. En af þeim þrem spilum sem ég á þá er leikurinn í Safebuster lakastur.
Auglýsing fyrir Game & Watch tölvuspil í Dagblaðinu Vísir 15. desember 1982. Spilin á myndinni eru Oil Panic og Donkey Kong.
Það er dálítið fyndið að hugsa til þess að þessi spil eru að nálgast þrítugs aldurinn. Meira að segja þegar ég var að leika mér með Donkey Kong spilið heima hjá ömmu og afa var spilið þegar að nálgast tíu ára afmælið sitt. Það er líka dálítið sérstakt að hugsa til þess hve lengi Game & Watch spilin voru framleidd, en þau voru gerð í 11 ár og seldust samt í hundruð þúsunda tali hvert og eitt þrátt fyrir að vera í raun byggð á fremur úreldri tækni. En þegar maður tekur svona Game & Watch spil og ber það saman við tölvuspilin sem er hægt að fá í barnamáltíðum á McDonalds þá sést gæðamunurinn greinilega. Hérna held ég á næstum 30 ára gömlum tölvuleik og hann virkar jafn vel og hann gerði þegar hann kom nýr úr kassanum þrátt fyrir að hafa fengið reglulega spilun í öll þessi ár. Ég efast um að það sé hægt að segja það sama um öll kínaspilin sem maður sér í Toys R Us í dag.
Eitt samt sem ég verð að koma á framfæri áður en ég segi þetta gott. Ef þið eigið svona spil niðrí skúffu og langar allt í einu að spila það eftir að hafa lesið þessa ágætu bloggfærslu þá eigið þið eflaust eftir að lenda í sama veseni og ég lenti í. Spilin notast öll við svona lítlar hnapparafhlöður eins og er ekki óalgengt að finna í gömlum tölvuúrum og því líku, en er mjög óalgengt að finna yfir höfuð í búðum. Rafhlöðurnar í þessi spil fást nefnilega ekki hvar sem, og þar sem þær fást eru þær RÁNDÝRAR! Ég sá tvær svona rafhlöður í pakka í Elko fyrir ekki svo löngu síðan á eitthvað í kringum 700 krónur! Þannig ef ykkur vantar ódýrar rafhlöður mæli ég með því að þið lítið í USA Superstore í Smáralindinni, en þar fann ég 10 svona rafhlöður í pakka á 298 krónur. Bara svona smá til að hafa í huga.
Takk fyrir lesturinn!