Menning

Birt þann 13. maí, 2016 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Vill gera heimildarmynd um ris og fall vídeóspólunnar á Íslandi

Óli Gneisti Sóleyjarson, bókasafns- og upplýsingafræðingur og höfundur Kommentakerfisins, hefur hrint af stað fjáröflunarsíðu á Karolina Fund fyrir gerð heimildarmyndar um ris og fall vídeóspólunnar á Íslandi. Óli óskar eftir 3.500 Evrum (u.þ.b. 500.000 kr.) svo hægt sé að gera heimildarmyndina og gefa hana út á netinu. Kostnaðurinn samanstendur af rannsóknarvinnu, uppsetningu, viðtölum, klippingu og öðrum tæknilegum atriðum, auk útgáfu og dreifingu myndarinnar.

Í verkefnalýsingu segir Óli að miklar deilur hafi fylgt þessari nýju tækni:

„Þegar myndbandstæknin hóf innreið sína á Íslandi var samfélagið allt annað en það er í dag. Það átta sig ekki allir á hve miklar deilur fylgdu tækninni. Fyrstu árin var mikið tekist á um meinta sjóræningjastarfsemi af ýmsu tagi. Þá hafði fólk miklar áhyggjur ofbeldi í kvikmyndum og voru jafnvel kvikmyndir sem í dag teljast klassískar settar á bannlista og gerðar upptækar. Síðan fylgdi klámið auðvitað með.

En myndbandstæknin varð hversdagsleg. Það að taka sér spólu var hefð, athöfn, sem ótalmargir tengja sig við. Myndbandaleigur voru hluti af dægurmenningunni en eru núna komnar á jaðarinn.

Hægt og rólega gátu menn líka byggt upp eigið kvikmyndasafn. Það var hægt með því að kaupa kvikmyndir á spólum eða með því að taka upp myndir úr sjónvarpinu. Í dag virðast þessi söfn vera orðin verðlaus og gagnslaus, einfaldlega ruslahaugamatur.“

Þeir sem styrkja verkefnið um 3.550 kr. eða meira fá að niðurhala stafrænu eintaki af myndinni þegar hún verður tilbúin. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um verkefnið og styrkja það hér á Karolina Fund. Hér fyrir neðan má svo sjá kynningarmyndbandið fyrir verkefnið.

Mynd: Wikimedia Commons

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑