Fréttir

Birt þann 22. apríl, 2016 | Höfundur: Nörd Norðursins

Kickstarter hópfjármögnun á nýjum íslenskum tölvuleik

Leikur eftir íslenskan leikjahönnuð var að byrja hópfjármögnun á vefnum Kickstarter síðastliðinn miðvikudag. Leikurinn, Sumer, er byggður á menningu Súmera í Mesópótamíu til forna og er tölvuleikur með borðspilaívafi. Í janúar var sérstaklega minnst á Sumer sem framúrskarandi leik í flokki nemendaleikja hjá Indie Game Festival, stærstu verðlaunahátíðar sjálfstæðra leikjaframleiðenda í heiminum. Leikurinn var síðan einn af fimmtán nýjum „indie“ leikjum sem var sýndur af Indie Megabooth á GDC, stærstu ráðstefnu leikjaframleiðenda í heimi, í mars. Sumer hefur einnig vakið athygli í tölvuleikjasamfélaginu í New York og var tilnefndur í flokki Best Gameplay á verðlaunahátíð Playcrafting NYC.

Leikurinn er nú kominn á Kickstarter til að fjármagna lokavinnu til útgáfu leiksins og til að bæta netspilun við leikinn.

Sigursteinn J. Gunnarsson, sem er einn af hönnuðum og framleiðendum Sumer, lauk meistaraprófi í leikjahönnun frá New York University vorið 2015. Leikurinn átti upphaf sitt sem lokaverkefni Sigursteins og þriggja samnemenda hans en hefur þróast hratt síðasta eina og hálfa árið. Sigursteinn vinnur að leiknum á Íslandi en er í stöðugu sambandi við vinnufélaga sína í Bandaríkjunum.

Þegar þessi frétt er birt hefur verkefnið náð að safna $9.600 af takmarkinu sem er $25.000.

STIKLA ÚR SUMER

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑