Birt þann 16. nóvember, 2023 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson
080’s hasar í boði RoboCop
80's fílingur
Samantekt: Góð skemmtun sem er dýpri en virðist og hittir vel í mark hjá aðdáendum seríunnar
3.5
Árið 1987 kom út blóðug og umdeild hasar- og vísindaskáldsögu mynd sem hét RoboCop og var leikstýrð af Paul Verhoeven.
Hann leikstýrði einnig Total Recall, Starship Troopers, Basic Instinct og Black Book.
Í fyrstu virkaði þetta bara sem enn ein hasarmyndin sem skyldi lítið eftir sig, með tímanum jukust vinsældir hennar og fólk byrjaði að sjá meira í henni en bara hefðbundna hasarmynd, en dag er RoboCop nafnið vel þekkt.
Í myndinni var skoðað hvað það er að vera mennskur, græðgi fyrirtækja á kostnað almennings, spilling, einkavæðing löggæslunnar og ádeila á stefnu Ronald Reagan forseta Bandaríkjanna, á þeim tíma þar sem græði og peningar skiptu öllu máli.
Sagan gerist í framtíðarútgáfu af Detroit borg, eins og fólk á níunda áratug síðustu aldar ímyndaði sér að árið 2043 yrði. Detroit borg er hálfgerður stríðsvöllur og lögreglan á lítinn séns á móti öflugri glæpaöldu. Risafyrirtækið Omni Consumer Products, eða OCP eins og það er kallað, rekur lögreglu borgarinnar og stefnir á að skipta fólki út fyrir vélar sem hlýða öllu og kosta auðvitað minna.
Saga myndarinnar er sögð frá sjónarhóli lögreglumannsins Alex Murphy (Peter Weller) sem er nýlega fluttur til borgarinnar með fjölskyldu sinni. Hann vinnur með Anne Lewis (Nancy Allen) og hjálpar hún honum að aðlagast nýju starfi og borginni. Því miður tekur það ekki langan tíma fyrr að hann lendir í skotbardaga við glæpagengi og er pyntaður og drepinn á mjög blóðugan hátt. Þar sem hann vann fyrir OCP fyrirtækið og þeir hreinlega áttu starfsmenn sína, þá var hann yfirlýstur dauður og þeir líkamshluta hans sem voru heillegir og hentuðu OCP voru settir í nýjan vélrænum líkama sem OCP hafði verið að hanna. Þessi blanda heila og vélar er undirstaðan að RoboCop.
Fyrsta myndin naut mikillar velgengni og hefur fyrir löngu öðlast „költ“ stöðu í kvikmyndaheiminum. Á eftir fylgdu tvær kvikmyndir og síðan endurgerð af upprunalegu myndinni árið 2014. RoboCop 2 var fín viðbót á meðan þriðja myndin var frekar slök og fólk ekki hrifið af henni. Því minna sem er sagt um endurgerðina því betra.
RoboCop: Rogue City er nýr leikur fyrir PlayStation 5, PC og Xbox Series X|S. Hann er gerður af pólska stúdíóinu Teyon og dreift af Nacon. Teyon gerðu síðast hinn vanmetna Terminator: Resistance sem hefur hægt og rólega fengið meiri athygli leikmanna. Hvað sem þið gerið ekki spila Rambo: The Video Game frá fyrirtækinu, hann er ekki einu sinni „slæmur/góður“ leikur.
Það er ljóst frá byrjun leiksins að framleiðendur leiksins eru aðdáendur RoboCop seríunnar þar sem útlit heimsins, persóna og umhverfi er endurskapað af mikilli nákvæmni og þekkingu. Leikarinn Peter Weller sem er orðinn 76 ára, ljær Alex Murphy/RoboCop rödd sína og andlit á ný. Þó að hann sé orðinn frekar gamall þá hjálpar það gríðarlega til að fanga stemmninguna.
Saga leiksins gerist á milli atburða RoboCop 2 og 3, sem er mjög gáfulegur staður til að forðast mörg mistök síðustu myndarinnar. Gengi tekur gísla á sjónvarpsstöð til að ná athygli nýs glæpamanns sem kallast því frumlega nafni „New Guy“ sem er að valda æsingi meðal glæpamanna borgarinnar um að keppast um athygli hans og peninga.
Eftir að hafa bjargað gíslum á sjónvarpsstöð í Old Detroit, þá byrjar RoboCop að upplifa gamlar minningar og verður það til þess að OCP ákveður að setja í hann nýjan eftirlitskubb til að fylgjast betur með honum og sjá hvort að hann sé enn að standa sig í starfinu. Þetta er auðvitað fín leið til að gera vissa hluta leiksins tölvuleikjavænni og halda utan um hvernig leikmönnum gengur með hin ýmsu verkefni leiksins. Ofan á það er síðan hæfileikatré í formi uppfærslutrés fyrir Auto-9 byssu RoboCop. Sú byssa er einmitt mjög þekkt og hefur birst í öðrum tölvuleikjum eins og Far Cry 3: Blood Dragon, Saint‘s Row IV o.s.frv..
Hún skýtur þremur skotum í einu sem gefur henni sérstakt hljóð og neglir leikurinn útlit hennar og hljóð að mínu mati. Greyið óvinir leiksins hreinlega springa í blóðklessur þegar þeir verða fyrir þeim, hægt er að sprengja af þeim hendur og hausa og auðvitað er trophy/achievement fyrir að skjóta óvini í klofið eins og í myndinni.
Sagan er engin bylting en hún nær vel að ná þessum 80‘s framtíðarfíling. Old Detroit er full af glæpum og forvitnilegum persónum til að rekast á og hjálpa. Það er meira að segja móral kerfi í leiknum eins og má rekast á í sumum hlutverkaleikjum. Persónur bregðast mismunandi við þér eftir hvernig þú hefur átt við þau áður, það er síðan hægt að velja ýmsa valmöguleika í samtölum. Heimur leiksins er svona „semi open-world“ og eru nokkur stór borð til að kanna, sum koma síðan við sögu aftur í breyttu formi. Það eru hliðarverkefni til að leysa, hægt er að fara um og sekta fólk og bíla, hjálpa konu að finna köttinn sinn, leysa morðmál og ýmislegt fleira. Þetta hjálpar að brjóta upp hasarkafla leikins aðeins.
RoboCop er gangandi skriðdreki svo eins og má búast við þá fer hann ekki hratt yfir, það er ekki hægt að hoppa eða klifra yfir veggi en það eru nokkrir stigar sem er hægt er að not . Þetta passar vel við, enda er kallinn blýþungur og meira vél en maður. Venjulegir óvinir eiga ekki mikinn möguleika gegn þér og eina sem hjálpar þeim er að ráðast á þig stórum hópum. Fyrstu borð leiksins eru auðveld og gefa þér góða tilfinningu fyrir því að vera nær óstöðvandi. Það er ákveðið kikk við að berja í sundur vegg til að komast að óvinum og kalla fram RoboCop sjóntæknina eins og í myndunum til að sjá og miða á óvini leiksins.
Þegar þú ert komin með góða tilfinningu fyrir því að stjórna þessum hæga „skriðdreka“ þá byrjar leikurinn að kynna til leiks erfiðari óvini, bæði vélræna og mennska sem geta gengið snögglega frá RoboCop. Það þýðir lítið að krjúpa á bak við skjól, enda erfitt að standa upp aftur, í staðinn er nauðsynlegt að nýta sér umhverfið og þá hluti sem eru í boði til að lifa af. Það komu nokkrir bardagar í seinni hluta leiksins sem létu mig hafa vel fyrir því og ég þurfti að endurhlaða vissa kafla á ný til að komast áfram. Það koma við sögu síðan kunnugleg „andlit“ úr myndunum sem eru skemmtilegir óvinir að eigast við eins og ED-209 og RoboCop 2 vélmennið úr samnefndri mynd á meðal annarra.
Leikurinn keyrir á Unreal Engine 5 og getur á köflum litið virkilega vel út. Ég spilaði í gegnum leikinn á Xbox Series X vélinni og hef einnig prófað leikinn á PC. Það sést alveg að leikurinn er gerður af smærra leikjafyrirtæki og fyrir minni pening en margir aðrir stórir titlar. Það sem skín í gegn er hve mikil vinna hefur verið lögð í umhverfi leiksins, sérstaklega lögreglustöðina sem þú ferð alltaf til á milli verkefna. Þar er hægt að tala við fólk og samstarfsfélaga, æfa sig að skjóta, hjálpa fólki, leysa verkefni og taka þátt í stuttum sálfræðitíma til að ræða hvernig er að vera vélræn manneskja og hvað það þýðir fyrir mannlega hluta þína og sál.
Því meira sem ég sökkti mér í leikinn og heim hans, því meira var ég staðráðinn að bjarga borginni og íbúum hennar frá bæði OCP og glæpagengjunum. Undir lok leiksins er hægt að spjalla við fólk og hjálpa þeim eða algerlega hundsa það og þjóta í gegnum sögu leiksins. Það eru ýmsir valkostir í gegnum leikinn sem hafa áhrif á enda hans og hvað verður um vissar persónur. Leikmenn eru sjaldan neyddir til að taka meira þátt í þessu frekar en þeir vilja.
Það voru ýmsir gallar og vankantar sem ég rakst á að spila leikinn.
Stundum klikkuðu einhverjir partar í gervigreind leiksins og ég þurfti að endurhlaða kafla, eða að mið byssunnar sem ég var með valið, festist á skjánum og ég gat ekki gert það sem ég þurfti til að halda áfram. Ég lenti ekki í að leikurinn hrundi en hann átti stundum til að missa niður ramma (fps), jafnvel þegar ég valdi 60 fps Performance stillinguna en hægt er nota 30 fps Quality sem lítur talsvert betur út.
Þrátt fyrir misgóða tæknilega hluta, það að sumar persónur líta betur eða verr út en aðrar, misgóðan raddleik, þá er eitthvað við þennan leik að mínu mati. Ég var með bros á vör þegar ég var að drita niður glæpagengin og vélmenni leiksins og með tónlistina úr myndinni rúllandi í leiknum og hlusta á leikarann Peter Weller þylja upp þekktar setningar úr myndunum eins og ég man eftir þegar ég var yngri. Fyrir þá sem þekkja ekkert til þessa heims þá er aðeins erfiðara að mæla með leiknum í fyrstu, það hjálpar þó til að hann er lægra verðlagður en aðrir leikir, er að kosta rétt um 8 þúsund krónur út úr búð hér á landi eða um $50/£49.99/€59.99.
Þetta er ekki sambærilegt við AAA leik þar sem hundruð manns vinna að honum í mörg ár og kostar nokkra milljarða króna í framleiðslu. En það sem hann er klárlega er verkefni sem var unnið að miklum áhuga, þekkingu og ástríðu og það skín í gegn. Fyrir aðdáendur RoboCop sem hafa ekki upplifað marga leiki (eða góða) í gegnum árin, þá er þessi leikur skyldukaup í safnið.
Aðrir ættu að bíða eftir að hann detti smá í verði, og kannski kíkja á Terminator: Resistance (sem er til í uppfærðri útgáfu á Series X/S og PS5) sem ég mæli einnig með og auðvitað kíkja á RoboCop kvikmyndina ef þið hafið ekki séð hana. Bara munið að hún er bönnuð börnum og einnig þessi leikur. Bæði eru klárlega ekki fyrir yngri kynslóðina, en við sem erum aðeins eldri eigum von á skemmtilegum leik sem er vel virði þeirra 20-30 tíma sem tekur að rúlla í gegnum hann.
Eintak var í boði útgefanda