Leikjarýni

Birt þann 17. júlí, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins

Leikjarýni: Magicka 2

Leikjarýni: Magicka 2 Nörd Norðursins

Samantekt: Þetta er æðislegur leikur og ég mæli með honum sterklega ef þú þekkir aðra sem þú getur spilað með.

4.5

Æðislegur


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Daníel Páll Jóhannsson skrifar:

Magicka 2 er leikur frá Pieces Interactive og gefinn út af Paradox Interactive sem fjallar um galdrakarla í Midgård. Leikurinn er framhald af fyrri leik sem heitir Magicka og var nokkuð vel liðinn. Magicka 2 byrjar á því að segja sögu galdrakarla í heiminum og hvernig þeir lögðu allt í rúst með stríði sín á milli.

Bændur, aðalsmenn, féhirðar og hirðfífl urðu öll saman fyrir barðinu á göldrunum og ýtti þetta undir stöðugt hatur á galdra og alla notendur galdra. Spilari byrjar með galdrakallinn sinn í rústum Aldrheim, sem er stærðarinnar kastali. Í kastalanum er farið í gegnum stutta kynningu á hvernig galdrar virkar í leiknum og hvernig er hægt að spila leikinn.

Magicka2_01

 

Galdrakerfið

Galdrakerfið í Magicka 2 er algjörlega grunnurinn í leiknum og er algjör nauðsyn að kunna vel á það. Það eru 8 galdraefni sem spilari hefur aðgang að og hvernig hann blandar þeim saman hefur áhrif á hvaða galdur kemur. Galdraefnin eru; frost, líf, skjöldur, vatn, elding, arcane, jörð og eldur. Spilari getur valið frá einum til fimm galdraefnum til að blanda saman. Ef aðeins einn eldur er valinn og galdurinn kastaður, þá kemur lítil eldlína frá galdrakallinum sem gerir lítinn skaða, en ef fimm eldum er blandað saman og kastað þá eykst krafturinn. Þegar efnunum er blandað saman þá gerast stórskemmtilegir hlutir, eins og að blanda saman jörð og eldi býr til eldhnött sem hægt er að kasta í óvinahóp, eða prufa að spreyja hóp óvina með vatni, frysta þá síðan og síðan kasta í þá steinhnullungi þannig að þeir brotni. Sum efni ber samt að vara sig að blanda saman, eins og t.d. vatn og eldingu. En sum efni blandast vel saman þótt að þau virðast vera algjör andstæða, eins og eldur og vatn en sá galdur býr til sjóðheita gufu.

 

Magicka2_02

 

Margir að spila saman

Leikurinn sjálfur er erfiður þannig að endilega finndu aðra galdrakarla til að taka þátt í leiknum með þér, en það geta allt að fjórir verið að spila saman. Það er greinilegt að leikurinn er hannaður með það í huga að það séu margir að spila saman enda er það miklu skemmtilegra! Því galdrar sem þú kastar skaða ekki bara óvini, heldur líka vini. Búinn að vera að taka tíma til að búa til öflugan eldhnött til að senda í óvinahópinn? Félagi þinn labbar beint fyrir framan þig þegar þú sleppir músarhnappnum og það eina sem er eftir að félaganum eru blóðsletturnar á jörðinni, og óvinirnir ómeiddir. Þetta er alls ekki ólíkleg staða, og mun líklega koma upp oftar en einu sinni. Örugglega oftar en tíu sinnum. En dauðinn í leiknum er ekki nema smá kláði því svo lengi sem aðrir galdrakarlar eru lifandi þá geta þeir lífgað mann við á auðveldan hátt. Þannig að dauði, af hendi óvinar eða vinar, er ekki langvarandi skaði heldur oftar en ekki eitthvað sem maður getur hlegið dátt að og haldið áfram að smella göldrum í smettið á óvinum og vinum.

Með fylgir mynd af skemmtilegri tölfræði úr leiknum hjá mér eftir að hafa klárað söguna. Megnið af leiknum spilaði ég í erfiðasta erfiðleikastiginu með þremur öðrum galdrakörlum. Ég vil meina að flest skiptin sem ég hafi dáið hafi verið af þeirra hendi.

 

Magicka2_stats

 

Endurspilun

Leikurinn ýtir undir endurspilun með svokölluðum „artifacts“ sem hægt er að virkja þegar spilari hefur klárað leikinn. Hver artifact hefur mismunandi krafta og hafa áhrif á allan leikinn, t.d. eru hlutir sem láta eldingar gera meiri skaða, láta eld gera minni skaða, og þaðan eftir. Hægt er að hafa 6 artifacts í gangi, sem geta gjörbreytt leiknum. Ásamt því að finna artifacts er hægt að finna öflugri og öðruvísi kufla (e. robes), vopn og stafi. Allt þetta getur maður notað á galdrakallinn sinn þegar leikur er byrjaður og hefur þetta gríðarleg áhrif á hvernig leikurinn er spilaður. Sumir kuflar gefa kannski auka skaða í eldgöldrum en minnka skaðann fyrir frostgaldra. Oft er þetta aukning í sumum göldrum en á móti kemur að aðrir galdrar virka ekki eins vel.

Sagan í leiknum er nokkuð fyndin og skemmtilegt að hlusta á þá sem eru að tala. Við og við heyrir maður íslensk orð detta inn, en annars er málið sem talað er eins og einhver hafi tekið norðurlandarmálin og hent í blandara. Sagan er ekki sterkasta hlið leiksins, en samt gaman að henni.

 

Magicka2_03

 

Niðurstaða

Það skemmtilegasta sem ég gerði í þessum leik var að ná að spila með þremur öðrum og allir að spjalla saman yfir spjallforrit. Hláturinn sem kom þegar eitthvert planið okkar klikkaði og við dóum allir var með því besta sem ég hef lent í. Sérstaklega þar sem sumir galdrarnir búa til óvænta hliðarverkanir ef þeir skarast. Ef galdrakall er að kasta lífgeisla á vin en annar galdrakall kastar dauðageisla þannig að geislarnir skarast þá kemur gríðarleg sprenging, enda líf og dauði algjörar andstæður. Þetta er oft auðvelt að lenda óvart í þegar leikurinn er í fullu standi og her óvina er á leiðinni að murka úr þér líftóruna.

Að spila þennan leik einn er ekki að upplifa leikinn að fullnustu. Þetta er æðislegur leikur fyrir þetta verð og ég mæli með honum sterklega ef þú þekkir aðra sem þú getur spilað með.

4,5 / 5 stjörnum

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑