Birt þann 11. júlí, 2016 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
Umfjöllun: Pebble Time Steel snjallúrið
Undanfarna tvo mánuði hef ég verið að nota Pebble Time Steel snjallúrið. Á þessum tíma hef ég náð að prófa möguleika úrsins og ætla í þessari samantekt að fara yfir helstu kosti og galla úrsins ásamt því að útskýra í grófum dráttum við hverju Pebble Time Steel notendur mega búast við af úrinu.
KOSTIR
Kostir Pebble Time Steel eru margir. Tveir helstu kostir snjallúrsins eru klárlega líftími batterísins og sú staðreynd að úrið er vatnshelt.
Kostir Pebble Time Steel eru margir. Tveir helstu kostir snjallúrsins eru klárlega líftími batterísins og sú staðreynd að úrið er vatnshelt. Hefðbundin hleðsla á mörgum snjallúrum í dag er gjarnan á bilinu hálfur sólahringur upp í einn eða tvo, en það fer algjörlega eftir tegund og því hve mikið úrið er notað. Þetta þýðir að úrið er yfirleitt í hleðslu á næturnar.
Pebble Time Steel er fljótt að fullhlaða sig og endist hleðslan lengi. Ég nota úrið nokkuð mikið yfir daginn; fæ meðal annars tilkynningar frá Facebook og Twitter, SMS skilaboð, símhringingar og stillti auk þess úrið þannig að ég fékk allar helstu upplýsingar úr leikjum EM í fótbolta beint í úrið. Úrið er yfirleitt fullhlaðið hjá mér á 1-2 klukkustundum og hefur hver hleðsla enst í kringum 7 heila daga. Þar sem ég þarf ekki að hlaða úrið á næturnar hef ég látið það fylgjast með nætursvefninum hjá mér og fæ þannig yfirlit yfir svefnvenjur og djúpsvefn. Úrið er eins og áður sagði vatnshelt og þolir sundspretti og sturtuferðir vel. Það er stór plús að þurfa ekki að hafa áhyggjur af úrinu þegar það rignir eða á meðan uppvaski stendur.
Aðrir kostir við úrið varða útlit og öpp. Það er gott úrval til af útlitum fyrir úrið þar sem hægt er að stilla hvernig tíminn birtist á úrinu og hvort aðrar upplýsingar birtast samhliða því – til dæmis veðurupplýsingar, skrefafjöldi, kaloríutalning, líftími batteríis, dagsetningar og fleira. Það er algjörlega í höndum notandans hvað birtist á snjallúrinu og hvernig. Úrval appa er nokkuð gott þó svo að endurnýjun á öppum á Pebble Store er einstaklega hæg. Meðal annars er hægt að sækja app til að halda utan um áfengisdrykkju, vatnsdrykku, veðurspá, úrslit íþróttaleikja, fréttir og fleira. Einnig er hægt að svara SMS skilaboðum og bæta við minnismiðum með því að tala beint í úrið sem getur verið mjög hentugt.
Úrið tengist við snjallsíma með Bluetooth og er nauðsynlegt að úrið sé tengt við símann svo allt virki sem skildi. Pebble Time Steel virkar bæði með iPhone og Android símum en ég prófaði úrið eingöngu með Android síma. Með auðveldum hætti er hægt að tengja úrið við Google Calendars dagbókina og þannig hægt að fá yfirlit yfir viðburði með fljótlegum hætti.
GALLAR
Skjárinn er e-paper skjár sem hefur sína kosti og galla. Skjárinn er ekki eins bjartur og litaglaður líkt og skjárinn á snjallsímanum en á móti notar e-paper skjárinn mun minna batterí en margar aðrar týpur. Þetta getur verið ákveðinn mínus þegar maður sækist eftir björtum og líflegum litum.
Úrið er mjög háð símanum og varð ég meðal annars fyrir því óláni að vera erlendis og splúndra símanum mínum. Þetta varð til þess að úrið sýndi mér rangan tíma og gat ég ekki breytt tímanum nema í gegnum símann, svo ég þurfti að reikna út hve rangt úrið mitt var í klukkutímum og mínútum talið og reikna réttan tíma út sjálfur þar til ég tengdist síma.
Endurnýjunin á Pebble Store, þar sem notandinn sækir öpp, leiki og velur útlit (watchface) fyrir úrið er hræðilega hæg.
Endurnýjunin á Pebble Store, þar sem notandinn sækir öpp, leiki og velur útlit (watchface) fyrir úrið er hræðilega hæg. Til að byrja með er þetta nokkuð spennandi en auðvelt er að fara yfir allt það helsta á einum degi og þá geta liðið vikur eða mánuðir þar til eitthvað nýtt og spennandi birtist á Pebble Store.
Annað sem gott er að taka fram er að skjárinn er yfirleitt í hvíld og í myrkri er nauðsynlegt að ýta á takka (eða snúa ristinni snögglega) til að fá baklýsingu á skjáinn til að sjá hvað tímanum líður. Einnig er Pebble Time Steel, líkt og önnur Pebble snjallúr, ekki með snertiskjá, heldur notast við hliðartakka til að flakka á milli valmynda. Þessir tveir þættir eru í rauninni hvorki kostur né galli, heldur smekksatriði.
PEBBLE TIME STEEL KASSINN OPNAÐUR
Upptaka frá því þegar Pebble Time Steel kassinn var opnaður. Farið yfir hvað fylgir með úrinu.
UPPFÆRSLA OG ANNAÐ ÚTLIT
Til eru nokkrar mismunandi útgáfur af Pebble Time, þar á meðal Pebble Time, Pebble Time Steel, Pebble Time Round (sem er kringlótt úr með lélegra batteríi), og nú er verið að vinna að gerð Pebble Time 2 sem verður með stærri skjá og púlsmæli, sem mörgum skokkurum hefur þótt vanta í úrið. Tegundirnar eru misdýrar og með sína kosti og galla þó þau byggi öll á sömu beinagrindinni. Hægt er að skoða yfirlit yfir mismunandi gerðir Pebble snjallúra hér á heimasíðu Pebble.
NIÐURSTAÐA
Á heildina lítið er Pebble Time Steel gott, einfalt og eigulegt snjallúr. Úrið bætir ekki miklu við snjall-lífið heldur virkar frekar sem þægileg og skemmtileg framlengin á snjallsímanum þínum. Það er þægilegt að sjá strax hver var að senda þér skilaboð án þess að þurfa að taka upp símann, eða fá GPS ferðaupplýsingar beint í úrið þitt úr Google Maps navigation. Þetta eru ekki lífsnauðsynlegar upplýsingar, en oft þægilegt og skemmtilegt. Kostir úrsins eru hiklaust mun fleiri en gallarnir. Það er óhætt að mæla með þessu úri en ekki búast við því að úrið eigi eftir að gjörbreyta lífi þínu.