Leikjarýni

Birt þann 20. nóvember, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Deus Ex: Human Revolution

26. ágúst síðastliðinn kom loksins út hinn nýi Deus Ex leikur sem margir hafa beðið óralengi eftir. Leikurinn er hannaður af Eidos Montreal, en upprunalegi Deus Ex, sem telst enn þann dag í dag vera einn af  brautryðjendum tölvuleikjaheimsins, var einmitt gefin út af Eidos á sínum tíma. En það voru þó leikjahönnuðirnir hjá Ion Storm sem stóðu á bakvið það meistaraverk. Deus Ex: Human Revolution hefur því vægast sagt stór spor að feta í.

Í framtíðar heimi þar sem allt virðist vera að fara á annan endann beinast augu flestra að stærsta deilumáli samtímans, vélrænar uppfærslur á mannslíkamanum. Með öllum þeim framförum sem hafa átt sér stað hefur tæknin þotið fram úr öllu valdi og þá einkum í vélrænum líkamshlutum, þar sem hvaða manneskja sem er getur, að því gefnu að hún hafi efni á því, borgað fyrir að láta uppfæra líkama sinn  í von um að betrumbæta sjálfan sig og yfirstíga þær líkamlegu takmarkanir sem við fæðumst með.

Spilarinn bregður sér í hlutverk Adam Jensen, yfirmanns öryggismála hjá Sarif Industries, sem er eitt fremsta fyrirtækið á vélræna líkamshluta markaðnum. Kvöld eitt er gerð óvænt árás á eina af vísindastöðvum Sarif, þar sem flestir deyja, og þar á meðal yfirmaður rannsóknarsviðsins, Dr. Megan Reed sem er einnig unnusta Jensen. Jensen lifir þó af, en alls ekki að kostnaðarlausu. Aðal deilumálið á tíma leiksins er hvort leyfa eigi þessar vélrænu breytingar, og eru mikil sannfærandi rök bæði með og á móti í því máli. En hvort sem hann vildi það eður ei, fékk Jensen ekkert val. Því eina leiðin til að bjarga lífi hans voru rándýrar líkamshlutaskiptanir sem greiddar voru fyrir af fyrirtækinu og framkvæmdar á meðan hann var í dái. Jensen snýr svo aftur til starfa með það að markmiði að finna þá sem stóðu fyrir árásinni, komast að því hvað lægi að baki þessum verknaði og hefna sín á þeim sem drápu kærustu hans og limlestu hann sjálfan.

 

Spilun

Leikurinn býður spilaranum upp á að ráða gjörsamlega hvernig hann fer í gegnum leikinn, hvort sem þú vilt laumast um og beita engum vopnum, eða hlaupa inn í herbergi með sprengjuvörpu í hönd, þá býður leikurinn upp á hvort heldur er, og allt þar á milli. Sérhvert stig leiksins er alltaf hægt að leysa á mismunandi vegu t.d. með því að fikra sig áfram gegnum litlar loftrásir sem oft eru faldar á bak við hina ýmsu hluti og svo er að sjálfsögðu augljósasta leiðin sem liggur ávallt beint af augum.

Gervigreind andstæðinganna í leiknum er mjög vel hönnuð, t.d. í stað þess að standa  kyrrir á sama staðnum og skjóta í áttina að þér líkt og í mörgum öðrum leikjum, þá leita þeir þig uppi þar sem þú bíður í skjóli og reyna að koma þér í ójafnvægi með því að fara í kringum þig, sem veldur því að skotbardagar geta jafnvel orðið hin ótrúlegasta handaleikfimi. Í leiknum er svo hægt að skýla sér á bakvið nánast alla hluti, og spilarinn getur meira að segja fært suma þeirra til  og notað þá síðan sem skjól sem bætir enn frekar á alla valkosti leiksins.

Einnig er hægt að brjótast inn í tölvukerfi víðsvegar þar sem ýmist er hægt að finna margskonar upplýsingar eða slökkva á eftirlitsmyndavélum og ná á sitt vald sjálfvirkum hríðskotabyssum andstæðingsins  sem eru víðsvegar um leikinn og geta orðið þér skeinuhættar. Þó svo að leikurinn hafi greinilegan aðalsöguþráð sem hægt er að spila strax í gegnum, bíður hann einnig upp á ágætlega stór svæði sem hægt er að kanna og leysa verkefni í. Það er því erfitt að láta sér leiðast í leiknum því það er alltaf eitthvað nýtt til að finna eða gera.

Það skiptir ekki máli hvernig þú spilar þig í gegnum leikinn, því þú vinnur þér alltaf inn reynslustig sem þú safnar þar til ákveðnum fjölda hefur verið náð.  En þá fær spilarinn nokkurskonar uppfærslu punkt sem hægt er að nota til að uppfæra Jensen, og uppfærslurnar eru skemmtilegar og fjölbreyttar, þannig að allir geta fundið eitthvað spennandi til að eyða punktunum í.  Þú getur svo dæmi sé nefnt uppfært fætur hans til að verða hljóðlátari svo óvinirnir eigi erfiðara með að taka eftir þér, styrkt hendurnar til að geta lyft þyngri hlutum, eða til að finna nýjar leynileiðir og búa til öruggari skjól, hækkað skynjunarbúnað Jensen þannig að leikmaður geti séð á smákorti sínu það svæði sem óvinur er að horfa á sem litaðan þríhyrning hverju sinni eða orðið hæfari í að brjótast inná tölvukerfi eða taka yfir sjálfvirku byssurnar og myndavélarnar.

 

Hönnun og hljóð

Grafík leiksins er allgóð en ekkert framúrskarandi. En hönnun umhverfisins, þessa framtíðarlega heims er svo lík því sem heimurinn gæti verið að stefna að í dag, sem er góð og algjör vendipunktur hvað útlit leiksins varðar. Tónlistin er svo aftur á móti fyrsta flokks og stemmir fullkomlega við umhverfi leiksins. Samtöl og raddsetning eru því miður ekki að sama skapi góð, en þau eru oft á tíðum mjög ómerkileg og jafnvel ósannfærandi á pörtum.

 

Niðurstaða

Leikurinn er í heildina litið þrusu skemmtilegur og bíður upp á rúmlega 25-30 klukkustunda spilun og svo góða endurspilunargildi, því fyrir mína hönd a.m.k. gæti ég vel hugsað mér að spila leikinn aftur í gegn og gera hlutina öðruvísi, og þá myndi ég eflaust finna fullt af nýjum hlutum því leikurinn er það stór, og það er einmitt þannig sem tölvuleikir eiga helst að vera. Leikurinn bíður ekki upp á fjölspilun en hennar er þó vart saknað, því flestir vita að þetta er ekki þesskonar leikur. Eini verulegi annmarki leiksins, sem flestir hafa eflaust heyrt talað um áður, eru endakarla-bardagarnir, en leikurinn sem að öðru leiti er svo frumlegur og leyfir manna nánast hvað sem er hefur þessa ótrúlega klisjukenndu endakarla-bardaga, sem snúast bara um að fela sig bakvið hnéháa veggi hér og þar og skjóta andstæðinginn í spað.

En Deus Ex: Human Revolution er enn einn leikurinn sem hefur komið út á þessu geðbilaða tölvuleikja ári sem virðist ekki snúast um neitt annað en að hver stórleikurinn á fætur öðrum reynir að slá hinum við hvað vinsældir varðar. En Deus Ex er þó einn þeirra betri því hann hefur það sem til þarf. Ég get hiklaust mælt með leiknum fyrir allra eldri en 18 ára að aldri sem hafa gaman af skot- og hasarleikjum.

 

GRAFÍK
HLJÓÐ
SAGA
SPILUN
ENDING
8,5
9,0
7,5
9,0
7,5

SAMTALS

8,6

Arnar Vilhjálmur Arnarsson

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑