Leikjarýni

Birt þann 11. september, 2018 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Leikjarýni: Spider-Man – Einn af betri leikjum ársins

Leikjarýni: Spider-Man – Einn af betri leikjum ársins Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Einn af toppleikjum ársins. Býður upp á skemmtilega opin heim og nær að tengja vel við Spider-Man sögurnar.

4.5

Frábær!


Ofurhetjan Spider-Man frá Marvel Comics hönnuð af Stan Lee og Steve Ditko á sér langa sögu, allt frá því að birtast í fyrsta sinn í Amazing Fantasy #15 árið 1962 yfir í ótal teiknimyndablöð, teiknimyndir, sjónvarpsþætti, þrjár mismunandi kvikmyndaseríur og ótal misgóðum tölvuleikjum í gegnum árin. Nú er komið að Insomniac Games sem hingað til hafa verið einna þekktastir fyrir Spyro, Ratchet & Clank og Resistance leikina. Þetta er ekki þeirra fyrsti leikur í opnum heimi, þeir gerðu einnig Sunset Overdrive sem kom út fyrir Xbox One árið 2014.

Eitt af því sem fólk tekur eftir þegar byrjað er á nýja Spider-Man leiknum að það er ekki byrjað á upprunasögunni eins og svo oft er gert. Peter Parker er 23 ára; búinn að vera Spider-Man í 8 ár og hefur barist við marga óvini á þeim tíma. Hann er að vinna sem vísindamaður fyrir Doctor Otto Octavius og á sama tíma að reyna að halda utan um sitt persónulega líf og vernda New York borg sem Spider-Man. Það eru hlutar leiksins sem einmitt kunnátta hans á vísindum kemur við sögu, og er gaman að leikurinn sýni Peter sem ótrúlega gáfaðan eintakling og það vinnur með þeim hæfileikum sem hann fær síðar á ævinni.

Sagan byrjar á flottan hátt með uppgjöri við Wilson Fisk (Kingpin).

Sagan byrjar á flottan hátt með uppgjöri við Wilson Fisk (Kingpin). Fangelsun hans leiðir til að það myndast tómarúm í borginni og ýmsir glæpamenn vilja nýta sér það til að græða peninga og sölsa undir sig veldi hans. Mr. Negative og Dreka hermenn hans koma snemma við sögu sem hefur áhrif á sögu leiksins. Fyrir þá sem kannast eitthvað við heim Köngulóamannsins og þær hetjur og skúrka sem þar er að finna,  þá er nóg að efni í leiknum.

Frænka Peter, May er auðvitað til staðar ásamt ástinni í lífi hans, Mary Jane en þau eru reyndar búin að vera hætt saman í um hálft ár þegar leikurinn byrjar. Hún er að vinna á gamla vinnustað Peters, The Daily Bugle, sem rannsóknarblaðamaður. Rannsóknir hennar á glæpaöldunni í borginni ýtir henni í átt að Spider-Man og auðvitað hættunni. Spider-Man er að vinna með lögreglufulltrúanum Yuri Watanabe í að leysa ýmsa glæpi sem lögreglan á stundum erfitt með að leysa vegna lagalegra flækja eða að ofurhetjuskúrkar eru að valda usla.

Klassískir óvinir eins og Electro, Shocker, Vulture, Rhino, Scorpion, Tombstone ásamt öðrum koma við sögu og eru höndlaðir virkilega vel að mínu mati. Það má síðan rekast á margar aðrar þekktar persónur eins og Norman Osborn sem er borgarstjóri New York (og auðvitað með eitthvað gruggugt í pokahorninu), ásamt Black Cat, Silver Sable, Miles Morales (úr Ultimate Spider-Man heiminum) og síðan flott „cameo“ sem ég vil ekki spilla.

Klassískir óvinir eins og Electro, Shocker, Vulture, Rhino, Scorpion, Tombstone ásamt öðrum koma við sögu…

Saga leiksins er sæmilega drjúg og kafar djúpt í heim Spider-Man og hvað það þarf til að vera hetja í borg þar sem margir hata þig eins og t.d J. Jonah Jameson, sem er orðinn útvarpsmaður og sparar ekki stóru orðin fyrir Spidey. Það eru hliðarverkefni til að kljást við þegar fólk vill fá hvíld frá sögu leiksins ásamt ótal smærri verkefnum sem er hægt að leysa. Allt þetta gefur þér hina ýmsu uppfærslupunkta til að nota til að bæta hæfileika Spider-Man, opna fyrir ný tæki til að nota gegn óvinum og síðan auðvitað búninga til að klæðast. Það eru hátt í 30 búningar sem er hægt að opna fyrir, sumir koma beint úr teiknimyndasögunum, á meðan aðrir koma úr nýjustu kvikmyndum Marvel eins og, t.d Avengers: Infinity War. Uppáhalds-búningurinn minn var líklega, Scarlet Spider. Sá búningur var notaður af Ben Reilly í hinu umdeilda Clone Saga sögulínu í teiknimyndablöðunum frá 1994-1996.

Með hverjum búningi er hæfileiki til að nota með að ýta á L3 og R3 á sama tíma þegar mælirinn er fullur t.d. að þú ert tímabundið skotheldur með Armor MK-II búningnum, Stark Suit kallar á lítið vélmenni að berjast með þér, Noir búningurinn kemur í veg fyrir að óvinir kalli á aðstoð þegar þeir sjá þig og Fear itself fjórfaldar skaðann sem þú veldur óvinum. Best við þessa krafta m.a. er að þú ert ekki bundinn viðeigandi búningi og kröftum. Ef þér langar að vera í Spider-Man 2099 búningnum en fá kraftana úr Iron Spider búningnum þá geturðu það. Þetta er góð leið til að leyfa fólki að finna þann leikstíl sem hentar vissum köflum leiksins og á sama tíma líta sem best út.

Að sveifla sér um New York borg er gríðarlega mikilvægur hlutur leiksins og eitthvað sem hinum mörgu Spider-Man leikjum í gegnum tíðina hefur gengið misvel að negla niður. Útgáfa Insomniac Games nær þessu nær fullkomnlega,

Að sveifla sér um New York borg er gríðarlega mikilvægur hlutur leiksins og eitthvað sem hinum mörgu Spider-Man leikjum í gegnum tíðina hefur gengið misvel að negla niður. Útgáfa Insomniac Games nær þessu nær fullkomnlega, það er viss tilfinning fyrir hraða þegar þú sveiflar þér og hvernig þú bætir í hann þegar þú hoppar fram að hárri byggingu og bíður með að sveifla nýjum vef þangað til að þú ert komin nær jörðinni til að byggja upp sem mestan hraða til að sveifla þér hærra og lengra. Flæðið þegar að þú sveifla þér um Manhattan-eyju, sögusviði leiksins, er mjög gott og þú finnur fyrir lítilli þörf á kerfi til að ferðast hraðar um borgina, þó það opnist fyrir þann möguleika þegar líður á leikinn og er þess virði að sjá, bara til að sjá hvernig íbúar New York bregðast við að sjá Spider-Man taka neðanjarðarlestina. Það er enginn hætta að drepa persónu þína ef þú klúðrar sveiflu eða stökki, það er ekki mikill missir að leikurinn sé ekki of raunveruleguri. Þetta er auðvitað fantasíuleikur og er skemmtileg leið að leyfa fólki að upplifa hvernig væri að vera Spider-Man.

Í stað þess að vera týpískar klisjur, þá eru stóru óvinir leiksins vel skrifaðir og þú færð góða tilfinningu fyrir af hverju þeir eru að gera þessa hluti, þó þú sért ekki endilega samála þeim eða þeirra plönum.

Persónusköpun leiksins og húmor er hvoru tveggja virkilega vel höndlað og eru stórir hlutar af þessum heimi. Spider-Man hefur ávallt verið duglegur að spýta út fyndnum „one-liners“ á versta tíma til að brjóta niður spennuna og nær leikurinn því vel. Í stað þess að vera týpískar klisjur, þá eru stóru óvinir leiksins vel skrifaðir og þú færð góða tilfinningu fyrir af hverju þeir eru að gera þessa hluti, þó þú sért ekki endilega samála þeim eða þeirra plönum. Frænkan May er fullkominn í leiknum að mínu mati og er nákvæmlega eins og hún á að vera, pínu eldri, með reynslu og visku og vill frænda sínum það besta í lífinu.

Tónlistin er á við góða kvikmyndatónlist og sómar sér vel þegar þú ert að sveifla þér um eða berjast. Þrátt fyrir ótal tíma í spilun þá verður hún ekki þreytandi eða pirrandi til lengdar.

Ein af helstu kostum leiksins er hvernig hann lítur út, að segja að hann sé gullfallegur, sérstaklega í HDR litunum og á PS4 Pro er líklega vægt til orða tekið. Persónur leiksins eru vel skapaðar og hreyfa sig og tala vel. Þú getur auðveldega lesið tilfinningar þeirra úr andlitinu og hjálpar þetta til við að sökkva sér dýpra inn í þennan heim og tengjast sögupersónum sterkari böndum. Hvort sem þú ert að fara um borgina í björtu sólarljósi eða í rigningu að nóttu til þá er leikurinn ávallt fallegur að sjá. Nákvæmisvinnan sem hefur verið lögð í heiminn er gríðaleg og sést það einna mest þegar þú ert niðri á jörðinni og gefur þér bara smá tíma að labba um götur New York og sjá öll litlu smáatriðin í heiminum, allt frá veggjakrotinu, hinum ýmsu búðum og ótal þekktum stöðum úr Marvel Comics heiminum, yfir í pyslusalann á horninu. Það er svo mikið af litlum hlutum til að finna og meta, sérstaklega ef fólk þekkir eitthvað til þessa heims. Ekki má gleyma að Spider-Man er á Twitter og getur þú skoðað það reglulega í leiknum og séð hvað yfir 15 milljón fylgjendur hans hafa að segja.

Skemmtileg viðbót við leikinn sem kom út á meðan við vorum að gagnrýna leikinn, er að Insomniac Games bættu við Photo Mode. Það er núna mjög auðvelt að taka flottar myndir í leiknum og setja þær upp á snyrtilegan hátt og senda vinum eða setja á helstu samfélagsmiðla.

Það er ljóst þegar barist er við hina ýmsu óvini leiksins að bardagakerfið er klárlega undir áhrifum Batman Arkham leikjanna. Það er visst flæði í bardögunum sem er auðvelt að detta í.

Það er ljóst þegar barist er við hina ýmsu óvini leiksins að bardagakerfið er klárlega undir áhrifum Batman Arkham leikjanna. Það er visst flæði í bardögunum sem er auðvelt að detta í. Þú kastar einum óvini uppí loftið og snögglega kastar vefsprengju á þann næsta til að festa hann við vegg, á meðan þú kastar þér í átt að næsta óvini til að afvopna hann og kastar síðan kassa í átt að öðrum. Ef eitthvað er þá fannst mér meira gaman af þessu en í Batman og hefur það líklega mikið að segja um hve fjölhæfur og lipur Spider-Man er. Það koma augnablik sem þú vilt ekki sjást eða berjast við of marga og þá er gott að sveifla sér á milli hárra staða, grípa óvini, vefja þá og draga upp án þess að vinir þeirra taki eftir neinu og þannig fækka þeim hratt niður til að vernda fólk í kringum þig. Það koma kaflar sem þú þarft að fara varlega og mátt ekki sjást, þá sérstaklega þegar þú spilar sem annar en Spider-Man. Þessir hlutar brjóta aðeins upp spilun leiksins og eru passlega langir en geta þó orðið smá pirrandi.

Það sama á við Spider-Man og Batman að mottó þeirra er að drepa aldrei neinn en þegar þú ert að berjast við óvini á 20 hæð og sparkar þeim fram af er ólíklegt að þeir lifi það af. Reyndar ef þú fylgist með og ferð þar sem þeir falla, þá eiga þeir að vera í vefi sem Spider-Man hefur kastað á eftir þeim. Mig langar ekki að vera sá sem þarf að leysa þá niður, eða benda þeim á að samkvæmt Spider-Man sjálfum þá á vefurinn að leysast upp eftir nokkra tíma og þá er ekki gott að vera fastur uppá hárri byggingu.

Það tekur líklega um 20-40 tíma að klára leikinn og síðan eru fjöldi hliðarverkefna í boði. Það er hægt að halda áfram að spila leikinn og klára aukadótið í honum eftir að sagan er búin. Ég myndi þó mæla með að tækla hliðarsögurnar (merktar með bláum tígli), á meðan þú ferð í gegnum leikinn. Leikurinn er virkilega vel slípaður að mestu, fyrir utan nokkur vandamál með að myndarvélin sem var ekki alveg að láta undir stjórn og geta smærri hliðarverkefni leiksins verið pínu einhæf, en leikurinn kemur mjög vel út sem heildarpakki. Það er eitthvað af QTE (quick time events) en aldrei of mikið og er hægt að fara í stillingarnar til að slökkva á þeim og einnig vissum þrautum ef þið eigið erfitt með þær.

Fyrir þá sem hafa gaman af skemmtilegum opnum leikjum og kannast eitthvað við Spider-Man sögurnar þá er leikurinn stórgóð skemmtun sem ætti að endast vel og skilja eftir bros á vör.

Þegar árið verður tekið saman þá verður Spider-Man ásamt God of War að slást um toppsætið á mörgum listum. Fyrir þá sem hafa gaman af skemmtilegum opnum leikjum og kannast eitthvað við Spider-Man sögurnar þá er leikurinn stórgóð skemmtun sem ætti að endast vel og skilja eftir bros á vör.

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑