Leikjarýni

Birt þann 30. september, 2024 | Höfundur: Unnur Sól

Echoes of Wisdom – Zelda er við stjórnvölinn

Echoes of Wisdom – Zelda er við stjórnvölinn Unnur Sól

Samantekt: Nostalgískt og skapandi 2D ævintýri þar sem frjálslegar lausnir sameinast hinum klassíska Zelda heimi.

4.5

Mjög góður


Loksins kom að því að Zelda, hin goðsagnakennda prinsessa, fékk réttmætt aðalhlutverk í splunkunýjum leik. Í The Legend of Zelda: Echoes of Wisdom tekur Zelda við kyndlinum frá Link í fyrsta skipti í sögu Zelda seríunnar. Þetta kemur ekki aðeins sem ferskur blær fyrir seríuna heldur er leikurinn sjálfur blanda af gömlu og nýju, þar sem frjálslegt eðli nýrra Zelda leikja sameinast dýflissum og þrautum úr klassísku leikjunum. Það sem kom mér sérstaklega á óvart var að þessi leikur var alls ekki bara aukaleikur – hann er mikilvægur hluti af seríunni, með góðri blöndu af nýsköpun og nostalgíu.

Heimurinn í Echoes of Wisdom er stór og fjölbreyttur, með mörgum svæðum til að kanna. Eftir að Hyrule hefur enn á ný verið lagt undir álög illra afla, hafa rifur byrjað að myndast í landinu og er það markmið Zeldu að loka þeim með hjálp frá félaga sínum, Tri. Spilunartími leiksins er um það bil 25-35 klukkustundir, allt eftir því hversu mikið þú kafar ofan í hliðarverkefni. Aðalverkefnin eru sterk og halda söguþræðinum vel á floti þó að sagan sé einföld, en hliðarverkefnin bæta við dýpt og gefa leiknum mikið af aukaefni til að kanna.

Þessi leikur var alls ekki bara aukaleikur – hann er mikilvægur hluti af seríunni, með góðri blöndu af nýsköpun og nostalgíu

Það sem gerir Echoes of Wisdom svo einstakan eru Echo-kerfið og hönnun dýflissanna. Zelda getur með töfrasprota sínum skapað Echoes – afrit af óvinum sem hún hefur sigrað eða hlutum sem hún hefur rekist á. Þetta kerfi kemur í stað hefðbundinna lykilgripa eins og krókskota eða skóflu en býður samt upp á svipaða notkun. Echo-kerfið krefst hugvitssemi, þar sem leikurinn hvetur leikmenn til að „brjóta leikinn“ með frjálsum lausnum á þrautum.

Viðmótið til að velja Echo getur þó orðið þreytandi þegar maður hefur safnað rúmlega hundrað Echoes – að skrolla í gegnum þau getur hæglega dregið úr spilunarflæði, sérstaklega í hita bardaga eða við flóknar þrautir. Þrátt fyrir þetta er Echo-kerfið frábær viðbót sem ýtir undir ótal skapandi lausnir á vandamálum í leiknum.

Auk Echo kerfisins getur Zelda bundist hlutum með hjálp Tri. Þetta leyfir henni að færa hluti á auðveldari máta eða jafnvel fylgja hlutum sem eru á hreyfingu. Með þessum hætti opnast margar nýjar leiðir til að kanna heiminn, til dæmis með því að fylgja fugli um himinhvolfið.

Dýflissur, þrautir og „aha!“ augnablik

Dýflissurnar í Echoes of Wisdom eru skemmtileg blanda af klassískri hönnun með nýju sniði. Þó þær séu línulegri en áður, þá er hugvitssemi lykillinn að lausn þrautanna. Það sem gerir þrautirnar góðar að mínu mati er að þér líður eins og þú sért raunverulega að leysa vandamálin frekar en að reyna að finna út úr því hvað leikurinn vill að maður geri. Leikurinn gefur leikmönnum frelsi til að nota Echoes á fjölbreyttan hátt, og oft er ekki ein rétt lausn við vandamálunum, sem leiðir til margra „aha!“ augnablika þar sem sköpunargleði ræður för. Hönnun þrautanna minnir um margt á gömlu Zelda leikina, þar sem ný Echoes eru oft falin í dýflissum og opna nýjar leiðir um heiminn. Listrænn stíll og umgjörð er fengin úr endurgerðinni á Link’s Awakening sem finnst mér passa fullkomlega við anda þessa leiks.

Eitt sem mætti bæta er að sumir gætu fundið þrautirnar aðeins of auðveldar miðað við klassíska leiki eins og Ocarina of Time eða Majora’s Mask. Þetta gæti verið tilraun til að gera leikinn aðgengilegri fyrir nýja leikmenn, en gæti valdið vonbrigðum hjá harðkjarna aðdáendum.

Bardagakerfið: ný nálgun með nokkrum takmörkunum

Bardagakerfið er annars konar en það sem við erum vön í hefðbundnum Zelda leikjum. Þú ert með sverðið hans Links og getur farið í svokallaðan bardagaham en því fylgir orkustika sem eyðist við notkun. Maður fyllir stikuna aftur með orkueiningum en vegna takmarkana á orkubirgðum sparar maður bardagahaminn fyrir erfiðar aðstæður og endar á að nota Echos af óvinum til að berjast fyrir mann. Það að búa til afrit af t.d. Moblin og bíða eftir að hann sigrist á óvinum í hægfara bardaga er ekki sérstaklega spennandi – stundum saknar maður bara að geta gripið í sverðið og „slasha“ allt sem fyrir verður, eins og í gömlu leikjunum. Maður finnur þó sérstaklega fyrir þessu í byrjun, hægt verður að uppfæra bardagahaminn og með spilun kemur maður upp með ýmsar skrautlegar lausnir á fljótlegum og skemmtilegum leiðum til að nota Echo í stað sverðsins. Með tímanum safnar maður sínum uppáhalds Echoes fyrir ólíkar aðstæður en mér fannst alveg furðulega skemmtilegt að koma upp með frumlegar leiðir til að taka óvini úr umferð. Í raun má segja að bardaganum var breytt í enn eina þraut sem þarf að leysa.

Hliðarverkefni og leyndarmál Hyrule

Echoes of Wisdom er ekki bara línulegur dýflissuleikur, því það er nóg af hliðarverkefnum sem auka dýpt leiksins. Frá því að aðstoða íbúa litlu þorpanna til að safna sjaldgæfum gripum eða klára hliðardýflissur með einstökum bardögum, þá eru endalausir hlutir sem hægt er að finna og kanna. Fyrir þá sem elska að grafa sig djúpt ofan í leik, bjóða þessi hliðarverkefni upp á ríkulega umbun, bæði í formi echoes og annarra verðmætra gripa sem að bæta upplifunina. Sérstaklega er vert að nefna automaton kerfið, sem gefur leikmönnum möguleika á að smíða lítil vélmenni sem geta hjálpað til í bardaga.

Samantekt

The Legend of Zelda: Echoes of Wisdom er spennandi nýr kafli í Zelda seríunni með nýstárlegu kerfi sem heldur samt í kjarna þess sem gerir Zelda leiki frábæra. Þrautirnar eru einstakar, og þó bardagakerfið sé ekki eins spennandi og klassískar sverðsbaráttur, þá býður leikurinn upp á fjölbreytta og skapandi spilun.

Með Zeldu í aðalhlutverki, Echo kerfinu og blöndu af opnum heimi og klassískum dýflissum, nær leikurinn að vera bæði kunnuglegur og ferskur í senn. Echoes of Wisdom er sterk viðbót við seríuna og gefur spennandi innsýn í framtíð Zelda. Fyrir bæði nýja og gamla aðdáendur seríunnar er Echoes of Wisdom ævintýri sem vert er að upplifa. Það heiðrar arfleifð Zelda á sama tíma og það þorir að fara nýjar leiðir.

Ég gef leiknum 4.5 af 5 – fyrir frumlegheit, skapandi spilun og frelsi ásamt því að bjóða upp á hefðbundna línulega dýflissuleikjaupplifun sem Zelda leikir eru þekktir fyrir.

Nintendo missti þó af frábæru tækifæri til að rugla enn frekar í okkur og kalla leikinn „The Legend of Link.“

Eintak í boði Ormsson

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑