Birt þann 14. september, 2018 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
Midgard ráðstefnan hefst á morgun!
Midgard er fyrsta íslenska ráðstefnan í anda Comic-Con þar sem nördar koma saman víðsvegar að til að hlusta á fyrirlestra, hitta persónur úr nördaheiminum, klæða sig upp í cosplay-búninga, spila og hitta annað fólk með svipuð áhugamál.
Á morgun hefst Midgard ráðstefnan í Laugardalshöll og stendur yfir alla helgina. Midgard er fyrsta íslenska ráðstefnan í anda Comic-Con þar sem nördar koma saman víðsvegar að til að hlusta á fyrirlestra, hitta persónur úr nördaheiminum, klæða sig upp í cosplay-búninga, spila og hitta annað fólk með svipuð áhugamál.
Fjölbreytt dagskrá er í boði. Hægt verður að fylgjast með víkingabardaga, taka þátt í spilamótum, hlusta á fyrirlestra um kvenkyns tölvuleikjaspilara, detta í djúpar Star Wars umræður, fylgjast með úrslitum í cosplay keppni, læra að spila spil á borð við Magic: The Gathering og Pokémon, hlusta á pallborðsumræður, skella sér á stand-up, fá upplýsingar um það helsta sem er að gerast í íslenska leikjaiðnaðinum í dag og margt margt fleira.
Meðal gesta í ár eru ofurnördið Hugleikur Dagsson, leikarinn Spencer Wilding sem fór meðal annars með hlutverk Svarthöfða í Star Wars Rogue One, Tom Vasel úr The Dice Tower, myndhöggvarinn og listamaðurinn Brian Ian Muir sem kom að gerð búnings Svarthöfða, ýmsir aðilar úr leikjaheiminum og kvikmyndaheiminum en hægt er að nálgasta lista yfir alla gesti og ræðumenn hér á heimasíðu Midgard.
Helgarpassi kostar 8.000 kr en einnig er hægt að kaupa passa sem gildir einn stakan dag og kostar hann 4.500 kr. Börn fá sérstakan afslátt og börn undir 8 ára aldri fá að fylgja ókeypis með þeim sem hafa náð 18 ára aldri. Allar nánari upplýsingar um verð, dagskrá og hátíðina almennt er að finna á heimasíðu Midgard, www.www.midgardreykjavik.is.
Nörd Norðursins verðum á staðnum og verður hægt að fylgjast með okkur á Snapchat, Instagram og auðvitað hér á síðunni okkar þar sem við munu birta myndir og fleira.
Við vonumst til að sjá sem flesta um helgina í Laugardalshöll!