Loka valmynd
    Facebook Instagram YouTube Spotify TikTok Twitch
    Nörd Norðursins
    Facebook Instagram YouTube Spotify Bluesky TikTok Twitch
    • Fréttir
    • Greinar
    • Leikjarýni
    • Íslenskt
    • Leikjavarpið
    • Viðburðir
    Nörd Norðursins
    Heim»Tölvuleikir»Leikjarýni»Áttum við að tengjast?
    Leikjarýni

    Áttum við að tengjast?

    Höf. Sveinn A. Gunnarsson15. júlí 2025Uppfært:3. nóvember 2025Engar athugasemdir12 mín. lestur
    Facebook Twitter LinkedIn Reddit WhatsApp Tölvupóstur Bluesky Afrita hlekk
    Deila
    Facebook Tölvupóstur Afrita hlekk

    Það eru liðin tæp sex ár síðan að Hideo Kojima og Kojima Productions færðu okkur skrýtinn og brotinn heim Death Stranding þar sem sundrungur, dauði og sambandsleysi einkenndi sögu leiksins. Söguhetjan Sam Porter Bridges (leikinn af Norman Reedus), fékk það erfiða verkefni að endurtengja svæðið sem áður voru Bandaríkin. Heimurinn var í rúst eftir atburði fyrsta Death Stranding sem olli gríðarlegri eyðileggingu og dauðsföllum á heimsvísu.

    Þegar leið á leikinn og það langa ferðalag sem Sam tókst á við, þá lærðum við meira um baksöguna og hvað olli þessari eyðileggingu í heiminum og skapaði þessi hryllilegu BT (beached things) skrímsli sem fólk faldi sig frá neðanjarðar.

    Sagan í DS 1 var oft mjög flókin sem er eitthvað sem hefur oft einkennt leiki sem Hideo Kojima hefur hannað. Þrátt fyrir það var leikurinn heillandi skemmtun og var með  djúpar pælingar eins og samskipti fólks, dauðann, hvernig við komum fram við annað fólk og hvað við skiljum eftir okkur í heiminum. Eins og ég sagði, frekar djúpar pælingar í leik sem margir horfa á og halda að sé „gönguhermis“ tölvuleikur.

    Death Stranding 2: On the Beach gerist um 11 mánuðum eftir atburði fyrri leiksins; Sam og Lou halda til í suðurhluta UCA og lifa rólegu lífi þar sem Sam er að takast á við að ala upp ungabarn einsamall. Fragile (Léa Seydoux) sem nú rekur fyrirtækið Drawbridge, kemur til þeirra og biður um aðstoð vegna verkefnis sem snýr að því að tengja Mexíkó við Chiral kerfi gömlu Bandaríkjanna.

    Chiral hlið hefur myndast í Mexíkó sem leiðir til Ástralíu og gefur til kynna að með því að tengja það land við kerfið muni mögulega önnur hlið opnast og heimurinn ná að tengjast enn betur.

    Þetta verkefni á ekki eftir að reynast auðvelt og það er ekki langt þangað til að Sam dregst inn í dýpri baráttu ýmissa afla í leiknum og við fáum að upplifa meiri baksögu Lou og hvernig þau tengjast heiminum og hvort öðru.

    Ég vil ekki fara of djúpt í atburði leiksins í byrjun, nóg er að segja að leikurinn nær fljótt tökum á spilaranum og augljóst er að Kojima er ekki hræddur við að hrista upp í hlutunum. Bestu partar sögunnar að mínu mati er einmitt þegar leikurinn er óhræddur við að gera skrýtna og furðulega hluti þar sem leikmenn eru ekkert alltaf með á nótunum hvað sé nákvæmlega að gerast. Ég var oft að klóra mér í hausnum um hvað væri í raun að gerast, og þetta væri ekki allt saman eitt stórt sýrutripp sem ég væri á.

    Ný og kunnugleg andlit

    Dollman fylgir Sam í ferðalögum hans og minnir pínu á Mímir úr God of War.

    Saga leiksins spannar um 16 kafla eða „þætti“ eins og leikurinn kallar þá. Flestir þessara þátta bera stutt nöfn sem gefa  vísbendingu um hvað er framundan. Þegar þú ert ekki að spila í gegnum þessi sögutengdu verkefni þá er hægt að taka að sér ótal sendiferðir  og aðstoða fólk. Líkt og í DS 1 þá ertu að styrkja böndin við þá sem þú aðstoðar og á sama tíma koma þeim inn í Chiral kerfið og tengja þau við víðari umheiminn.

    Það er talsvert um kunnugleg andlit úr fyrri leiknum. Léa Seydoux (Fragile), Margaret Qualley (Mama), Troy Baker (Higgs), Tommie Earl Jenkins (Die-Hardman), og Lindsay Wagner (Bridget Strand), ásamt leikstjórunum Guillermo del Toro (Deadman) og Nicolas Winding Refn (Heartman), sem ljá leiknum útlit sitt en ekki rödd. Troy Baker snýr aftur sem Higgs og það er augljóst að leikarinn er að njóta sín til hins ýtrasta. Hann er senuþjófur í hvert sinn sem hann birtist.

    Nýjar persónur eru kynntar til leiks í DS 2 og má þar nefna Dollman (sem er talandi strengjabrúða), Tarman sem notast við útlit leikstjórans George Miller en ekki rödd hans, Tomorrow (Elle Fanning), forseti UCA (Alastair  Duncan), Lucy og Neil, Læknirinn (Debra Wilson), Rainy (Shilo Kutsuna). Síðan eru ótal „kameó“ eða gestahluthverk þekkt fólks úr heimi tónlistar, kvikmynda, leikja og samfélagsmiðla. Ég kannaðist við suma og aðra ekki.

    Spilun leiksins er á marga vegu mjög svipuð og í DS 1, stundum aðeins of mikið. Það eru þó heppilega hlutir sem voru kynntir í DS 1 Director‘s Cut útgáfu leiksins eins og ný bardagakerfi, vopn, nýjar byggingar o.fl. Margt af þessu var gert til að gera spilun leiksins aðgengilegri og auðveldari. DS 2 heldur því áfram án þess að vera með of rótækar breytingar.

    Það sem er nýtt í DS 2 er til dæmis aðgangur að farartæki og færanlegri stöð Drawbridge fyrirtækis; Fragile. DHV Magellan er stýrt af Tarman og getur ferðast í gegnum tjörustrauma heimsins og flýtt fyrir ferðalögum í leiknum. Það er því miður ekki hægt að nota skipið sem fragtskip til að ferðast með vissan farangur því þá fær Sam ekki jafn góða einkunn frá fólkinu og samtökunum sem hann er að aðstoða. Til allrar lukku er miklu auðveldara nú að notast við þríhjóla mótorhjól og trukka til að flytja farm á milli staða. Hægt er að uppfæra og betrumbæta þessi farartæki sem þú getur smíðað, eða notast við önnur sem aðrir leikmenn leiksins hafa skilið eftir. Þau eru þó ekki jafn góð eða fjölhæf og þau sem þú getur búið til sjálfur. Uppáhalds uppfærslan mín fyrir trukkinn var að geta búið til dekk með nöglum til að ferðast betur um í snjó og fjalllendi.

    Annað sem er nýtt í DS 2 er breytilegt veðurkerfi þar sem Sam getur lent í stormum sem skyndilega valda flóðum í ám sem gerir þær erfiðari að fara yfir vegna aukins straumkrafts ótals braks og annarra hluta. Risastórir rykstormar sem byrgja sýn og eru oft með hættulegar eldingar. Skógareldar og stórir jarðskjálftar sem eru tengdir stórum hliðum sem er hægt að nota til að ferðast á milli t.d Mexíkó og Ástralíu. Líklega flottasta og skelfilegasta dæmið tengt veðurkerfi leiksins er þegar þú ert að klifra upp fjall í Ástralíu og það skellur á blindandi snjóstormur og gerir skyggnið nær ekkert, og skyndilega verður skjálfti og þú heyrir fjallshlíðina fyrir ofan þig hristast til og áður en þú veist af er snjóflóð að falla í kringum þig og þú hefur andartak að koma þér í skjól. Það sem er helst hægt að kvarta undan leiknum í sambandi við þetta, er að þetta er alltof sjaldan notað.

    Hiti/Kuldi og súrefni er eitthvað sem þarf að hafa í huga núna.

    Heimsendirinn hefur aldrei litið jafn vel út

    Grafík og útlit leiksins eru ein af hápunktum leiksins og er ótrúlegt að sjá hvað Kojima Productions hafa náð að gera með Decima grafík vélina sem Guerilla Games (hönnuðir Killzone og Horizon leikjanna) bjuggu til. Horizon Zero Dawn og framhald hans Horizon Forbidden West voru ótrúlega flottir að sjá, en á köflum er Death Stranding 2 flottari en allt sem hefur komið út á undan keyrandi á þessari vél. Leikurinn er með stuðning við PlayStation 5 Pro og PSSR tækni hennar og var virkilega flott að sjá hvernig leikurinn leit út og keyrði á PS5 Pro vélinni minni tengdri við OLED tölvuskjá.

    Grafík leiksins er oft gullfalleg

    Sam eyðir meirihluta tíma síns  að ferðast í gegnum rústir Ástralíu, sem er á vissan hátt mjög vel endurskapað í leiknum. Rauði sandur eyðimerkur svæðisins er mjög vel gerður og var hann nákvæmlega eins og ég man eftir frá ferðalögum mínum þar, þegar ég var yngri. Aðrir hlutar eru frekar ólíkir landinu og má þá helst nefna risastóra fjallið í miðju kortsins með snæviþökktum tindum, einnig snúa svörtu sandar aftur og hraun svæði DS 1, sem áttu meira heima á Íslandi en í Bandaríkjunum eða Ástralíu.

    Þeir ná vel að negla rauða litinn á eyðimörkum landsins, það var eitthvað sem ég man vel eftir frá tíma mínum þegar ég var að ferðast um Ástralíu þegar ég var yngri. Leikurinn nær að búa til mjög raunverulegt landslag og snúa því síðan við í fantasíuheimi þar sem við erum að ferðast um smærri útgáfu af landinu til að tengja það við ytri heiminn.

    Hleðsla leiksins frá byrjun er ótrúlega snögg og þökk sér SSD tækni Sony.

    Spilun leiksins hefur fengið margar betrumbætur og má helst nefna bardagakerfið, laumukerfið og vopnin. Hægt er að ganga frá mennskum óvinum án þess að drepa þá, eitthvað sem gat oft verið ergjandi í fyrsta leiknum, þar sem var annað hvort að drepa þá eða forðast bardaga við þá. Að eiga við BT skrímslin er auðveldara og ekki jafn pirrandi. Stundum þegar ég var í miðju ferðalagi með varning gátu nokkur skrímsli rústað öllu og kostað mann talsverðan tíma. Fyrir þá sem vilja kljást við þann ótta og halda niðri í sér andanum þegar skyndilega byrjar að rigna og dularfullu handamerkin byrja að birtast þá er það enn til staðar. Það er sæmileg fjölbreytni fyrir stóra óvini  sem er hægt að eiga við; sum í gegnum verkefni leiksins og önnur sem þú rekst á í smærri hliðarverkefnum.

    Það er hægt að gera upp námur í Ástralíu sem hjálpar Sam að fá efni  til að byggja upp vegi og byggingar. Þetta krefst töluverðs tíma í að finna hluti til að byggja og uppfæra, en þá kemur aftur  eitt af því sem gerði fyrri leikinn áhugaverðan þar sem þeir sem voru að spila leikinn geta allir lagt saman í „púkk“ til að endurbyggja heiminn og með tímanum sjá langa vegi út um allt  sem gerir  öðrum leikmönnum auðveldara að ferðast. Það er alltaf hægt að sjá nöfn þeirra sem eru að nota hlutina sem þú hefur byggt eða skilið eftir. Það er á ný hægt að vinna sér inn ótal Likes frá persónum leiksins eða öðrum sem spila leikinn. Hvað er hægt að segja, Kojima er allur í „memes“ dæminu og hvernig fólk er að eiga samskipti við hvert annað.

    Tónlistin nær að vera sögu persóna í leiknum

    Einn af bestu hlutum Death Stranding var tónlistaval leiksins, Ludvig Forsell samdi meirihluta hennar auk þess heyrðist  í ýmsum hljómsveitum eins og íslensk/amerísku Low Roar, sem Kojima kynntist við rannsóknir á Íslandi. Nýtt tónlistarfólk í DS 2 eru Chvrches og Woodkid á meðal annarra. Ég hafði aldrei heyrt í sumu af þessu en það er ótrúlegt hvað mikið af þessu passar við leikinn og spilun hans. Ég er búin að hlusta mikið á sum lögin í innbyggða tónlistarspilara leiksins og síðan á Spotify. Sum þessara laga ná einhvern veginn að fest sig inn í mann og neita að fara úr huga manns.

    Á marga vegu er Death Stranding 2 ekki fyrir alla og einhverjir munu kvarta undan að það er of mikið af því sama og í fyrri leiknum að það sé eytt of löngum tíma að þvælast um heiminn að sendast fyrir fólk og sum aðalverkefni leiksins eru sendiferðir sem hefði verið hægt að stytta niður. Ég er á köflum sammála því DS 1 var ekki stuttur leikur og ef eitthvað þá er DS 2 enn stærri og lengri leikur, en hann þyrfti ekki endilega að vera þannig. Meira er ekki alltaf betra og bestu kaflar hans eru aðalsöguverkefni leiksins að mínu mati. Ég fékk alveg nóg af sendladæmi fyrsta leiksins og þó að það sé talsvert auðveldara að gera þau núna  þá taka þau samt ágætis tíma. Ég endaði í 65+ tímum í fyrsta leiknum og fór yfir 110 tíma í þeim síðari. Að renna hratt í gegnum söguna tæki líklega 30-40 tíma myndi ég halda.

    Myndavél leiksins átti stundum til að vera að þvælast fyrir manni, og hefði verið gaman að hafa möguleikann að skipta í fyrstu persónu sjónarhorn í vissum bardaga hlutum leiksins.

    Það hefði vel verið hægt að stytta niður vissa parta og samt enda með góðan leik. Ég geri mér grein fyrir að mikið af því sem ég eyddi tíma í var ekki endilega nauðsynlegt til að sjá endalok leiksins, en fyrir marga sem spila tölvuleiki, ef það er þarna, þá er erfitt fyrir okkur að gera það ekki.

    Er meira alltaf betra?

    Saga leiksins er að mínu mati sterkasti partur hans, þó hann sé oft mjög skrýtinn. Hún nær manni oft í hjartastað og þau þemu sem Kojima er að reyna að kalla fram hitta í mark. Leikurinn er fyndinn, sorglegur, stórskrýtinn og allt þar á milli. Það er ljóst að hlustað hefur verið að mestu á kvartanir sem fólk hafði við fyrsta leikinn. Þú ert öflugri og reyndari Sam Porter núna og það finnst í gegnum spilun leiksins, sem kemur að góðum notum þegar leikurinn ákveður að draga þig niður í tjöruna og láta þig berjast við stór skrímsli, vélmenni og aðrar furðuverur.

    Með því að bæta við „perk kerfinu“ APAS þá gefur það leikmönnum tækifæri til að slípa spilun sína og leikstíl. Því meira sem þú aðstoðar aðra því auðveldari verður spilun leiksins. Sjokkerandi ég veit, að hjálpa öðrum getur leitt til betra lífs, það er eins og að leikurinn sé að reyna að segja fólki eitthvað með þessu.

    Að losa Hideo Kojima undan strengjum Konami eftir, Metal Gear Solid V: The Phantom Pain, þó sársaukafullt hafi verið, hefur reynst honum gott. Ég vildi bara að hann yrði enn framandi eða furðulegri með næsta leik, það fer ekki á milli mála að maður er að spila leik sem hann hefur verið með puttana í (og leitt vinnu hans.)?

    Ég mun samt ekki sakna alls kúks og piss dæmis sem DS 1 var með.

    Kojima er skemmtilegur sérvitringur sem ég fæ ekki nóg af. Hann er langt frá því að vera fyrir alla og það verða örugglega einhverjir sem Death Stranding leikirnir höfða ekki til eða þeir hreinlega fatta ekki hvað er í gangi eða hvers konar „steypa“ leikurinn er. Það helsta sem má segja um Kojima er að honum vantar stundum hálfgerðan klippara eða ritstjóra til að slípa hugmyndir sínar aðeins niður.

    Ef að við fáum DS 3 þá vil ég sjá róttækari breytingar á sumum hlutum leiksins t.d. að hafa meiri söguhluta og verkefni og aðeins minna af dútl dæminu sem er á mörgum stöðum. Það mætti alveg skoða að vera með hnitmiðaðri og styttri leik.

    Death Stranding 2: On the Beach er mjög vel heppnað framhald að nær öllu leyti og var biðin þess virði. Leikurinn er fjöður í hatt PlayStation, eða þar til að hann kemur líklega út síðar á PC og mögulega Xbox.

    Eintak í boði útgefanda.

    Death Stranding 2

    9 Frábær

    Death Stranding 2 er skemmtilega skrýtinn leikur sem er líklega ekki fyrir alla.

    • Einkunn lesenda (0 atkvæði) 0
    Death Stranding Death Stranding 2 Hideo Kojima Kojima Productions playstation PS5 PS5 Pro
    Deila. Facebook Twitter Reddit Tölvupóstur Bluesky Afrita hlekk
    Fyrri færslaLeikjavarpið #61 – Switch 2 útgáfa, Elden Ring Nightreign og Clair Obscur: Expedition 33
    Næsta færsla Echoes of the End er kominn út – sjáðu útgáfustikluna
    Sveinn A. Gunnarsson

    Svipaðar færslur

    Leikjavarpið #63 – Icelandic Game Fest og The Game Awards

    2. desember 2025

    Fyrsti hálftíminn í Master Lemon: The Quest for Iceland

    20. nóvember 2025

    Vefur Samtaka leikjaframleiðenda uppfærður

    19. nóvember 2025

    Leikjafyrirtækin á Íslandi aldrei fleiri en nú

    19. nóvember 2025

    Leikjavarpið #62 – Steam Machine og GTA VI seinkað

    17. nóvember 2025

    Minnist vinar síns í nýjum tölvuleik – „André dreymdi um að læra íslensku“

    14. nóvember 2025
    Nýtt á Nörd Norðursins

    The Game Awards í beinni 11.-12. desember

    4. desember 2025

    Leikjavarpið #63 – Icelandic Game Fest og The Game Awards

    2. desember 2025

    Durtar og yfirnáttúruleg öfl í IKEA og Nexus

    23. nóvember 2025

    Fyrsti hálftíminn í Master Lemon: The Quest for Iceland

    20. nóvember 2025

    Vefur Samtaka leikjaframleiðenda uppfærður

    19. nóvember 2025
    Leikjarýni
    8

    Anno 117: Pax Romana

    11. nóvember 2025
    9

    Áttum við að tengjast?

    15. júlí 2025
    8

    Skemmtilegt nostalgíu ferðalag í nýjum búningi

    7. maí 2025
    8

    Indiana Jones and the Great Circle: Enn betri á PlayStation 5 og PS5 Pro

    2. maí 2025
    6

    Krúttleikurinn Hello Kitty Island Adventure dalar hratt

    21. mars 2025
    Nýjast á Youtube
    https://youtu.be/84R6rYZR0nQ

     Um okkur 

    Leita á vef
    Nýjar færslur
    • The Game Awards í beinni 11.-12. desember
    • Leikjavarpið #63 – Icelandic Game Fest og The Game Awards
    • Durtar og yfirnáttúruleg öfl í IKEA og Nexus
    • Fyrsti hálftíminn í Master Lemon: The Quest for Iceland
    • Vefur Samtaka leikjaframleiðenda uppfærður
    Facebook Instagram YouTube Spotify Bluesky TikTok Twitch
    © 2025 Nörd Norðursins.

    Skrifaðu fyrir ofan og ýttu á Enter til að leita. Ýttu á Esc til að hætta við.