Greinar

Birt þann 4. febrúar, 2018 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Xbox One X umfjöllun

Microsoft hefur tekið miklum breytingum frá eftir klúðurslega kynningu Don Mattrick, þáverandi forseta Xbox deilar Microsofts á Xbox One, árið 2013. Phil Spencer sem tók við af Mattrick sem höfuð deildarinnar hefur náð að rétta vel við kútnum á erfiðum tímum fyrirtækisins.

Kraftmesta leikjatölvan á markaðnum! Það er atriðið sem Microsoft hefur lagt mikla áherslu á í kynningum sínum á Xbox One X. Vélin er eins og PlayStation 4 Pro, hálfgerð millibils vél eða uppfærsla eins og fólk þekkir með farsímana.

Öðru sem hefur mikið verið fleygt fram eru teraflops. „Hvað er það eiginlega?“ spyrja örugglega flestir sig. Stutt og einföld skýring er aukinn kraftur á reiknigetu örgjörvans. Hljómar ekki beint spennandi, en þetta getur haft mikið að segja þegar kemur að leikjaupplifun þinni á sjónvarpsskjánum. Xbox One X er 6 teraflops, til samanburðar er venjulega PS4 1,84 teraflops, PS4 Pro er 4,14 og Xbox One 1,32 teraflops.

Eftir að hafa leitt síðustu kynslóð leikjatölva þurftu þeir að horfa upp á eftir Sony hirða það af þeim með kraftmeiri vél þar sem nær allir leikir frá þriðja aðila keyrðu betur á PS4.

Þegar horft er á töluna á upprunalegu Xbox One þá sést hver staða Microsofts var. Eftir að hafa leitt síðustu kynslóð leikjatölva þurftu þeir að horfa upp á eftir Sony hirða það af þeim með kraftmeiri vél þar sem nær allir leikir frá þriðja aðila keyrðu betur á PS4. Þessi staða var þyrnir í augum Microsofts og þegar kom af því að leika sama leik og Sony með PS4 Pro þá var öllu tjaldað til.

Xbox One X kom út í nóvember á síðasta ári, um ári eftir PS4 Pro. Sú vél er uppfærð útgáfa af PS4, með hærri klukkuhraða á örgjörva og skjákorti og býður auk þess uppá „allt að 4k“ upplausn með hjálp „checkerboard“ tækninnar í leikjum, flottari grafík og auknum rammahraða í sumum leikjum. Ekki var breytt innra minni hennar eða öðru, hún fékk þó 1 GB. af minni til að nota í ýmis verk sem gefur leikjum þá samtals 5,5 GB. til að notast við.

Vélin var þó ekki eins mikið stökk eins og margir vonuðust eftir og fannst mörgum Sony hafa klikkað að hafa ekki 4k UHD Blu-Ray drif í vélinni. Eitthvað sem er að finna í Xbox One S (slim) vélinni og Xbox One X. Microsoft sá sér leik á borði og bætti 4 GB. við innra minni vélarinnar, leikir geta þó bara notað 9 GB. af því. Það sést fljótt að aukið 3,5 GB. af minni er nóg til að auka gæði leikja bæði í útliti og hraða. Eitt af því sem þarf nóg af þegar er farið í 4k upplausn (eða nálægt því) er minni. Betra útlit krefst meira af minni.

Líklega það byltingarkenndasta við vélina að mínu mati er kælikerfið í henni. Hún er með sérhannaða vökvakælingu sem heldur hitanum niðri og keyrir vélina ótrúlega hljóðlátt. Það var talsverður munur að spila Wolfenstein 2: The Colossal Order á X vélinni eftir að hafa spilað hann á Pro þar sem viftan í vélinni verður frekar háværa á köflum, eitthvað sem gerist stundum með leiki með stórar áferðir (textures) á hlutum og umhverfi.

Aukinn kraftur og meira minni kostar auðvitað eitthvað aukalega og kostaði Xbox One X vélin um 79.999 kr. hér á landi við útgáfu. Til samanburðar er PS4 Pro um 20 þúsund krónum lægri í verði.

Aukinn kraftur og meira minni kostar auðvitað eitthvað aukalega og kostaði Xbox One X vélin um 79.999 kr. hér á landi við útgáfu. Til samanburðar er PS4 Pro um 20 þúsund krónum lægri í verði. Báðar vélarnar koma með 1 TB. hörðum disk, eitthvað sem manni finnst að mætti bæta úr, sérstaklega þegar við erum byrjuð að sjá tölvuleiki fara upp og yfir 100 GB. múrinn í stærð.

Eins og staðan er í dag sjá þeir sem uppfæra úr eldri vélum, PlayStation og Xbox, ekki mikinn mun. Enda er viðmót vélanna óbreytt, það er það sem er undir „húddinu“ sem hefur breyst. Þó að Xbox One X hamri á 4k upplausn þýðir það þó ekki að allir leikir keyri í þeirri upplausn. Mjög margir leikir í dag bæði á PS4 og Xbox One hafa möguleika í leikjavélum þeirra að hækka og lækka upplausn leiksins eftir hve mikið álag er á vélinni til að halda flæði leiksins góðu og trufla ekki spilun leiksins.

PS4 var kraftmikil fyrir svo að stökkið í Pro er ekki mjög mikið, ólíkt því að fara úr Xbox One í Xbox One X. Reyndar til að sjá þennan mun, sama hvort um ræðir PS4 Pro eða Xbox One X, þá er sjónvarp sem styður 4k upplausn og HDR (aukna liti, betri skugga og birtu) algjört skilyrði til að fá eitthvað úr kaupunum. Án sjónvarpsins er erfitt að mæla með kaupum á vélunum.

Leikir eins og Forza Motorsport 7 keyra í alvöru 4k upplausn og á 60 römmum á sek. Gears of War 4 leyfir þegar að spila leikinn í 4k upplausn eða í 1080p í allt að 60 römmum í stað 30.

Hvað græðir maður svo á að fá sér Xbox One X? Svo lengi sem þú ert með sjónvarp sem er tveggja ára eða yngra þá er það bara frekar mikið. Leikir eins og Forza Motorsport 7 keyra í alvöru 4k upplausn og á 60 römmum á sek. Gears of War 4 leyfir þegar að spila leikinn í 4k upplausn eða í 1080p í allt að 60 römmum í stað 30. Assassin’s Creed: Origins er með betri hleðslu á heiminum svo hægt er að sjá lengra í burtu. Middle Earth: Shadow of War keyrir í hærri upplausn en á PlayStation 4 og skartar betri áferð (textures) í leikjum og nálægt því sem þekkist í öflugri PC vél.

Microsoft lagði áherslu á að kynna alla þá leiki sem kæmu út „Enhanced for Xbox One X“ við útgáfu vélarinnar eða fengu plástra til að bæta við hlutum eins og HDR, 4K upplausn o.fl. Það er fínn listi hérna frá Microsoft sem sýnir þá leiki sem hafa fengið uppfærslur og hvað er í þeim og einnig hvaða leikir eiga enn von á þeim. Síðan má gera ráð fyrir því að allir leikir sem koma út á þessu ári munu styðja X vélina með einhverjum hætti.

Ekki má samt gleyma að margir af þessum sömu leikjum sem komu út á PlayStation 4 styðja ýmsa hluti eins og HDR og 4k „checkerboard“ eða fulla 4k upplausn. Ég hef t.d spilað Assassin’s Creed: Origins á PS4 Pro í 4k sjónvarpi og verð að segja að hann lítur stórfenglega út, sérstaklega með HDR auknu litina sem bæði PS4 og PS4 Pro styðja og reyndar Xbox One S líka.

Hvað er 4k upplausn og „checkerboard rendering?“

4k upplausn er að myndin á skjánum er í 3840x2160p. Fyrri talan er breiddin og síðari hæðin á skjánum. „Checkerboard“ er aftur á móti þegar pixlum er breytt og upplýsingar úr nokkrum römmum leiksins er raðað saman úr t.d 1080p mynd yfir í hreina mynd sem er nærri 4k upplausn í gæðum. Þetta er þó ekki fullkomið og hægt er að sjá viss merki þess á myndinni ef þú leitar eftir því. Fyrir flesta er þetta ekkert sem mun nokkur tíman trufla spilunina.
Mynd: beebom.com

Þeir sem eru með Dolby Atmos hljóðkerfi geta fengið enn betri hljóð úr leikjum sem styðja það ásamt þeim 4k UHD Blu-Ray diskum.

Það er gáfulegt að kaupa utanliggjandi harðan disk við vélarnar, sama hvort sem þið eigið PS4 Pro eða Xbox One X. Leikir eins og Forza 7, Gears 4 og Halo 5 taka frá 60-110 GB. svo þessi 900 GB. sem fólk hefur aðgang að eru fljót að fara. Microsoft og Sony hefðu mátt splæsa í stærri diska. En til allrar lukku eru báðar vélarnar með stuðning fyrir utanliggjandi diska.

Eitt af því sem Microsoft hefur gert til að aðgreina Xbox One frá PlayStation 4 er að bæta við stuðningi við eldri tölvuleiki af Xbox 360 vélinni, og nú nýlega upprunalegu Xbox.

Eitt af því sem Microsoft hefur gert til að aðgreina Xbox One frá PlayStation 4 er að bæta við stuðningi við eldri tölvuleiki af Xbox 360 vélinni, og nú nýlega upprunalegu Xbox. Það dugar að eiga leikjadiskinn og stinga honum í drifið og tölvan sér um að hlaða niður útgáfu af leiknum sem keyrir á Xbox One og er diskurinn notaður sem hálfgerður lykill fyrir leikinn. Skyndilega hefur fólk aðgang að hátt í 300 aukaleikjum, það eina sem það þarf að gera er að grafa í geymslunni eða kaupa notað eintak til að spila gamla og góða leiki.

Ekki sakar síðan að margir af þessum leikjum keyra betur en þeir gerðu á Xbox 360 og upprunalegu Xbox. Xbox One X eigendur fá síðan auka glaðning í formi aukins stuðnings við vissa leiki sem geta núna keyrt í 4k upplausn og jafnvel útlitsviðbótum. Þetta á til dæmis við um leikina Halo 3, Fallout 3, Assassin’s Creed, The Elder Scrolls IV: Oblivion, Gears of War 3, Skate 3 og Mirror’s Edge.

Stóra málið hjá Microsoft er hvort þeir nái að sannfæra framleiðendur til að búa til leiki eingöngu fyrir þeirra leikjavél og hvort þeir eru tilbúnir að fjárfesta í hönnum leikja innanhúss líkt og Sony hefur gert svo vel síðastliðin ár. Þegar upp er staðið eru það auðvitað tölvuleikirnir sem fólk er að sækjast eftir, og oft þá leikir sem eingöngu er hægt að spila á vissri vél.


Fyrir hvern er svo vél eins og Xbox One X?

  • Ég myndi segja þá allra kröfuhörðustu með nýjustu tæknina sem vilja fá leikina í sem bestu gæðum og á stórum skjá.
  • Fyrir þá sem eru að hugsa um 4k UHD Blu-Ray diska þá eru bæði Xbox One S og Xbox One X vélarnar með slíkt drif og geta einnig streymt 4k efni í gegnum YouTube, Netflix og fleiri þjónustur.

Fyrir hvern er vélin ekki?

  • Fyrir þá sem eru enn með 1080p sjónvörp. Semsagt það sem hefur verið selt síðustu 8 plús árin. Þá er alveg nóg að halda í
    Xbox One eða Xbox One S vélarnar ykkar.
  • Ef þið hafið lítinn áhuga að 4k efni hvort sem er streymt eða ekki. Eigið kraftmikla PC vél.
  • Ef leikirnir frá Microsoft heilla ekki eins og aðrir frá samkeppnisaðilanum.

Fyrir mínar sakir er ég mjög sáttur við vélina og þann aukna kraft og betri grafík sem vélin bíður uppá. Ég geri mér reyndar líka grein fyrir að ég er ekki hefðbundinn leikjaspilari og fyrir flesta er þetta kannski óþarfa hopp frá því sem þeir hafa verið að notast við frá þessi kynslóð leikjavéla byrjaði.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑