Birt þann 10. júní, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Microsoft kynnir Halo og fleiri leiki á E3 2014
Nú hafa helstu leikjafyrirtækin lokið sinni aðal kynningu fyrir E3 leikjahátíðina miklu í Los Angeles sem stendur yfir dagana 11.-13. júní. Á Microsoft kynningunni var meðal annars sýnt úr nýjum Tomb Raider leik, skemmtilegum Dead Rising 3 aukapakka, Halo afmælisútgáfunni og fleiru.
Call of Duty: Advanced Warfare
Microsoft hóf kynninguna á því að sýna úr Call of Duty: Advanced Warfare þar sem vélmenni og tæknibúnaður er notaður óspart í hernaðarskyni.
Forza
Forza leikjaserían hefur laðað marga bílaunnendur að Xbox leikjatölvunni en í honum geta spilara valið á milli fjölmargra bílategunda og keppt í kappakstri bæði í einspilun eða fjölspilun. Tilkynnt var að hinn frægi Nürburgring hringur í Þýskalandi væri nú aðgengilegur Forza 5 spilurum að kostnaðarlausu í gegnum leikjaþjónustu Xbox. Einnig var sýnt stutt brot úr næsta leiknum, Forza Horizon 2, sem inniheldur meðal annars dínamískt veður umhverfi og spilast í 1080p. Leikurinn er væntanlegur á Xbox 360 og Xbox One þann 30. september 2014.
Evolve
Nýtt sýnishorn úr skotleiknum Evolve var sýnt á kynningunni. Í þessari dimmu stiklu eru fjórar hetjur kynntar til sögunnar; Assault, Trapper, Medic, Support – og síðast en ekki síst; skrímsli. En spilarar geta valið á milli þess að spila sem áðurnefndar hetjur eða sem skrímsli sem berst gegn hetjunum.
Assassin’s Creed Unity
Assassin’s Creed Unity var einn af þeim leikjum sem stóð upp úr þessari kynningu. Um er að ræða nýjan leik í AC leikjaseríunni þar sem spilarinn stjórnar leigumorðingja á tímum Frönsku byltingarinnar. Í leiknum geta allt að fjórir spilarar spilað leikinn samtímis í samvinnu (co-op) og endurupplifað merka tíma í París á 19. öld. Leikurinn er væntanlegur á PC, PS4 og Xbox One 28. október næst komandi.
Dragon Age: Inquisition
Tilfinningaþrungið sýnishorn úr Dragon Age: Inquisition var sýnt þar sem grafík og útlit leiksins sést nokkuð vel og ekki hægt að segja annað en að leikurinn líti vel út. Leikurinn kemur út 7. október 2014 á PC, PS3, PS4, Xbox 360 og Xbox One.
Sunset Overdrive
Sunset Overdrive braut kvöldið upp á skemmtilegan hátt. Leikurinn virkar eins og samblanda af Dreamcast leiknum Jet Set Radio, nema í stað þess að þvælast um borgina og spreyja á veggi þá drepuru afmynduð skrímsli sem hafa sýkst af nýrri veiru. Sunset Overdrive leggur greinilega mikið upp úr húmor og lítur leikurinn út fyrir að vera mjög flottur og léttmeltur þrátt fyrir grófan húmor og enn grófara ofbeldi. Leikurinn kemur eingöngu á Xbox One og er útgáfudagur settur, 28. október 2014.
Super Ultra Dead Rising 3 Arcade Remix
Í þessari yndislegu steiktu viðbót fyrir Dead Rising 3 mætir Dead Rising Capcom leikjum. Viðbótin er aðgengileg nú þegar á Xbox One og til gamans má geta geta áhugasamir niðurhalað lögunum úr leiknum hérna alveg ókeypis.
Dance Central
Dansæðið heldur áfram í Dance Central leikjunum með nýjum titlum; Disney Fantasia Music Evolved og Dance Central Spotlight á Xbox One.
Fable Legends
Hetjurnar í Fable Legends voru kynntar til sögunnar og leynast hætturnar á hverju horni í leiknum. Í fjölspilun leiksins vinna spilarar saman gegn óvinahópum. Auk þess er hægt að velja að vera óvinurinn í leiknum og fær spilarinn yfirsýn yfir allt borðið og skipuleggur árásir og setur upp gildrur fyrir hetjurnar. Beta leiksins verður fáanleg næsta haust.
Project Spark
Project Spark er nýtt leikjaumhverfi þar sem spilarar fá tækifæri til skapa sína eigin leiki. Leikjunum verður svo hægt að deila með öðrum spilurum sem mynda eitt stórt leikjasafn sem aðrir geta sótt. Leikurinn kemur út í desember á þessu ári á PC og Xbox One.
Ori and the Blind Forest
Einfaldur og ótrúlega stílhreinn og fallegur leikur frá Moon Studios. Útlit leiksins minnir svolítið á Limbo, nema með litum og mögulega meiri útlitslegri dýpt. Það verður áhugavert að sjá útkomuna á þessu en leikurinn verður eingöngu fáanlegur á Xbox One.
Halo
Stóra bomba kvöldsins hjá Microsoft var Halo: The Master Chief Collection. Þessi sérstaka útgáfa verður eingöngu fáanlega á Xbox One og inniheldur fjóra Halo leiki á einum disk. Fyrsti Halo leikurinn hefur nú þegar verið endurgerður og verður Halo 2 auk þess endurgerður fyrir The Master Chief Collection, en liðin eru heil 10 ár frá því að Halo 2 kom út. Bæði í Halo 1 og Halo 2 verður hægt að skipta á milli þess að spila endurbættu og upprunalegu útgáfu leikjanna á einfaldan hátt. Leikirnir innihalda yfir 100 borð í fjölspilun sem verða öll aðgengileg eigendum The Master Chief Collection sem verður hægt að spila á virkum netþjónum, í 60 römmum á sekúndu. Með pakkanum fylgja þættirnir Halo: Nightfall og 4.000 leikjastig (GS). Við þetta má svo bæta að Halo 5: Guardians fer í beta spilun í desember á þessu ári og verður að líkindum kominn í verslanir á næsta ári.
ID@Xbox
Þó nokkrir indí leikir eru væntanlegir á Xbox, en ID@Xbox er fyrir sjálfstæða leikjaframleiðendur sem búa til leiki á Xbox. Sýnd voru stutt sýnishorn úr Aztez. Knight Squad. White Night, Earthlock. Cuphead og fleiri leikjum.
Rise of the Tomb Raider
Leikurinn fékk ekki sérstaka kynningu en það er gott að vita að nýr Tomb Raider leikur sé á leiðinni, sérstaklega eftir að nýjasti Tomb Raider leikurinn náði að endurlífga seríuna. Rise of the Tomb Raider er væntanlegur í desember 2015.
The Witcher 3: Wild Hunt
Nýtt sýnishorn úr The Witcher 3: Wild Hunt þar sem sést hvernig spilun leiksins virkar. Leikurinn kemur á PC, PS4 og Xbox One 24. febrúar 2015.
Phantom Dust
Tilkynnt var að Xbox leikurinn Phantom Dust frá árinu 2004 yrði endurgerður fyrir Xbox One.
Við endum þessa syrpu á nýjum sýnishornum úr The Division, Scalebound og Crackdown 3 .
The Division
Scalebound
Crackdown 3
Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
leikjanörd og ritstjóri Nörd Norðursins.