Leikjarýni

Birt þann 19. september, 2024 | Höfundur: Steinar Logi

0

NBA2K25 – Lengi getur vont versnað

NBA2K25 – Lengi getur vont versnað Steinar Logi

Samantekt: 2K voru latari og gráðugri í ár en oft áður. Sleppið þessu ári og sjáið til næst eða prófið hann þegar verðið lækkar.

2

Lélegur


Ekki kaupa NBA2K í ár. Ekki einu sinni ef þú ert tilbúinn að styrkja litla sprotafyrirtækið 2K með því að kaupa VC (virtual coins) til að styrkja spilarann þinn og kaupa pakka því að þú munt samt verða fyrir vonbrigðum. Í ár tókst þeim að vera bæði latari og gráðugri en vanalega sem er ekki auðvelt.

Það er ekkert nýtt að leikurinn er „pay-to-win“ að mestu leyti og 2K eru hættir að fela það, sérstaklega hvað varðar MyPlayer og MyTeam. Með hverju ári er erfiðara að vinna sig upp án þess að leggja fram pening og það er engin breyting í ár. Þú verður á eftir kúrvunni ekki bara í MyPlayer heldur líka MyTeam. Auðvitað er hægt að spila á sínum hraða og velja bara það sem manni finnst skemmtilegt en fljótlega rekstu á hindranir sem ég mun fara yfir.

Í ár tókst þeim að vera bæði latari og gráðugri en vanalega sem er ekki auðvelt.

Ef við skoðum vinsælasta hlutann fyrst þ.e.a.s. MyPlayer þá leyfa þeir þér að finna hvernig það er að spila með spilara með allt í hámarki í fyrsta leiknum í sögunni en svo kemur í ljós að það er draumur. Snilldartaktík hjá þeim til að freista þín sb. „Sérðu hvað gaur í hæsta styrkleika er góður! Kauptu Virtual Coins núna á afslætti!“ og maður sér fullt af svona litlum trikkum í leiknum. Í næstu leikjum þá verðurðu aftur versti leikmaðurinn í vellinum þrátt fyrir að vera hylltur sem næsta stórstjarnan.

Sagan hefur verið mjög lík í mörg ár en stundum reyna þeir að poppa hana upp t.d. eitt árið þá réðu þeir Spike Lee til að leikstýra sögunni og annað árið þá snerist allt um að vera tísku- og rappstjarna. Ekki í ár og leikurinn ber þess merki að þeir nenna þessu ekki lengur því að þeir endurnota sama formattið á sögunni og í fyrra nema þá fékk maður að spila á móti goðsögnum eins og Magic og Jordan sem afi þinn spilaði (sem var góður spilari og því skemmtilegri upplifun). Sagan í ár fjallar um hvernig þú og vinur þinn komust í NBA; þú sem stjarnan og vinur þinn sem umboðsmaður þinn. Fljótlega gefstu upp á að elta söguna, annað hvort því að hún er ekki athyglisverð eða því að þinn leikmaður er svo lélegur í byrjun að þú gefst upp. Þeir ákváðu semsagt að hafa söguáskoranir erfiðar og auðvelt að sjá það sem enn eitt bragðið til að fá þig til að kaupa VC til að bæta spilarann þinn.

Sagan í ár fjallar um hvernig þú og vinur þinn komust í NBA; þú sem stjarnan og vinur þinn sem umboðsmaður þinn

Borgin er ennþá til staðar og áfram troðfull af auglýsingum og litlum verkefnum. Eins og áður þá vill enginn spila með þér yfir netið því að þú ert fátækur en þú getur notað ýmis verkefni til að smátt og smátt styrkja þig.

Í gegnum árin þá hef ég spilað MyTeam hlutinn langmest og það hefur verið ágætasta skemmtun en þar hefur græðgin líka verið stigvaxandi og þeir tóku stórt skref í þá átt með því að taka út uppboðsfítusinn (Auction House) í síðasta leiknum 2K24. Seinni part líftíma 2K24 þá fóru þeir að bæta við einkunn 100 spilurum (áður var hámarkið 99) og gerðu þá fáránlega sjaldgæfa eða undir 1%. Þetta þýddi að spilarar sem voru veikir fyrir að veðja, keyptu pakka fyrir hundruðir eða þúsundir dollara til að fá bestu leikmennina í leiknum. Strax í 2K25 þá eru þeir áfram byrjaðir að hafa mjög sjaldgæfa leikmenn með undir 1% í líkum að fá svo að þetta hefur greinilega reynst þeim vel. Núna í tímabili númer 1 þá þarftu að hafa eytt þúsundum dollara til að vera með besta liðið og það eru ekki ýkjur. Þetta er ein ástæðan að ég mæli ekki einu sinni með þessum leik fyrir hvalina því að þetta er of mikið happadrætti.

Það er ekki mikið að gera í MyTeam í ár fyrir þá sem vilja ekki eyða pening; það er hægt að takast á við áskoranir en þær eru mjög tímafrekar. Það er hægt að spila í gegnum „Domination“ leikjaröðina og það eru þokkalegustu verðlaun sem leyfa þér að kaupa leikmenn í Auction House sem er komið aftur, sem betur fer. Síðan er leikjaröð, svokallað Breakdown, þar sem verðlaunin ráðast af því hvað maður heldur lengi út. En lokaleikurinn getur verið erfiður, þrátt fyrir auðveldasta styrkleikastigið (rookie). Þetta er alls ekkert hræðilegt en mjög tímafrekt. Það er að sjálfsögðu hægt að spila við aðra spilara en þá rekstu á það sama og í MyPlayer þ.e.a.s. mun sterkari lið.

Ein ástæðan fyrir því að margt tekur meiri tíma í ár er að það er erfiðara að stela boltanum, blokka skot og síðast en ekki síst hitta reglulega ofan í körfuna. Hvert ár þá breytir 2K aðeins spilunina til að sýna fram á að þeir hafi gert eitthvað og í ár vildu þeir minnka hittnina því að góðir spilarar í fyrri leikjum voru að hitta nánast úr hverju einasta skoti. Gallinn er að allir hitta verr núna, allt frá byrjendum upp í þá bestu. Sem er einmitt ástæðan fyrir því að mikið af áskorunum og að byggja upp spilarann þinn tekur núna meiri tíma og nógu mikill tími fór í að spila leikinn áður.

Hvert ár þá breytir 2K aðeins spilunina til að sýna fram á að þeir hafi gert eitthvað og í ár vildu þeir minnka hittnina því að góðir spilarar í fyrri leikjum voru að hitta nánast úr hverju einasta skoti

Hreyfingar (animations) eru fleiri í ár en hingað til hefur það ekki verið til góða í spilun. Gallinn er að maður festist iðulega í ákveðinni hreyfingu og allt virkar hægara fyrir vikið. Það er t.d. stundum erfitt að stoppa spilarann í að labba út þrátt fyrir að maður geri sér grein fyrir að það sé að fara gerast áður en animation klárist sem virkar óraunverulegt. Maður gefur á einhvern og í millitíðinni þá hleypur andstæðingur fyrir boltann en sér hann samt ekki, boltinn lendir á bakinu á honum en þrátt fyrir það nær hann boltanum áður en sá sem átti að fá sendingu pikkar hann upp semsagt er með augu í hnakkanum. Mikið af þessum villum finnst manni maður vera að sjá aftur og aftur og þetta kallast því „legacy“ villur.

Viðmótið var fínt síðustu ár en hvert ár þá verða þeir að breyta því og í ár er það til hins verra. Í MyPlayer leikjum er t.d. það sem dregur þig niður eða hækka þig upp í Teammate Rating pínulítill texti sem maður sér varla. Aðal-menu í MyTeam er mjög óskýr og svo mætti áfram telja.

Aðrar leikjagerðir bjarga þessu ekki. MyGM endurnotar sama söguþráð, sömu viðræður ár eftir ár og maður sér marga sem sérhæfa sig í þeirri leikjategund kvarta sáran yfir litlum breytingum.  MyNBA og Eras er með eitthvað sem kallast Steph Era núna og mikilvægir leikmenn eins og John Wall, Blake Griffin og Andre Igoudala sem voru lykilleikmenn á þessu tímabili (Iggy vann td. Finals MVP) eru ekki með því að þeir eru nýlega hættir og ekki búið að gera samning við þá. Einnig vantar langflesta spilara sem voru að spila í þessum tíma í liðin og 2K fyllir uppí með tölvugerðum spilurum sem voru aldrei til. Hérna treystir 2K á að PC modding samfélagið geri vinnuna fyrir þá og búi þessa spilara til en það er ekkert svoleiðis fyrir okkur PS5/Xbox spilara.

Nenni ekki að eyða meiri tíma í að skrifa um þennan leik lengur en nefni að lokum að ég hef spilað 2K af og til í yfir 20 ár og þetta er í fyrsta sinn sem ég fæ 2K leik og er hættur tveimur vikum seinna …

Nenni ekki að eyða meiri tíma í að skrifa um þennan leik lengur en nefni að lokum að ég hef spilað 2K af og til í yfir 20 ár og þetta er í fyrsta sinn sem ég fæ 2K leik og er hættur tveimur vikum seinna (spilaði NBA2K24 í 363 tíma). Mér finnst ekki lengur pláss fyrir spilara eins og mig í þessum leik því að fókusinn er kominn nær algerlega á hvalina. Síðasta varið mitt var MyTeam en hvalaveiðarnar hafa tekið yfir þá tegund leiks. 2K verða að fá einhverja samkeppni eða hysja upp um sig buxurnar en gallinn er að það er dýrt fyrir aðra að taka þátt í þessum markaði. EA reyndi það en það gekk ekki. Endilega sleppið þessu ári og sjáið til næst eða prófið hann þegar þeir lækka verðið sem þeir gera í nánustu framtíð því að þeir vilja fleiri „neytendur“.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑