Íslenski leikarinn Ólafur Darri Ólafsson (Ófærð, Severance og Reykjavík Fusion) mun fara með hlutverk þrumuguðsins Þórs í væntanlegum sjónvarpsþáttum sem byggja á God of War. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Amazon MGM Studio sem vinnur í samvinnu við Sony Pictures að gerð þáttanna. Búið er að samþykkja gerð tveggja þáttaraða sem sýndar verða á Amazon Prime. Byrjað er að ráða leikara í hlutverk og forvinna hafin við gerð þáttanna í Vancouver, Kanada. Ekki hefur verið tilkynnt hvenær þættirnir verða sýndir á Prime.
Í þáttunum mun þrumuguðinn vera staddur á erfiðum stað í lífinu þar sem hann glímir meðal annars við áfengisvanda. Í fréttatilkynningunni er persónu Þórs lýst á eftirfarandi hátt:
„Þrumuguðinn er risavaxinn maður sem hefur staðið af sér marga bardaga í gegnum tíðina en gamlar gjörðir hans í stríði halda nú fyrir honum vöku. Eitt sinn tryggur hermaður Ásgarðs og hægri hönd föður síns, en nú aðeins skuggi af því sem hann áður var og drekkur áfengi til að hugsa ekki um það gjald sem hann greiddi. Að halda konu sinni og börnum í fjarlægð hefur aðeins dýpkað einangrun hans, en máttur (og hætta) Þrumuguðsins er ennþá til staðar, rétt undir yfirborðinu.“
Í God of War leikjunum ferðast stríðsguðinn Kratos um heima norrænnar og grískrar goðafræði þar sem hann berst meðal annars við guði, gyðjur og ýmiskonar verur. Nýju sjónvarpsþættirnir byggja á God of War tölvuleiknum frá árinu 2018 og God of War: Ragnarök frá 2022 þar sem við fylgjum Kratos og syni hans Atreus í ferðalagi þeirra á stað til að dreifa ösku Faye, eiginkonu og móður. Í gegnum ferðalagið reynir Kratos að kenna syni sínum að vera betri guð, á sama tíma kennir Atreus föður sínum að vera betri manneskja.
God of War er margverðlaunaður leikur og fékk þar á meðal fullt hús stiga í leikjarýni okkar þar sem leiknum var lýst sem tímamótverki. Töluverð umræða skapaðist á netinu eftir útgáfu leiksins um útlit og persónuleika Þórs sem þótti óhefðbundnara og mögulega mannlegra þar sem ekki var dregin upp týpísk hetjumynd af guðinum. Þess má geta að þá var fjallað var um God of War: Ragnarök í þætti nr. 44 af Leikjavarpinu (hlaðvarpi Nörd Norðursins) þar sem farið var yfir bestu tölvuleiki ársins 2022.
Ryan Hurst mun fara með hlutverk Kratos en hann talaði inn á fyrir Þór í God of War: Ragnarök. Max Parker leikur Heimdall og Mandy Patinkin fer með hlutverk Óðins, alfaðir ásanna. Emmy verðlaunahafinn Frederick E.O. Toye mun leikstýra fyrstu tveimur þáttunum en hann hefur meðal annars leikstýrt Shōgun, The Boys og Fallout.
Forsíðumynd (samsett):
1) Ljósmynd af Ólafi Darra eftir Jónatan Grétarsson og
2) Þór úr God of War (2018)
