Leikjarýni

Birt þann 13. september, 2016 | Höfundur: Steinar Logi

Leikjarýni: World of Warcraft: Legion

Leikjarýni: World of Warcraft: Legion Steinar Logi

Samantekt: Fín viðbót sem sýnir að WoW er ekki dautt úr öllum æðum enn.

4

Nostalgía


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Warlords of Draenor, viðbótin sem kom á undan Legion, fékk góðar viðtökur í fyrstu. Sjálfur keypti ég WoD löngu eftir útgáfu og spilaði í nokkrar vikur en það vantaði eitthvað til að halda manni lengur en það, þetta varð frekar einmanalegt og aðeins of mikið um endurtekningar. Flestir eru sammála að Blizzard stóð sig ekki alveg nógu vel að halda henni lifandi. Ég bjóst við að þetta væru endalokin milli mín og World of Warcraft en eins Sisyfus  þá byrjaði ég að ýta steininum aftur upp brekkuna eftir að hafa heyrt góða hluti um Legion.

Það er mun meira lagt upp úr sögunni núna miðað við WoD. Gul’dan snýr aftur sem og galdrakallinn Khadgar en einnig eru þarna flestar frægustu persónur Warcraft heimsins. Söguþráðurinn er miklu þéttari, það er mikið um óvæntar fléttur og þessi áhersla á sögu skilar sér inn á flesta þætti leiksins. Núna lendir maður í ævintýrum við að byggja upp starfsiðn sína (tradeskill) og að byggja upp goðsagnarkennda vopnið sitt, maður er ekki lengur fastur í sínum herbúðum að endurtaka eitthvað aftur og aftur heldur er mun meira á ferðinni. Við þetta bætist heimsverkefni “world quests” þegar maður nær styrkleika 110 sem láta mann fá ýmis verðlaun og byggja upp traust hjá ákveðnum hópum (reputation).

wow_legion

Það er mun meira lagt upp úr sögunni núna miðað við WoD

Það að geta þróað sitt eigið vopn, sem öll eiga sterkan bakgrunn í Warcraft heiminum (rétt eins og allir vita hvað Excalibur er) bætir miklu við leikinn. Sjálfur spila ég aðallega galdranotanda (mage) og allar þrennar leiðir (arcane, fire, frost) hafa sitt fornfræga vopn og það sama gildir um allar aðrar leiðir. Til að vega á móti einsleitninni, því að allir verða á endanum með sama vopnið innan síns klassa, þá er hægt að velja lit og breytt útlit seinna. Samhliða þessu fá allir klassar sinn eigin samastað þar sem þeir geta þróað vopnað sitt og sent fylgismenn í ákveðin tímastillt verkefni (tíminn líður utan leiksins og hægt er að fá yfirsýn með símaappi, WoD spilarar kannast við þetta)

Það eru ekki bara gamlar hetjur og skúrkar sem poppa upp heldur líka alls konar verur sem maður hefur ekki séð lengi. Það er semsagt mikið spilað upp á nostalgíu og það er líklega ástæðan fyrir góðum viðtökum því að það eru margir gamlir WoW spilarar enda leikurinn á sínu tólfta aldursári. Núna fær maður að spila þessa ofursvölu Djöflaveiðara (Demon Hunters) sem tilheyra Illidan Stormrage og við fáum sögu þeirra frá atburðunum í Burning Crusade viðbótinni fyrir 10 árum og eftir það þá byrja þeir á styrkleika 100. Blizzard splæsir líka í að maður getur uppfært karakter að eigin vali upp í styrkleika 100.

Núna fær maður að spila Djöflaveiðara (Demon Hunters)

Það er lyginni líkast hvernig Blizzard nær að halda heiminum stílhreinum og fallegum miðað við aldur leiksins. Listrænn frágangur er til fyrirmyndar og spilar góð litasamsetning og lýsing mikið inn í og tónlistin skemmir ekki fyrir. Það er meira um raddleik og margt af því er gott en sumt ekki, hugsanlega vegna blöndu af reyndum raddleikurum og ekki svo reyndum. Einnig hafa þeir frískað upp á útlit karaktera fyrir einhverjum árum sem endist þokkalega.

Sem spilari með takmarkaðan tíma þá er efnið meira en nóg til að sakna ekki sex þúsund kallsins. Nýju svæðin eru stór og það er eitthvað að gerast á hverjum fermetra, reyndar hafa spilarar verið að finna mjög vel falin leyndarmál þannig að það borgar sig að skoða sig um (það er líka mikið af fjársjóðum út um allt rétt eins og í WoD). Það bætast við ýmis verkefni þegar maður nær hámarksstyrkleika 110 og vonandi halda Blizzard partýinu gangandi betur en þeir gerðu fyrir WoD með góðum plástrum (plástur 7.1 er á leiðinni og lofar góðu).

Þessi viðbót kemur skemmtilega á óvart og nær að draga mann aftur inn

Það var ekki svo langt síðan að ég hélt að ég myndi ekki spila WoW aftur en Legion fékk það góðar viðtökur að ég sló til. Þessi viðbót kemur skemmtilega á óvart og nær að draga mann aftur inn. Síðan kemur í ljós hvað maður endist lengi, sem er líka undir Blizzard komið, en þetta lofar ansi góðu.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑