Birt þann 30. desember, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins
Kvikmyndarýni: Star Wars: The Force Awakens – „Stjörnustríð hefur snúið aftur, beibí“
Samantekt: Gamlar og nýjar hetjur, hið góða á móti því illa og geislasverðsbardagar. Stjörnustríð hefur snúið aftur, beibí.
5
Frábær!
Steinar Logi skrifar:
Það er erfitt að forðast spilla fyrir stórmynd eins og The Force Awakens á tímum samfélagsmiðla en þessi gagnrýni leitast við að vera spilla-laus eða því sem næst. Undirritaður er einn af þessum viðkvæmu, helst vildi ég ekki vita hvaða leikarar eru í myndinni fyrirfram en það er ómögulegt. Þannig að Twitter var ekki opnaður, Twitch spjall var alltaf lokað og maður kom ekki nálægt fjölspilunarleikjum með spjalli. Ef þú ert í þessum sporum þá er hérna stutt gagnrýni: Farðu á hana, hún er vel þess virði og kemur vel út í 3D. En það eru góðar líkur á því að þú, kæri lesandi, hafir þegar séð hana þar sem aðsóknartölur á Íslandi og annars staðar eru þegar fáránlega háar.
Myndin gerist u.þ.b. 30 árum eftir atburði Return of the Jedi og gömlu hetjurnar hafa allar farið sínar leiðir. Það er komið nýtt og mjög öflugt stórveldi sem heitir The First Order en eins og áður þá er það Andspyrnan sem berst á móti þeim. Sagan endurtekur sig svo sannarlega í SW:TFA. Leia, sem stýrir Andspyrnuhernum, telur það vera lykilatriði að finna bróður sinn, Loga, til að hafa möguleika í þessu óumflýjanlega stríði. Inn í þetta fléttast nýju persónur; Finn, liðhlaupi frá stormsveitunum og Rey, dularfull stúlka sem við fáum ekki að vita mikið um í fyrstu.
Ef maður þyrfti að benda á helsta veikleika FA væri það sagan en það er mikið af spurningum sem manni finnst ósvaraðar og sumt sem manni finnst ólíklegt, jafnvel í þessum heimi þar sem alltaf er verið að gera ólíklega hluti. En eitthvað af þessu er eflaust með vilja gert og svörin koma seinna. Það er augljóslega mikið lánað frá elstu Star Wars myndunum (kaflar 4-6) og hægt er að færa rök fyrir því að þetta sé nokkurs konar endurgerð af fyrstu myndinni sem kom út þ.e.a.s. Episode 4: A New Hope. Það er samt rökrétt strategía hjá J.J. Abrams að leita til upprunalegu myndanna, sérstaklega í ljósi klúðursins sem var síðustu þrjár myndirnar leikstýrðar af George Lucas. Með þessu þá fær nýja kynslóðin allt það sem gerði Stjörnustríð svona vinsælt upprunalega og eldri kynslóðirnar fá að upplifa nostalgíuna aftur. Nú lendir það á næstu leikstjórum að koma með eitthvað frumlegra því að það er búið að taka fyrsta skrefið og byggja heiminn og karakterana. Boltinn er næst hjá þér, Rian Johnson.
Star Wars hefur alltaf snúist um karakterana og þetta gerir J.J. Abrams sér grein fyrir. Han Solo, Leia Prinsessa og Logi eru eftirminnilegar persónur og nýju leikararnir hafa alla burði til að halda áfram að skapa eins eftirminnilegar persónur í næstu myndum eins og þau gera í þessari.
Star Wars hefur alltaf snúist um karakterana og þetta gerir J.J. Abrams sér grein fyrir. Han Solo, Leia Prinsessa og Logi eru eftirminnilegar persónur og nýju leikararnir hafa alla burði til að halda áfram að skapa eins eftirminnilegar persónur í næstu myndum eins og þau gera í þessari. Daisy Ridley sem Rey stendur sig ótrúlega vel. Þessi breska leikkona er mjög sannfærandi sem nokkurs konar afbrigði af Loga geimgengli en í stað þess að vera strákur á bóndabýli sem hundleiðist þá hefur Rey greinilega haft erfiða æsku og þurft að sjá um sig sjálf mestallt sitt líf. Leikhæfileikar Daisy nýtast mjög vel, sérstaklega í upphafi myndar þegar hún er kynnt til sögunnar en einnig er hún mjög sannfærandi í spennu- og bardagaatriðunum.
John Boyega stendur sig einnig mjög vel sem hinn aðalleikarinn og á það sameiginlegt með Daisy að áhorfandinn er strax á þeirra bandi. Þau ná mjög vel saman og eftir algert húmorsleysi síðustu þriggja myndanna þá er ánægjulegt að þessi mynd hefur nokkur mjög fyndin atriði og oft er það John Boyega sem Finn að þakka. Harrison Ford kemur líka mjög sterkur inn og hefur ekki tapað gamla sjarmanum. Reyndar er leikarahópurinn allur mjög góður og þar með talið vondu kallarnir, ég var sérstaklega ánægður með hinn nýja „Svarthöfða“ en þar er ekki fyrr en í lok myndarinnar sem maður raunverulega sér hversu vel hann stendur sig.
Myndin lítur hreint stórkostlega út og það sem betra er, heimurinn virkar raunverulegur. Það þykir ekkert tiltökumál lengur að hluti myndar eins og þessar var tekin upp á Íslandi, nánar tiltekið við Kröflu og Mývatn en einnig á Írlandi og Rub’al Khali eyðimörkinni við Abu Dhabi. Þetta skilar sér vel því að staðsetningarnar virka sannfærandi. Tæknibrellurnar standa líka fyrir sínu og það er þetta eftirsótta jafnvægi milli þessara tveggja þátta sem næst hérna, ekki ólíkt Mad Max: Fury Road. Allt í kringum orrustuvélarnar, stóru geimförin og atriðin tengd þeim er bara hrein fullkomnun.
Fyrir undirritaðan þá er þetta ein af tveimur bestu myndum ársins. Mad Max: Fury Road gerði nýja hluti og var frumlegri en SW:TFA gefur þér allt sem þú vildir frá nýrri Star Wars mynd og meira til. Það sem Force Awakens hefur hugsanlega umfram er að maður á eftir að horfa á hana aftur… og aftur… og aftur. Hún er ekki fullkomin, það eru göt í sögunni sem maður klórar sér smá í hausnum yfir en sem heild nær hún öllu því sem gerði Stjörnustríð að því ofurvinsæla fyrirbæri sem það er í dag. Gamlar hetjur, nýjar hetjur, hið góða á móti því illa, skrýtnar geimverur, nýtt vélmenni (droid) með karakter, geislasverðsbardagar, X-wing á móti TIE fighter, einnar-línu brandarar og frábært landslag. Stjörnustríð hefur snúið aftur, beibí.