Fréttir

Birt þann 10. september, 2024 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

PlayStation 5 Pro væntanleg í nóvember

Fyrr í dag kynnti Sony leikjatölvuna PlayStation 5 Pro sem er væntanleg í verslanir þann 7. nóvember næstkomandi. Um er að ræða kraftmeiri útgáfu af PlayStation 5 leikjatölvunni sem kom fyrst á markað í lok árs 2020.

Í PlayStation 5 þurfa spilarar gjarnan að velja á milli þess að spila leikinn í bestu mögulegri grafík en þá á kostnað þess að keyra leikinn á færri römmum, eða þá að spila leikinn á 60 römmum á sekúndu en þá er grafík leiksins ekki í hámarksgæðum. Með tilkomu PlayStation 5 Pro opnast á þann möguleika að geta keyrt leiki í fullum gæðum og með viðunandi rammafjölda á sama tíma, svo spilarar þurfa þá ekki að velja á milli þessara tveggja stillinga. Þetta er gerlegt með PlayStation 5 Pro sem inniheldur krafmeiri örgjörva en upprunalega PlayStation 5 leikjatölvan. Auk þess styðst tölvan við betri og uppfærða Ray Tracing tækni sem auðveldar endurspeglun og endurkast í leikjum ásamt uppskölun sem styðst við gervigreindartækni.

Með tilkomu PlayStation 5 Pro opnast á þann möguleika að geta keyrt leiki í fullum gæðum og með viðunandi rammafjölda á sama tíma, svo spilarinn þarf ekki að velja á milli þessara tveggja stillinga.

PlayStation 5 Pro inniheldur ekki geisladrif en hægt er að kaupa það sem aukahlut og tengja við tölvuna. Ólíkt upprunalegu PlayStation 5 tölvunni þá fylgir enginn standur með Pro útgáfunni og þarf að kaupa hann aukalega ef eigendur vilja hafa tölvuna standandi í stað liggjandi.

Söluverð PlayStation 5 Pro verður £699 í Bretlandi og €799 í Evrópu, eða í kringum 122-126.000 íslenskar krónur á núverandi gengi. Nörd Norðursins hefur ekki fengið staðfest söluverð á PlayStation 5 Pro á Íslandi en ekki þykir ólíklegt að verðið verði á bilinu 120 – 160.000 íslenskar krónur.

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑