Birt þann 29. júlí, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Leikjarýni: Batman: Arkham Knight
Samantekt: Fjölbreytt spilun og grípandi söguþráðir. Þetta er klárlega einn af betri leikjum ársins.
4.5
Mjög góður
Bjarki Þór Jónsson skrifar:
Breska tölvuleikjafyrirtækið Rocksteady hefur svo sannarlega gert góða hluti með Batman: Arkham leikjaseríunni. Árið 2009 kom fyrsti leikurinn í seríunni, Batman: Arkham Asylum, út og síðan þá hefur nýr Batman: Arkham leikur bæst við seríuna á u.þ.b. tveggja ára fresti; Batman: Arkham City árið 2011, Batman: Arkham Origins árið 2013 og Batman: Arkham Knight sem kom út á þessu ári. Nýjasti leikurinn er fáanlegur á PC, PlayStation og Xbox One og er væntanlegur á OS X og Linux síðar á þessu ári.
Þessi gagnrýni byggir á PS4 útgáfu leiksins, en PC útgáfa leiksins hefur hlotið blendna dóma eftir að í ljós kom að sú útgáfa reyndist vera full á villum og var leikurinn óspilanlegur fyrir marga PC notendur. Verið er að vinna í að uppfæra og laga leikinn fyrir PC.
Batman: Arkham Knight gerist níu mánuðum eftir Arkham City og í honum berst Batman gegn ofurillmenninu Scarecrow, og hans illu plönum í meginsöguþræði leiksins. Önnur vel þekkt illmenni koma við sögu í aukaverkefnum og ber þar helst að nefna Penguin, Two-Face, Harley Quinn og The Riddler. Það tekur í kringum 12 – 15 klukkutíma að spila aðalsöguþráð leiksins og álíka marga klukkutíma í að klára þau fjölmörgu aukaverkefni sem eru í boði. Aukaverkefnin eru allt frá því að stoppa bankarán yfir í að leysa þrautir sem The Riddler hefur lagt fyrir Batman.
Sagan er virkilega vel skrifuð og nær að halda spilaranum föstum við skjáinn. Leikurinn er ótrúlega flottur og nær að blanda saman því besta úr heimi kvikmynda og tölvuleikja með hágæða grafík, hljóði, sögu og framsetningu.
Sagan er virkilega vel skrifuð og nær að halda spilaranum föstum við skjáinn. Leikurinn er ótrúlega flottur og nær að blanda saman því besta úr heimi kvikmynda og tölvuleikja með hágæða grafík, hljóði, sögu og framsetningu. Talsetningi leiksins er mjög vel heppnuð þar sem reynsluboltar fá að njóta sín. Kevin Conroy talar inná fyrir Batman, John Noble fyrir Scarecrow og Jedi meistarinn mikli Mark Hamill talar inná fyrir The Joker. Í leiknum hittir Batman svo nokkra samherja sem taka þátt í völdum verkefnum með Batman og getur spilarinn þá skipt á milli þess að vera Batman og samherji hans, þar á meðal Robin, Nightwing og Catwoman.
Leikurinn gerist í Gotham borg og getur Batman ferðast um borgina með sínum hætti, meðal annars með bílnum sínum, fótgangandi eða fljúgandi um borgina með aðstoð leðurblökuskikkjunnar – sem er klárlega besta, fljótlegasta og skemmtilegasta leiðin til að ferðast á milli staða. Enda er útsýnið yfir borgina ótrúlegt flott. Gotham er stór borg og ótrúlega flott að sjá hvernig leikjahönnuðir hafa passað upp á smáatriðin í umhverfi leiksins til að gera allt sem raunverulegast.
Gotham er stór borg og ótrúlega flott að sjá hvernig leikjahönnuðir hafa passað upp á smáatriðin í umhverfi leiksins til að gera allt sem raunverulegast.
Borgin er dimm og drungaleg, líkt og Gotham á að vera. Verkefni Batmans gerast bæði utan- og innandyra og ótrúlegt hvað leikurinn nær að halda vel utan um efnið. Ný tæki og nýjar bardagaaðferðir eru kynntar spilaranum með reglulegu millibili og út allan söguþráðinn bætist eitthvað við verkfærakistu Batmans sem býður upp á fleiri skemmtilega möguleika fyrir spilarann. Þeir sem hafa spilað Batman: Arkham leikina áður kannast við margt af því sem í boði er, þar á meðal sprengjusprey, klifurkrækju, hökkunarbúnað, búmerang og fleira.
Það má segja að leikurinn fylgi formúlunni “ef það virkar vel, til hvers að breyta því?” Leikurinn spilast á sambærilegan hátt og eldri Arkham leikir þar sem Batman getur læðst um og fylgst með óvinum úr fjarska og gert skyndiárás í laumi, eða hoppað með látum beint til atlögu.
Bardagakerfi leiksins er mjög gott líkt og í öðrum Arkham leikjum. Flæði bardagana helst ótrúlega vel þar sem nauðsynlegt er að ná að verja sig og berja frá sér á réttum tímum.
Bardagakerfi leiksins er mjög gott líkt og í öðrum Arkham leikjum. Flæði bardagana helst ótrúlega vel þar sem nauðsynlegt er að ná að verja sig og berja frá sér á réttum tímum. Til að byrja með eru bardagarnir léttir en með tímanum eru nýir óvinir kynntir til sögunnar og er þá oft betra að forgangsraða hvaða óvini er best að rota fyrst (en eins og við vitum þá er Batman ekki hrifinn af þeirri tilhugsun að drepa fólk, sama hversu illt það er). Til dæmis gengur illa að kýla stóra óvini niður sem þola mörg högg þegar hópur af minni hefðbundnum óvinum eru að berja Batman á sama tíma. Í því tilfelli getur verið nauðsynlegt að forðast öll högg frá stóra óvininum á meðan spilarinn fókusar á að rota léttari óvini og enda svo bardaga með góðu rothöggu á þeim stóra. Einn af óvinunum getur gefið öðrum óvinum straum svo að Batman þarf að forðast þá tímabundið, ef hann snertir þá fær hann straum og missir líf. Óvinir Batmans verða fjölbreyttari með tímanum og á sama tíma verður bardagakerfið öflugara. Hæfileikar Batmans verða líka fleiri með tímanum þar sem spilarinn getur valið á milli þess að uppfæra Batman, og hans búnað, með ólíkum áherslum.
Uppfærð útgáfa af Batmobile, sjálfrennireið Batmans, er ein af nýjungunum í Batman: Arkham Knight. Með honum getur Batman komist á sérstaka staði í borginni og notað krókinn í honum til að festa við hluti og draga inn. Ekki nóg með það, heldur er hægt að breyta bílnum í brynvarða sprengjuvél til að sprengja skriðdreka og aðra óvini. Ekki eru allir sammála um ágæti bílsins í leiknum en ég verð að segja að mér finnst hann vera skemmtileg viðbót. Bílaeltingarleikirnir og “skriðdreka”-bardagarnir í leiknum auka fjölbreyttni leiksins bara enn frekar, á góðan hátt. Á nokkrum stöðum er nauðsynlegt að nota bílinn og nær söguþráður leiksins að halda góðu jafnvægi milli atriða, þannig að spilarinn er ekki alltaf að endurtaka sama hlutinn aftur og aftur. The Riddler virðist þó vera hugfanginn af bílnum þar sem hann er með nokkuð margar þrautir þar sem nauðsynlegt er að nota hann. Á sumum stöðum er bíllinn bara fyrir og of mikil áhersla lögð á mikilvægi hans, en ekki er nauðsynlegt að klára þrautirnar sem The Riddler setur fyrir Batman, heldur er það einn hluti af mörgum aukaverkefnapökkum Batmans.
Batman: Arkham Knight er stórleikur og klárlega einn af betri leikjum ársins. Hann býður upp á fjölbreytta spilun og grípandi söguþráð. Ef spilarinn fylgir bara aðalsöguþræði leiksins fær hann fljótt aðgang að ýmsum verkfærum sem eru notuð mis mikið, þess vegna getur verið gott að grípa í nokkur aukaverkefni milli atriða í aðalsöguþræði leiksins til að auka fjölbreyttnina og prófa nýjungar. Leikurinn uppfyllir hasarþörf spilarans en þrautirnar í leiknum eru misgóðar. Einu gallar leiksins eru þrautirnar og skortur á nýjungum fyrir reynda Arkham spilara. Þetta er annars ómissandi leikur fyrir aðdáendur Batmans. Batman: Arkham Knight nær með grípandi sögu, fjölbreyttri spilun, flottri grafík og góðri hljóðvinnslu að sannfæra spilarann um að hann sé Batman. Hæ. Þú ert Batman. Vertu velkominn til Gotham.