Birt þann 6. apríl, 2022 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson
0Draugar Tókýó
Samantekt: Fínasti leikur sem mætti vera frumlegri og taka fleiri sénsa
3
Draugar fortíðar
Að læra að sleppa takinu, það er eitthvað sem persónan Akito þarf að kljást við í gegnum sögu leiksins Ghostwire: Tokyo frá japanska fyrirtækinu Tango Gameworks og kom út fyrir stuttu á PlayStation 5 og PC.
Flest okkar hafa upplifað einhvern missi í gegnum lífið, sumt stærra en annað og eitthvað sem skilur eftir sig varanlegt ör á sálinni. Þetta er þema sem leikurinn reynir að skoða með misgóðum árangri.
Ghostwire gerist í nútíma Tókýó borg þar sem 99% íbúanna hverfa og eina sem er eftir af þeim eru fötin sem þau voru í. Dularfullir goðsagnakenndir andar herja á borgina og sálir þeirra sem horfnir eru, eru í hættu frá afli sem vill beisla þær til illra verka.
Það sem verður Akito til happs, ef svo má segja, er að hann lendir í slysi á sama tíma og þessir atburðir gerast svo hann er á milli lífs og dauða. Andinn KK rekst á hann og reynir að taka yfir líkama hans til að berjast við hin dularfullu öfl, en Akito er ekki alveg á því að sleppa takinu af lífinu alveg strax. Hann er á leið á spítalann í leit að systur sinni þegar hann lendir í slysinu og er það sem heldur honum gangandi að komast til systur sinnar. Akito og KK ná samkomulagi að vinna saman og það tekur ekki langan tíma fyrir sögu þeirra að tvinnast saman við sögu leiksins.
Sagan er engin bylting sem slík og þrátt fyrir að hún reynir að toga sæmilega í hjartastrengina tekst henni það sjaldan því miður. Hliðarsögur leiksins koma sumar betur út og er vel þess virði að kanna Shibuya hverfi Tókýó borgar í leit af öndum til að hjálpa að leysa úr málum sínum og halda áfram á vit hins ókunnuga eða stöðva illa anda og önnur skrímsli sem herja á borgina. Mikið af besta og hjartnæmasta efni leiksins er í þessum sögum.
Tango Gameworks unnu áður við The Evil Within hryllingsleikjunum og má finna talsverð áhrif þeirra leikja í Ghostwire enda voru orðrómar um að leikurinn hefði byrjað líf sitt sem The Evil Within 3 og umbreyst síðan. Það sem er helst öðruvísi við Ghostwire er að hann keyrir á Unreal Engine 4 í stað id Tech, hann er í fyrstu persónu í stað þriðju persónu og er það stundum pínu skrítið að spila leikinn því hann er hálfgerður fyrstu persónu skotleikur þar sem þú ert að notast við galdra í stað hefðbundinna vopna. Vindur, eldur og vatn eru þeir galdrar sem þú notast við og getur uppfært ásamt að vera með boga og örvar sem koma stundum að góðum notum. Sérstaklega í þeim köflum sem Akito og KK verð aðskildir og Akito verður skyndilega talsvert veikari og þarf að laumast um til að komast til KK á ný og sameinast aftur. Heppilega eru þessir kaflar ekki margir svo þetta verður ekki fljótt pirrandi.
Helsti vandi leiksins er stjórnun hans þegar þú ert að berjast því þú ert hreinlega oft að slást við DualSense pinnann til að ná að miða almennilega. Það væri óskandi að það væri betri miðunarkerfi í leiknum og mér fannst ég hitta sjaldnar en ég skaut framhjá og það var eftir að ég hafði átt talsvert við stillingarnar til að gera þær bærilegri. Það hjálpar smá að leikurinn er ekki of erfiður og eftir nokkurn tíma ertu orðinn það öflugur að þú mátt við að klúðra ófáum skotum að óvinunum. Þetta getur þó mögulega orðið frekar ergjandi fyrir suma og mæli ég alveg með að breyta erfiðleikastillingu leiksins til að vinna á móti þessu.
Það er flott að sjá handahreyfingar Akito þegar hann er að beita kröftum sínum og enn frekar þegar hann er að toga kjarna eða lífsorku óvinanna úr þeim og hann er að spinna þræði frá þeim. Það er líklegt að þetta er ein af ástæðunum þess að leikurinn er einmitt í fyrstu persónu. Hönnun óvinanna „visitors“ er oft óhugnarleg og má sjá slenderman fígúrur, japanskar skólastúlkur án höfuðs, óhugnarlegum krakka í gulum regnkápum auk annarra skrímsla. Ég er því miður ekki nógu vel að mér í japönskum hryllingssögum til að vita nákvæmlega hvað þessar verur heita, en mér skilst að þau kallist Yōkai andar. Þrátt fyrir að vera leikur með hryllingsþema þá fannst mér mjög fáir kaflar leiksins eitthvað hrollvekjandi eða ná að bregða mér, annað en þegar ég spilaði The Evil Within sem náði að hrella mig oft mikið.
Í gegnum ferðalag þitt í Shibuya þá eru ótal andar svífandi um og getur þú safnað þeim saman með lítilli katashiro pappírsfígúru og sent í gegnum símaklefa (já, þið lásuð þetta rétt) og hjálpað öndunum að komast aftur í líkama sinn. KK var hluti af sérsveit sem sérhæfði sig í hinu dularfulla og er ýmis tækni því tengd falin um borgina sem Akito getur notað.
Leikurinn er það sem ég myndi kalla opinn heimur að hluta til. Þú hefur aðgang að Shibuya hverfi Tókýó og kemst ekki út fyrir það. Það er síðan grá banvæn þoka út um allt og eina leiðin að losna við hana er að hreinsa Torii hlið í hverfinu af illum öndum og stundum berjast við andstæðing til að hreinsa þau. Með þessu opnast hægt og rólega stærra svæði. Þú færð möguleikann að sveifla þér upp á háhýsi hverfisins með að krækja í vissa anda sem svífa yfir þeim. Leikurinn er uppfullur af merkjum á kortinu til að kanna, hluti til að safna og fleira í þeim dúr eins og svo margir aðrir slíkir opnir leikir.
Uppáhaldshluti minn í leiknum, fyrir utan hve vel Shibuya hverfið er uppbyggt, er líklega hundarnir og kettirnir í leiknum. Þú getur klappað ótal þeirra og einnig heyrt hugsanir þeirra. Hundarnir eiga til að vísa þér á peninga ef þú gefur þeim að borða á meðan kettirnir haga sér eins og sannir kettir og hafa lítinn áhuga á þér í stað meira hvað varð um þá sem gefa þeim að borða og veita klapp og kúr. Það eru síðan reyndar aðrir kettir sem eru í hverfisbúðunum sem þú getur talað við og verslað hjá og leyst stundum lítil verkefni fyrir. Það eru síðan ótal lítil helgiskrín og fígúrur til að biðja við til að fá bónus fyrir Akito.
Vandi Ghostwire: Tokyo er að hann er á köflum frekar miðlungs leikur, hann er engan veginn slæmur, en hann er ekki heldur byltingarkenndur og eftirminnilegur. Hann er vel gerður en á köflum frekar einhæfur í spilun og gerir ekki mikið nýtt. Á margan hátt er þetta leikur sem maður mælir með að fólk kaupi þegar hann er á tilboði. Þetta er fínasti leikur og vel þess virði að spila en núna þegar er nóg af stórum titlum sem hafa komið út á síðustu vikum þá er auðveldara að mæla með þeim og þessum síðan.
Það tók mig um 15 tíma að klára leikinn á PlayStation 5 og ná um 27 af 57 trophies í leiknum. Það er hægt að halda áfram að spila leikinn eftir að þú ert búinn með söguna og setur hann þig aðeins aftar í söguna á undan lokakaflanum. Svo það er þægilegt að fara til baka og grípa eitthvað sem þið misstuð af en einnig varar leikurinn þig við á vissum kafla að ef þú heldur áfram í sögunni þá lokast fyrir viss aukaverkefni svo ég hafði tíma að fara til baka og klára þau og halda síðan áfram. Það er klárlega 25-30 tíma spilun í boði fyrir þá sem vilja kreista allt úr leiknum sem hægt er.
Einn af sérkennilegri hlutum leiksins á PS5 er að leikurinn er með ótal grafík stillingar og er oft mjög flókið að fatta hvað þær gera í raun þar sem leikurinn er ekki með nógu góðar útskýringar í valmynd leiksins. Það eru 6 stillingar að velja úr og fleiri í raun ef að þú ert með sjónvarp sem styður við HDMI 2.1 staðalinn og 120hz eða 120fps möguleikann. Ég þurfti að slökkva á 120hz stillingunni í PS5 valmyndinni svo ég gæti valið 60fps stillingu með betri grafík og upplausn. Leikurinn getur oft verið fallegur að sjá þar sem hann r stað að nóttu til og í nær endalausri rigningu. Það að sjá Ray-tracing tæknina notaða er virkilega flott að sjá, verra hvað það er strembið að finna rétta stillingu til að njóta þess sem best.
Hérna er tengill á grein Eurogamer og Digital Foundry sem útskýrir þetta miklu betra en ég get gert hérna.
Ghostwire: Tokyo er fallegur leikur sem nýtir möguleika PS5 vélarinnar vel en mætti kafa dýpra í hryllinginn sem er í boði í þjóðsögum Japans í stað þess að fara hefbundinna og örugga leið með sögu og spilun leiksins. Ég mæli með að þið skoðið þennan nánar og sjáið til hvort að hann er eitthvað fyrir ykkur núna, eða þegar hann dettur á tilboð á PS5 eða Steam, eða á næsta ári á Xbox og GamePass þjónustu Microsoft. Vonandi í milli tíðinni fáum við fréttir frá Tango Gameworks að þeir eru að vinna að nýjum Evil Within eða öðrum leik.
Eintak af leiknum var fengið í gegnum útgefanda